Auglýsing

Ég sný lyklinum í skránni. Einhverra hluta vegna þarf að toga húninn upp í staðinn fyrir niður um leið og lyklinum er juggað til í skráargatinu. Það tekur mig næstum hálfa mínútu að opna dyrnar. Ég geng niður dimmar tröppur í gegnum hlandskýið. Stundum gleymist að læsa og þá komast rónarnir inn í anddyrið. Á ganginum eru allir veggir útkrotaðir. Ég skima í myrkrinu eftir okkar hurð, sem ég finn að lokum með dyggri aðstoð kveikjarans. „Ætlaði helvítis kallinn ekki að vera búinn að redda þessum ljósum fyrir löngu?“ hugsaði ég, en ég gat ekki rekið á eftir honum því við skulduðum leigu.

Hljómsveitaræfingin átti að hefjast fyrir 20 mínútum, en samt er ég fyrstur á staðinn. Inni í herberginu okkar er dauf kannabislykt, enda á bassaleikarinn í hinu bandinu það til að laumast inn eftir miðnætti með vinum sínum til að reykja. Nokkrum mínútum á eftir mér birtist trommuleikarinn í minni hljómsveit. Hann heldur á volgum Subway–bræðingi í glærum plastpoka. Hann var bara að vakna, enda var hann lengi að í gær. „Hvert fórstu eftir Ellefuna?“ spyr ég og fæ alla sólarsöguna, eða það af henni sem hann man. Gítarleikarinn er á leiðinni. Hann fékk lánaðan bíl móður sinnar, en þurfti að skutla henni eitthvert fyrst. Söngvarinn mætir ekki í dag því hann er að fara í próf á morgun.

Auglýsing

Hljóðfærin eru eins og við skildum við þau í gær, þannig að við getum bara talið í um leið og trommarinn kyngir síðasta bitanum. Gítarleikarinn er mættur og gengur um gólf. Hann rýnir í ruslið á gólfinu í von um að finna streng eins og þann sem slitnaði í gær. Trommarinn er sestur við settið og tekur sopa af orkudrykk. Hvað er málið með trommara og orkudrykki? Hvar finna þeir alla þessa drykki? Að lokum eru allir tilbúnir og við byrjum.

Eftir 45 mínútur af stanslausri keyrslu tökum við pásu. Við setjumst í sófann með suð í eyrunum og reykjum sígarettur. Það má reyndar ekki reykja inni, en við gerum það samt. Við erum rúmlega tvítugir og það segir okkur enginn fyrir verkum. Ég segi strákunum frá skilaboðum sem ég fékk á Myspace í gær. „Það er semsagt einhver gaur á Grænhöfðaeyjum sem vill endilega fá okkur til að hita upp fyrir bandið sitt.“ Þeir virka spenntir, en spyrja hvort ég hafi heyrt eitthvað frá Airwaves. „Nei, en það er búið að bjóða okkur að vera Off-Venue á Grand Rokk í hádeginu á miðvikudeginum. Við fáum tvo bjórmiða á mann.“

Við eyðum restinni af pásunni í að tala um hvað hin og þessi bönd séu ömurleg, rennum aftur í gegnum prógrammið okkar og förum svo á Alien vs. Predator. „Æfa á morgun?“ spyr trommarinn, sem ætlar ekki með. Hann þarf að spila með hinu bandinu sínu í Kaffi Hljómalind kl. 20. „Já, verum í bandi.“

Ég sný lyklinum í skránni. Einhverra hluta vegna þarf að toga húninn upp í staðinn fyrir niður um leið og lyklinum er juggað til í skráargatinu. Það tekur mig næstum hálfa mínútu að opna dyrnar. Hvað er málið með hurðir og æfingahúsnæði? Stendur það einhvers staðar í lögum að þær verði að vera í ólagi? Ég kveiki ljósið og fer úr skónum til að spora teppið ekki út. Í uppþvottagrindinni hjá vaskinum liggja þrír óþvegnir kaffibollar. „Voðalegir sóðar eru þetta,“ hugsa ég um leið og ég tek ljósmynd sem ég set inn í Facebook–grúppu æfingarýmisins. „Hverjir skildu þessa bolla eftir án þess að vaska þá upp? Við þurfum allir að leggjast á eitt við að bæta umgengnina hér.“ Set þennan texta með myndinni og bæti að lokum við góðlegasta broskallinum sem ég finn.

Hljómsveitaræfingin átti að hefjast fyrir 5 mínútum, en bassaleikarinn er enn ekki kominn. Söngvarinn mætir hins vegar ekki í dag. Hann er með börnin á einhverju fótboltamóti úti á landi. Við hinir notum tímann til að stilla upp dótinu okkar og ákveða lagalistann á meðan við bíðum eftir bassaleikaranum. Að lokum birtist hann, en honum hafði gengið illa að svæfa. „Sá litli er með eyrnabólgu,“ segir hann. Ég bendi honum á Einar í Mjóddinni. „Já, við erum einmitt hjá honum. Hann er að fara í rör í næstu viku.“ Eftir 10 mínútna umræður um eyrnabólgur barnanna okkar, þar sem allir leggja orð í belg, setjum við tappana í okkar eigin eyru og teljum í.

Eftir 25 mínútur erum við orðnir dauðuppgefnir og tökum því pásu. Einn okkar hellir upp á kaffi en við hinir setjumst í sófann. Ég spyr gítarleikarann út í endurfjármögnunina á húsnæðisláninu hans. Ég er nefnilega að spá í að skipta yfir í óverðtryggt lán, enda óttast ég að verðbólgan sé rétt að byrja. „Já, ég myndi alveg mæla með því,“ segir hann. „Ertu ekki líka örugglega að nýta þér það að leggja séreignasparnaðinn inn á höfuðstólinn?“ spyr hann á móti. Hvað heldur hann eiginlega að ég sé? Auðvitað er ég að nýta mér það.

Hljómborðsleikarinn kemur með nýlagað kaffið og skenkir í bollana. Hjá öllum nema trommaranum, sem drekkur ekki kaffi út af bakflæðinu. Auðvitað ætti enginn okkar að drekka kaffi eftir kvöldmat, en við gerum það nú samt. Við erum tæplega fertugir og það segir okkur enginn fyrir verkum.

Við förum um víðan völl í spjallinu og að lokum hefur enginn neitt að segja. 40 mínútur eru liðnar og við sitjum þarna í þögninni og dæsum. „Eigum við kannski bara að segja þetta gott?“ spyr ég geispandi. „Æ já, ég er alveg til í að fara að koma mér,“ segir gítarleikarinn, enda klukkan orðin rúmlega 22. Við vöskum upp, skellum í lás og kveðjumst fyrir utan jepplingana okkar. „Sjáumst í þarnæstu viku.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði