Það er fimmtudagur í febrúar. Klukkan er hálf fimm. Ég hef ranglast um í Bónus, því árásagula musteri Satans síðasta hálftímann á síðustu dropum dagsins. Skutl á æfingar bíður, annað í Skipholt, hitt í Öskjuhlíðina. Hvaða sadistasjónarmið ráða staðsetningu á tómstundaiðkun barna í miðju umferðaröngþveiti á háannatíma? Röðin er næstum komin að mér, ég finn gamalkunna angist byggjast upp. Hún byrjar neðst í kviðarholinu og færist svo hægt en örugglega upp meltingarveginn og endar sem einhvers konar brjóstsviðakökkur neðst í hálsi. Bráðum byrjar pípið. Af hverju þarf að vera píp?
Þjáður kassakrakki umlar Góðan daginn og hefst samviskusamur handa við pyntingarnar. Ég reyni rétthugsandi að ná augnsambandi við hann og brosa því ég er hrædd um að hann mistúlki panikkaða störuna niður á við sem borgaralega fyrirlitningu gagnvart afgreiðslufólki, hann virðist þó fremur smeykur en þakklátur áreynslufullri geiflunni sem ekki tókst að verða að móðurlegu brosi. Ég tíni eins hratt upp á færibandið og ég get, reyni að raða mjólk og frosna sjittinu fremst því það á að fara neðst í pokana sem bíða mín ögrandi hinum megin, vissir í sinni ósvífnu sök um að mér muni venju samkvæmt takast að kremja brauðið og sprengja jógúrtina því pípið í skannanum tekur mig á taugum. Ég næ aldrei að halda í við það og enda með allt of troðið hólf mín megin meðan óþolinmóðir kúnnar bíða eftir sínu hólfi, anda í hnakkann á mér og velta vafalítið fyrir sér hvernig hægt sé að vera svona fáránlega léleg í jafn rútínaðri athöfn sem hver sjálfbjarga einstaklingur ætti að vera búinn að mastera um tvítugt. Fokk, þunglyndi unglingurinn er sérlega fær í sínu starfi. Pípið er að ná sögulegum hraða. Ég svíf eitt augnablik út úr líkamanum og brotlendi í miðju píptesti í íþróttasal Réttó seint á síðustu öld, streituhormónin í blóðinu á sama reiki og í sjöunda stigi þess barnaníðs sem skólakerfið samþykkir enn í dag sem ásættanlega námsmatstækni í íþróttum. Loks stöðvast pípið og sálin svamlar aftur inn í líkamann. Ég borga einn sjötta mánaðarlaunanna fyrir fjóra afleitlega fyllta poka og rogast með þá út í bíl, skrensa í slabbinu á strigaskónum og blotna í fæturna. Vetrarskór fást í Kringlunni, segja þeir, en áfallastreituröskun jólainnkaupanna er enn of alvarleg til að ég geti nálgast þann stað ódrukkin. Ég treð pokunum í bílinn og engist af samlíðan með brauðinu sem kremst á botninum. Öll erum við aðþrengd, í einhvers konar kremju. #jesuis brauðið.
Myrkur og mengun og fimmtíu þúsund bílar bíða mín sem allir nálgast á ógnandi hraða því ég er líka með mikinn umferðarkvíða og keyri hægar en ömmur allra. Reyni að hunsa símagerpið sem pípir í sífellu í farþegasætinu, sendi hatursstrauma til Landkrúsertýpunnar sem flautar á mig og þrusast fram hjá. Ég vona að konan þín fari frá þér fyrir hjólreiðamann.
Kemst að lokum heim til mín og sver að fara aldrei aftur af bæ. Tilkynni fjölskyldunni að þessar matvörur skuli duga fram að vorleysingum og þá munum við taka upp sjálfsþurftarbúskap, flytja á Djúpavog og veiða í soðið þegar veður leyfir. Höldum kannski nokkrar hamingjusamar hænur og eina rólyndislega heimiliskú. Að sjálfsögðu verða þó sísvangir gemlingarnir búnir með allt eftir tvo daga, ég þyrfti að slátra heilli kú til að halda þeim söddum yfir helgina.
