Reglulega fæ ég tölvupósta og fyrirspurnir frá fólki víðs vegar að þar sem ég er beðin um að veita hollráð og aðstoð, enda er ég yfirgnæfanlega mikilvæg og hæfileikarík og er með svör við öllu. Ekkert af þessu er satt. En ég er góður hlustandi og dugleg að hugsa í lausnum. Það er líka bara ákveðinn léttir sem felst í því að játa fyrir öðrum syndir sínar og fá til baka: „Oh já, svoleiðis, já ég hef lent í þessu líka.“ Því langar mig að deila nokkrum ráðum með ykkur, kæru lesendur, svo þið getið verið jafn frábær og ég.
- Geymdu ilmkerti og eldspýtustokk inn á baði. Það er fátt minna heillandi en að dúndra úr sér einum hnullung og hafa svo húsið angandi langt fram eftir degi, sérstaklega ef þú býrð í oggu poggu stúdíóíbúð. En jafnvel verra er að þurfa að fara fram, ná í kveikjara eða eldspýtur og fara svo aftur inn á bað. Ef gestir eru viðstaddir vita allir nákvæmlega hvað þú varst að gera.
- Jólaljósaseríur skulu settar upp í lok september og ekki teknar niður fyrr en þú getur vaknað með sólinni. Jólin hafa í raun sáralítið með þetta að gera, það er bara svo fjandi dimmt á þessari moldarhrúgu sem skagar upp úr hafinu að eitthvað verða menn til bragðs að taka til að draga úr skammdegisþunglyndinu. Ég er með eina hlýgula seríu í svaladyrunum mínum. Þú veist, svo ég opni þær ekki og fleygi mér fram af.
- Hafðu ávallt til einskonar sjúkrakassa við tumburmönnum tilbúinn áður en þú ferð að djamma. Settu fullan brúsa af vatni á náttborðið, fylltu ísskápinn af bláum Gatorade og taktu soja naggana úr frystinum því þú ert ekki að fara að „elda“ neitt á morgun. Annars lendirðu í því að þurfa að labba alla hundrað metrana í háskólabúðina á horninu með blóðhlaupin augu og líkamann að spila rúllettu milli niðurgangs og uppkasta. Svo skaltu hugsa til baka og velta þér uppúr öllum mistökum gærkvöldsins. En þú getur allavega huggað þig við þá staðreynd að þú átt þetta allt saman gjörsamlega skilið.
- Vertu dugleg að líta á björtu hliðarnar. Ef þú verður ógeðslega þunn og manst svo allt í einu eftir pistlinum sem þú átt að skila inn samdægurs hefurðu allavega nógu góða ástæðu til að skrópa í skólanum og sleppa því að fara í spinning. „Æi, ég kemst ekki í dag. Ég er sko að skrifa pistil fyrir Mannlíf.“ Nei, Rut. Þú kemst ekki í spinning í dag vegna þess að þú slátraðir hálfri vodkaflösku og þambaðir rauðvín í kringum þrjúleytið í nótt.
- Aldrei þamba rauðvín.
- Hættu að drekka. Ég var edrú í rúmt ár fyrir gærkvöldið en eins og sannur vísindamaður varð ég að taka A-B-A-B rannsóknarsniðið á þetta. Ég man ekki alveg hvernig það gengur fyrir sig en það er svona sirka svona: A: drekka mikið, fá djammviskubit og þynnku. B: hætta að drekka. A: byrja aftur að drekka – fá djammviskubit og þynnku. B: ákveða að hætta aftur að drekka. Mér sýnist niðurstöðurnar nokkuð augljósar.
Þetta þarf ekki að vera flóknara, partur af því að verða fullorðinn er einfaldlega að læra að drekka af ábyrgð og öryggi. Að læra að vera félagslyndur og í stuði án þess að verða hauslaus, fá sér hvítvín með mat eða einn bjór eftir vinnu. Go big or go home á ekki alltaf við. Sérstaklega þegar þú leitar sökum þynnku í svaðalega subbulegan mat en vegna óþols fyrir glúteni, laktósa og almennri hamingju verðurðu bara ennþá veikari. Því ætla ég að afneita áfengi, flytjast til Tíbet og hugleiða mig inn í innri frið. Eða þúst, bara taka því rólega og gera betur næst.