Um daginn sló ég gamlar launatölur inn í verðlagsreiknivél og urlaðist yfir niðurstöðunum. Ástæðan? Jú, þar fékk ég nefnilega eftirfarandi staðfest: Ég var með alveg jafn glötuð laun í öll þessi ár og mig minnti. Skyndilega blossaði upp einhvers konar reiðikergja sem ég hef burðast með í rúm fimmtán ár og ég sprakk.
Ég vissi alveg að ég var með léleg laun þegar ég var nýskriðin út úr háskólanum. En að fá það staðfest á þennan hátt í boði verðlagsreiknivélarinnar, að sjá svart á hvítu hversu djöfullega lélegt og lágt þetta réttilega var gerði mig gjörsamlega brjálaða. Og rúsínan í rembuendanum var síðan það að gaurinn á næsta borði, gjarnan með styttri starfsaldur og minni menntun en ég, var með hærri laun. Mhm. Þessi „gaur” var þarna á hverjum einasta vinnustað þar sem ég vann næstu árin. Og jú, jú, ég „þorði” svo sannarlega að láta í mér heyra. Ég krafðist ítrekað hærri launa í launaviðtölum. Var fullkomlega óhrædd að biðja um hærri laun hvenær sem mér fannst ég eiga það skilið. Og þegar ég fékk þau ekki þá sagði ég upp og fór annað. En ég er samt ennþá reið.
Og vitiði hvað? Mér er kúkasama þó allur heimurinn viti það. Ég nenni ekki að afsaka það lengur, að þykjast bara hafa verið sátt við þessi „tækifæri” sem ég fékk í „eftirsóknarverðum bransa” og bíða svo og vonast eftir því að hálfur hluti lagist af sjálfu sér. Með tímanum. Því gott fólk, það tekur ekki bara nokkur misseri heldur margar aldir að vinda ofan af 2000 ára gömlu feðraveldisrugli. Ég meina, það er ennþá verið að kalla ákveðin störf „kvennastörf” í umræðunni í dag. Karlar stjórna öllum skráðum fyrirtækjum hér á landi og meirihluti kvenna, sem ég þekki, hefur upplifað kynbundinn launamun á eigin skinni.
Reiðin sjálf er bara svo elegant fyrirbæri og getur verið helvíti praktísk líka. Fyrir kulvíst og úrvinda fólk eins og mig þá er hún eins og innvortis hitapoki og kókaín í nös. Gleymum því heldur ekki að reiði er afl til réttlætis því þegar manni er algjörlega misboðið gefur hún manni orku til að breyta því sem er ósanngjarnt.
Hér kemur hugljúf æskuminning og rétt upp hönd hver einasta kona í alheiminum sem kannast við þetta: Frá því ég fór að hækka róminn yfir því að hafa vera mismunað vegna þess að ég er kona, hefur mér verið sagt að hafa róa mig, að vera ekki svona æst og vera ekki. Svona. Reið. Sem barn var ég það feimin að ég faldi mig undir borði á leikskólanum. Feimnin bráði af mér á unglingsárunum, guði sé lof (en þó ekki fyrir suma) og þá tók ég eftir einu merkilegu: Mér og vinkonum mínum var stöðugt sagt að róa okkur, hætta að hafa hátt og vera ekki svona fyrirferðarmiklar.
Ég veit ekki betur en karlar séu búnir að vera reiðir síðustu tíu þúsund árin. Frá því þeir skriðu út úr hellinum og börðu hver annan með lurkum og störtuðu hverri einustu styrjöld sem herjað hefur á jarðarkringlunni okkar, hafa þeir verið í alveg brjáluðu skapi. Bandvitlausir og reiðir. En það heitir auðvitað eitthvað annað: Lífsbarátta, grjótharka, að vera meistarar upp til hópa og fleira aðdáunarvert.
En þegar kemur að konum virðist reiðin bara stundum vera samfélagslega samþykkt. Ég hef til dæmis margoft reiðst þegar ég berst fyrir sjálfsögðum réttindum barnanna minna. Í þeim tilfellum þykir reiði mín og ákveðni alveg svakalega vönduð og ég er sögð dugleg og góð móðir. En þegar ég reiðist vegna kynjamisréttis? Þá er ég í ójafnvægi, æst og stjórnlaus. Þá hefði heiminum þótt þægilegra að fá eitthvað rólegt, heimabakað og einhverja óræða fimmtíu ára gamla kvenlega stemmningu.
Og svo ég vaði nú úr einu yfir í annað, eins og stjórnlausir reiðir öfgafeministir gera nú gjarnan: „Fokk ofbeldi” herferð UN Women einhver? Ég hef heyrt fleiri en einn og fleiri en tvo karla segja: „Var ekki hægt að nota eitthvert annað orð en fokk?” Þetta er svo reiðilegt og dónalegt. Uh...fokk nei! Ætli þeim myndi líða betur með slóganið: „Aðeins minna ofbeldi takk” eða „hæ, væruði til í að hætta að beita okkur ofbeldi ef það hentar?” Hefur það mögulega hvarflað að einhverjum að við séum bara komnar á fokkans endastöðina með þetta og að ekkert annað en „fokk” dugi til? Hættiði frekar að lemja okkur og/eða byrjið á að hvetja kynbræður ykkar til að hætta að lemja okkur ef herferðirnar okkar gegn ofbeldi fara svona fyrir þaninn brjóstkassann á ykkur.
Já, ég er reið. Og vitiði hvað? Ég ætla bara að halda áfram að vera fokking reið þangað til hlutirnir fara að breytast hérna á þessu heimili sem við köllum samfélagið okkar. Ég hef ekki tíma til að sitja þæg og bíða næstu 500 árin. Og ekki þið heldur. #teamreiði