Mér er ekki fyllilega ljóst hvort daglegt amstur veldur öðru fólki þarna úti í lífinu jafn mikilli og einlægri örvæntingu og mér, er sannarlega opin fyrir þeim möguleika að ég þjáist af einhvers konar kvíðaröskun. Mér þykja allskonar einfaldar aðstæður óbærilegar. Þó hef ég heimildir fyrir því að sú samfélagsskipan sem við höfum komið okkur upp valdi fleirum en mér vanlíðan, eða svo segir tölfræði íslenskra apóteka sem afgreiða heimsmet af geðlagandi lyfjum ár hvert. Samt álpumst við hlýðin í gegnum þessa daglegu rútínu dag eftir dag, skráum okkur orðlaus og of úrvinda til að efast í kapphlaupið í hamstrahjólinu sem snýst fyrir einhverja allt aðra en hinn almenna hamstur. Umgjörðin, hagkerfið, allt draslið sem við bjuggum til hefur öðlast eigið líf, stökkbreyst og vaxið í engum takti við sálartetur hins hægfara þróaða mannapa sem var þúsundir ára að finna út úr þessu með eldinn. Fyrir kortéri síðan vorum við bara að kemba ull og orna okkur eitthvað - svo komu byltingar sem kenndu sig við iðnað og tækni og áttu að einfalda okkur lífið og létta á vinnuálagi. Í staðinn átu þær börnin sín, bundu okkur föst við hin ýmsu tól og tæki, stimpilklukkur og skrifstofustóla og gerðu okkur að auðsveipum kvíðastilltum kerfisþrælum. Hagsmunaöfl hafa svo talið okkur trú um að svona sé bara lífið. Velkomin í nútíma samfélag, ef þú fúnkerar ekki erum við með ýmsa ráðgjafa og hin og þessi núvitundarnámskeið sem gætu létt þér lífið og sannfært þig um að lausnin sé í raun og sanni innra með þér. Finndu bara út úr því hvernig þú getur lifað af í auga stormsins, hver er sinnar geðheilsu og gæfu smiður. Ef það tekst ekki má vera að hægt sé að greina þig með einhverja vel valda röskun og meðhöndla þig í samræmi við það.
Æ fleiri grunnskólabörn líða lyfjuð um skólaganga, soguð inn í símana sína og samfélagsmiðla sem pípa á þau í sífellu og sannfæra þau um allskonar annað og eftirsóknarverðara, þarna úti einhvers staðar. Ef þeim bara tekst að mastera meiköppið og eignast allar Champion peysurnar. Blessuð litlu hamstrabörnin hoppa snemma um borð. Snapchat er líka harður húsbóndi. Dóttir mín á fimmtánda ári reyndi um daginn að fara í bað símalaus. Hennar biðu sjötíu og sjö ósvöruð snöpp að hálftíma baði loknu. Hún starði buguð á símann sinn og og sagði brostinni röddu: ,,Ég vildi að snapp væri ekki til." Hófst samt sigruð handa við svörun, því það er félagslegt sjálfsmorð að svara ekki snöppum.
Þetta er ekki bara ég og Bónus og okkar ofbeldissamband. Við erum öll að fríka út, mismikið en hægt og örugglega. Þeim vegnar best sem ekki nema pípið, næmari eyru ærast í áreitinu. Öll erum við auðlind samskiptamiðla sem borga þó engin auðlindagjöld heldur afskræma bæði menningu og sálarlíf með útsmoginni stýringu og ánetjanfræði. Allt hverfist um hámarksgróða og hagræðingu, við erum öll ómeðvitað í fullri vinnu við að skapa gagnagrunna sem byggja má áframhaldandi neyslumenningu á, föst í okkar eigin Truman Show.
Undirrituð er engin undantekning. Börnin mín fengu samtals sjö Champion peysur í jólagjöf og áður en Sólrún Diego kom inn í líf mitt vissi ég í alvöru ekki að hægt væri að þrífa brauðristina. Það er allskyns snilld og endalaust í boði en fórnarkostnaðurinn er umtalsverður og enn kunnum við ekkert að umgangast tæknina. Börnin okkar eru tilraunakynslóðin, afkvæmi þeirra munu hneykslast á eftirlitslausri netnotkun og símafíkn afa og ömmu á sama hátt og við dæmum eldri kynslóðir fyrir að hafa reykt við eldhúsborðið og ekki sett okkur í bílbelti. Allt tekur sinn tíma.
Stundum gleymist samt að það erum við sem ráðum hvernig þetta er, hérna hjá okkur. Okkar er kollektífa valið og valdið. Við getum lagað og leiðrétt, stýrt skipinu áfram skárri leið svo færri detti útbyrðis. Við getum endurskoðað skiptingu auðs, hagrætt í þágu mannlegra þarfa, náttúru og umhverfis. Þannig gætum við unnið miklu minna, andað meira og haft aukinn tíma og orku fyrir afkvæmin. Svo gætum við gert allskonar fleira sniðugt, dreift matvöruverslunum í göngufæri, slakað á umferð og slakað á í umferð. Sett umgengnisreglur á snjallsíma, fjarlægt þá til að mynda úr grunnskólum og gefið börnunum okkar þannig smá breik. Kvíði og athyglisbrestur myndu snarskána. Svo væri næs ef einhver gæti lækkað í þessu pípi.