VÍST.
Fyrir þrettán árum síðan gerðist það einn daginn að bakið á mér, tvítugri konunni var eins og það væri steinsteypt. Ég fór til læknis því að bakeymsli eru algeng í móðurættinni og ég var á nálum. Hann ráðlagði mér að fara í sjúkraþjálfun en ég sagði að það þætti mér agalega leiðinlegt. „En magadans? Ég hef heyrt að það liðki og styrki…” Ónei, andskotinn, nei. Mér fannst þetta svo niðurlægjandi fyrir konur og átti erfitt með að sjá mig fyrir mér sveiflandi bumbunni (sem var ekki til staðar, bara bjöguð sjálfsmynd eftir áratug í ballet)… svo ég fór í sjúkraþjálfun. Það fannst mér svo leiðinlegt að ég ákvað að prófa magadans.
Í Kramhúsinu tók á móti mér arabískur kvikur maður, um höfðinu lægri en ég, sem talaði bara arabísku og dönsku. Fullkomið. Eftir eitt lag hafði ég fundið mig. Ég mátti og átti að hristast og gat æft dönskuna í leiðinni. Magadans var ekki það sem ég hélt – að ein kona dansi í reykfylltu bakherbergi fyrir hóp karla er niðurlægjandi. En magadans er kvennahobbí – og tengist handverki og munnlegri geymd og það er borin mikil virðing fyrir honum þaðan sem hann kemur. Hann er notaður til að gera grín að því að minn líkami sé öðruvísi en þinn, konur dansa sig í gegnum túrverki og jafnvel fæðingar og í þessum tíma burt frá mögulegu snemmbrjósklosi.
Magadans er frjósemisdans og líka til að treysta vinkvennabönd. Dansinn er eldgamall, upphaflega dansaður af körlum og konum í tengslum við uppskeru og árstíðir en eftir að trúarbrögð komust í fastara form þar sem konur fengu lítil völd var dans bannaður. Konurnar héldu þó áfram að dansa, einar og leynilega og lifði dansinn í kvenlegri munnlegri geymd, eins og sögurnar okkar. Magadans sem fer fram í reykmettuðum bakherbergjum fyrir karlmannsáhorfendur er meiri nektardans en magadans, og eins öfugt og það hljómar: Mikilvægur liður í sjálfstæði kvenna í Mið-Austurlöndum á ákveðnum tíma, þar sem konur með takmörkuð atvinnutækifæri gátu hlaupist á brott og unnið fyrir sér án þess að vera vændiskonur (svipað eins og Burlesque-ið í Bandaríkjunum). Dansinn er í dag leið þeirra út úr feðraveldinu og blómstrar nú víðar í heiminum. Færustu dansararnir hafa komið sér í burtu og dansa utan Mið-Austurlanda, t.d. í New York, Los Angeles, Berlín, Prag og Stokkhólmi, vestrænum konum til mikillar gleði. Margir tengja magandansinn við kvennabúrin. Þar þróaðist dansinn og strúktúr komst á spor og fleira. Færustu magadansmeyjarnar ferðuðust á milli og kenndu stúlkunum þar, og innan skamms fóru þessir farandkennarar að stunda njósnir. Svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að kvennabúr voru á tímabili eina tækifæri kvenna á þessum stöðum til nokkurs konar menntunar.
Eftir að hafa vakið á mér mjaðmirnr í magadansi var næsta stopp Bollywood. Bollywood kemur með kvikmyndunum og þar er að finna sterkar og marglaga kvenpersónur. Lengi vel styrktu myndirnar hefðbundin gildi, en síðustu tuttugu árin hafa komið fram sjálfstæðar persónur sem fara ekki eftir norminu og það eru myndirnar sem raka mest inn: Konur sem stofna sinn eigin bissness, vilja ekki gifta sig bara einhverjum og svo framvegis. Stjörnufaktorinn þar hefur ljáð fjölda indverskra kvenna áhrifahrödd, til dæmis í verkefninu „Bollywood Actors Stand Up Against Violence.“
Ég reyndi og reyndi að klára háskólapróf, en svo fór sem fór að menntuðust varð ég í magadansi og Bollywood. Án þess að gera lítið úr læknavísindum hef ég hjálpað fjölda kvenna úr prísund bakverkja, á yfir 15 dansbörn (sumar komu með frjósemisvandamál, ekki allar), og það sem er mikilvægast: Hjálpað alls konar líkömum að skilja að þeir séu fallegir, þokkafullir og að það sé pláss fyrir þá í danssölum og á sviðum heimsins.
Og blessað twerkið
Eftir að hafa staðið að rassahristum í nokkur ár í Kramhúsinu kom ósk um það að kenna hinn óljósa dansstíl „Beyoncé-dansa.“ Jú, ég gæti það með minn bakgrunn. Við byrjuðum á einu námskeiði, sem fylltist … og svo framvegis svo í fyrsta sinn sem þetta var kennt voru kennd sex námskeið.
Áður en lengra er haldið minni ég á að það sem Miley Cyrus gerði á VMA fyrir nokkrum árum er ekki twerk. Það var eitthvað agalega ómenntað skak, og virtist mitt á milli þess að tvista og gera shimmy. En nóg um það.
Prófið að setja gott danslag á nálægt barn sem er nýfarið að standa upprétt. Hvernig hreyfir barnið sig? Jú, það beygir sig í hnjánum svo mjaðmagrindin hreyfist til og frá. Þetta er twerk. Eðlileg og náttúruleg gleðihreyfing sem einhvers staðar á leiðinni við förum að merkja sem „dónalega“ og „ekki fyrir mig.“ Að skaka til mjöðmunum er auðveldasta leiðin til að losa um endorfín (ok, mögulega eru „dónalegar” aðstæður þar að baki). Hvaða leikhúsrotta kannast ekki við hina stórkostlegu æfingu „fuck the wall“ eða „fuck the floor“ sem gengur út á nákvæmlega það að hífa upp móralinn með því endorfíninnspítingu?
Ég hef lesið komment um mig á vefmiðlum að ég megi hreint ekki kalla mig femínista því að ég sé magadansmær og sé að kenna konum einhvern klámdans ofan á það. Ég er 100% viss um að þeir sem þetta skrifa hafa aldrei mætt í tíma til mín, né þekkja til fólks sem hefur mætt. Ég get allavega staðfest að rassaköst í anda Beyoncé, hristingar ýmiskonar í magadansi og Bollywood og þokkaleikfimin í burlesque eru valdeflandi fyrir þær konur sem flotið hafa í gegnum salinn hjá mér. Dansinn sem ég kenni og stunda snýst um að fagna líkamanum sínum, fyrir sig, á sínum forsendum og ekki fyrir neinn annan. Tímarnir snúast ekki um að grenna sig, telja kaloríur eða móta líkamann á einn eða neinn hátt. Spor Beyoncé spretta ekki upp úr nýlegum klámpoppkúltúr, heldur úr götudansi, afrískum dansi, social dönsum og fleiru. Að segja að rassaköst séu niðurlægjandi er fáránlegt og sýnir lítinn skilning á hvaðan sporin koma, og jafnvel finnst mér léttur hvítrakonufemínismi að fordæma þau blákalt eingöngu því þau eru þokkafull. Þau eru þokkafull því þau eru framkvæmd í sjálfsöryggi. Prófið að syngja lag og twerka á meðan og segið mér svo að það sé eitthvað easy way out til að fela hæfileikaleysi á tónsviðinu.
Femínistar eru alls konar. Ef Beyoncé telst ekki femínisti vegna þess hvernig hún klæðir sig eða dansar, hver telst það þá? Ef ég má ekki hrista á mér appelsínuhúðina eins og mér nákvæmlega sýnist án þess að missa einhver femínistastig þá finnst mér þetta asnalegur leikur. Þetta minnir mig nú bara á kommentið fræga sem María Lilja fékk einu sinni: „Bíddu, hún er sko með varalit á myndinni... er hún þá femínisti?“