„Þú getur skráð þig inn með íslyklinum og hakað við að gerast líffæragjafi þegar þú deyrð og líka skráð þig úr þjóðkirkjunni. Ertu ekki búin að þessu eða?” Nei, ég er ekki búin að þessu enn. Ég þarf reyndar að drífa í því að gerast líffæragjafi en þetta með þjóðkirkjuna, ég er bara ekki tilbúin til að snúa baki við öllu saman. Nei, ekki fara uppá afturlappirnar, gefðu mér nokkrar mínútur. Ég er sammála þér að þjóðkirkjan fraus einhvers staðar á leiðinni og endar líklegast í moltukassanum þegar hún loksins þiðnar. Á sama tíma hafa trúarbrögð verið bendluð við stríð og hryðjuverk. Flóttamannastraumur. Alþjóðleiki Íslendinga eykst og kristinfræði hefur verið tekin af námsskrá, prestum úthýst úr grunnskólum og skipulagðar kirkjuheimsóknir í aðdraganda jóla með öllu bannaðar. Tengingin rofin. Og hvort vilja ungir einstaklingar að skattpeningarnir þeirra renni til þjóðkirkjunnar eða háskólans? Þetta er ekki einu sinni spurning. Vísindin maður, ekki þetta trúarkjaftæði.
En þetta snýst ekki bara um skattpeninga. Í þessari afstöðu endurspeglast róttæk viðhorf til tilverunnar og væntingar til mannsins. Maðurinn tekur bara við af guði. Það ríkir óbilandi trú á manninum og framþróun hans með vísindin að vopni. Óvissuþættir sem trúarbrögð leystu áður skrifast nú á vísindamanna að útskýra. Og vel hefur tekist til, raunar svo vel að við erum að rifna úr stolti. Við teljum okkur skilja flest á okkar skala en svo þynnist skilningurinn uppúr og niðrúr og er orðinn frekar þunnur handan Stóra hvells og skammtafræðinnar.
Ég óttast að við kunnum ekki að fara með alla snilldina. Í mannsheilanum rúmast á sama tíma þessir miklu vitsmunir og síðan nautheimska, stórmerkilegt alveg.Stundum óttast ég þá sannleiksþrá sem keyrir okkur í nýjar þekkingarvíddir. Af hverju óttast ég hana? Því að þekking er tvíeggja sverð sem getur snúist í höndunum á okkur. Með pensillínþekkingu fylgir einangraður stórubóluvírus eða miltisbrandur, með þekkingu um kjarnaklof fylgir kjarnorkusprengja, með gervigreind fylgir mögulega ofurgreind sem tekur af okkur völdin. Ég óttast að við kunnum ekki að fara með alla snilldina. Í mannsheilanum rúmast á sama tíma þessir miklu vitsmunir og síðan nautheimska, stórmerkilegt alveg.
Hugsaðu þér alla trivíuna, staðreyndirnar, mælingarnar og tölfræðina sem fróðleiksfýsnin hefur fært okkur og pældu í því hvað heimsmyndin er breytt. Eða hvað? Hún nefnilega er ekki nokkurn skapaðan hlut breytt. Atómin væru á sínum stað, frumurnar okkur væru að vinna sína vinnu og alheimurinn væri að þenjast út þó að við hefðum ekki minnstu hugmynd um það. Það eina sem hefur breyst er okkar framsetning á skynjun okkar á heiminum sem byggir á og takmarkast af okkar eigin getu til að skilja.
Hvort sem guð skapaði manninn eða maðurinn guð þá er víst að við sköpuðum vísindin þar sem kerfin sem þau byggja á eru alfarið okkar sköpun. Þannig hefur maðurinn tekið við af æðri mætti og því mikla ábyrgðarhlutverki sem honum var ætlað; að svara spurningum sem við bara vitum ekki svarið við. Auðmýktin í því að viðurkenna og horfast í augu við óvissuna, hugrekkið í því að samþykkja að vita ekki og róin sem fylgir í kjölfar þess að sleppa tökunum til einhvers æðra manni sjálfum er eitthvað sem við höfum verið svipt og höfum saknað síðan guð var settur út í kuldann. Við leitum logandi ljósi að ró í sálina og sækjum vatnið yfir lækinn til Asíu. Trúarmunaðarleysingjar leita í austræn trúarbrögð og vonast til að finna svörin, himnesku róna og friðinn í hugleiðslu, núvitund og hot yoga í World Class.
Ætlun mín var nú ekki trúboð af neinni sort. Mér finnst bara galið að halda að manngerð vísindin hafi svörin við öllu sem við mennirnir þráum að vita. Þessi ofurtrú á manngerða vísindalega þekkingu er nánast átakanleg, í það minnsta barnaleg. Vísindi fjalla um það sem við getum útskýrt, hlutlægan, mælanlegan og lýsanlegan sannleik. Trú á æðri mátt tekur við þar sem okkar getu sleppir og veitir okkur, já kannski bara frið og ró og leyfi til að sleppa, barnslegt áhyggjuleysi, frelsi. Frelsi til að vera auðmjúk og tengja við hinn sannleikann, þann huglæga, innra með okkur.
Æðri máttur og þjóðkirkjan er síðan tvennt ólíkt. En eitt er ljóst og það er að þjóðkirkjan nær ekki til þegna sinna heldur fælir þá frá með tilheyrandi kvíðafaraldri, og það eina sem getur bjargað trúnni frá ótímabærri handanveru er líklega bara guð sjálfur í hjarta þér kæri lesandi.