Einstaka sinnum, við ákveðnar veðurfræðilegar aðstæður, fæ ég undarlega tilfinningu. Yfirleitt gerist þetta við akstur á vissum slóðum, á Bústaðarveginum svo nánar sé tiltekið. Erfitt er að segja til um hvað veldur og útiloka ég ekki að um skammhlaup í heila sé að ræða, óháð tíma og rúmi. Einhver óraunveruleikatilfinning heltekur mig, grunur um að ekki sé allt sem sýnist. Umhverfið breytist í leiksvið um stund og ég sé í gegnum allt. Trén verða grunsamlega græn, vegfarendur í strætóskýlum vélrænir og hundarnir ósannfærandi hamingjusamir. Síðan líður þetta hjá, matrixið lokast mér aftur og ég held mína leið rétt eins og ekkert hafi gerst. Enda gerðist ekkert, eða hvað?
Mögulega er hér um að ræða áhrif hins alsjáandi eftirlitssamfélags á sálarlíf hinnar hefðbundnu húsmóður í Smáíbúðarhverfinu. Trúlega ýtir hún því frá sér, eins og flestir, í hversdeginum. Hún hvílir róleg í þeirri sannfæringu að hún persónulega sé ekki nógu merkileg manneskja til að öfl henni ofviða hafi raunverulegan áhuga á að fylgjast með henni og reynir að láta þar við sitja. Hún þakkar þæg fyrir eftirlitsmyndavélar í hraðbönkum og verslunum, segir sjálfri sér að hennar eigið öryggi sé þar í fyrirrúmi en gætir þess þó að uppljóstra hvorki pin-númerinu sínu né bora í nefið við slíkar aðstæður. Hún lætur sem augnskanninn í World Class krípi hana ekkert út, enda er kona hvort eð er búin að samþykkja allsherjar skönnun um leið og hún stígur fæti inn á slíkan stað. Hún játast auðmjúk facebook, snapchat og öllu hinu orðalaust, hakar í viðeigandi kassa og samþykkir jafnvel óheftan aðgang ýmissa njósnaforrita fyrir það eitt að vita hvaða Disney-prinsessa hún væri eða hvernig hún liti út sem karlmaður. Á þeim vettvangi sættir hún sig við að vera allra en huggar sig þó við að þau sjái samt bara það sem hún leyfir þeim að sjá, það sem samræmist þeirri ímynd sem hún reynir að skapa sér á opinberum vettvangi. Gramari verður hún hins vegar þegar leitarskömmin hún Google stingur upp á öllum mögulegum óskunda og þykist lesa dýpstu hugsanir hennar og langanir, bara vegna þess að einu sinni gúgglaði hún Beyoncé á bikini í von um að finna smá appelsínuhúð eða pinterestaði leiðir til að láta íbúðina sína minna meira á íbúð Monicu í Friends (stundum eiga menn bara erfiða daga). Algjör óþarfi að muna fríking allt.
Einhvern veginn svona gæti umræddri húsmóður liðið, þótt ég hafi auðvitað enga staðfestingu þess efnis. Sjálf gúggla ég bara lærðar greinar um misskiptingu auðs og ástandið í Sýrlandi. En hvernig má skilja hegðun hennar og hugsunarhátt? Sem andvaraleysi og hreina uppgjöf gagnvart því ofbeldi sem í raun felst í þeirri aðför að einkalífi hennar sem markviss upplýsingaöflun er? Mannveran reynir jú að aðlaga sig hverjum þeim aðstæðum sem henni eru úthlutaðar svo ef til vill eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi að reyna að láta sem ekkert sé, svona flesta daga. Að hunsa hinn óþægilega ugg, láta eins og allt sé með felldu.
Sumir láta þó ekki blekkjast. Pabbi minn hefur í mörg ár haft sjónvarpið sitt grunað um að njósna um sig. Tímunum saman situr hann í Lazyboy-stólnum sínum og starir þrjóskulega á móti, býður óhræddur hinu alsjáandi auga birginn. Hann vinnur störukeppnina á hverju kvöldi og fer sáttur að sofa. Tengdafaðir minn teipar samviskusamlega fyrir skjámyndavélina í tölvunni sinni áður en hann tekur skák dagsins. Hughreystingarorð okkar afkvæmanna þess efnis að trúlega nenni fáir að fylgjast grannt með aðgerðarlausum eldri borgurum heima í stofu láta þeir sem vind um eyru þjóta, sannfærðir um að betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Uppljóstranir síðustu vikna, kenndar við Cambridge Analytica skandalinn, hafa síðan nojað upp fleiri en feður okkar. Grunurinn er staðfestur. Almáttugur Mark Zuckerberg, sem sjálfur virðist vera að umbreytast í einhvers konar líkamnaðan algórithma ef marka má útlit hans í réttarsal nýverið, hefur líf okkar í hendi sér og stendur sig lítt í að varðveita það. Allt er skráð í eilífan eter sem engu gleymir. Áhrifin eru óumdeilanleg, katastrófísk jafnvel á hnattrænum skala þar sem fasískir þjóðarleiðtogar fiska nú til sín fylgi á nýjan og óforskammaðan hátt, beygja þannig og sveigja hið pólitíska landslag með ófyrirséðum afleiðingum.
Hinn staðfesti grunur um stöðugt áhorf hefur síðan óneitanlega áhrif á vitund og hegðun einstaklingsins. Skammtafræðin, eðlisfræðilega lýsingin á hegðun smæstu einda sem við þekkjum, hefur sýnt fram á að eindirnar hagar sér af einhverjum illskiljanlegum ástæðum á ólíkan hátt eftir því hvort með þeim er fylgst eða ekki. Okkar innsti kjarni, efnið sem við öll erum mótuð úr, dansar öðruvísi ef einhver er að horfa. Í tilbúnum aðstæðum undir smásjá setja bylgjur sig í stellingar og fara að hegða sér eins og agnir. Og húsmóðirin? Hún reynir að dansa í takti undir hinni daglegu smásjá. Hún sættir sig við að liggja í augum uppi, skapar sér ímynd sem samræmist þeim samfélagsnormum sem að henni er haldið og tjáir skoðanir sem hún telur vera sínar eigin án þess að gera sér fulla grein fyrir því að hún lifir, rétt eins og aðrir, við skammtaða skynjun í algórithmískum bergmálshelli. Hún er kerfisbundið skönnuð og greind svo auðveldara sé að stýra henni í heppilegar áttir, svo skynjun hennar flökti nú ekki inn í önnur hólf, eins og raunveruleikann. Það er líka örsjaldan sem það gerist, bara einstöku sinnum þegar malbikið er grunsamlega slétt á Bústaðarveginum og hundarnir aðeins of hlakkandi yfir öllu saman.