Ég elska kaffihús. Allir góðir rithöfundar elska kaffihús, eða hvað? Það er allavega samkvæmt ákveðinni staðalímynd af okkur. Mig langar að segja „okkur“. Ég vil vera með. Nú er búið að birta nokkra pistla eftir mig á víð og dreif, pistla sem ég hef meira að segja fengið borgað fyrir. Er þá ekki alveg leyfilegt að segja að ég sé rithöfundur? Ætli það sé einhver sem fylgist með því? Kannski maður verði ekki fullgildur höfundur fyrr en maður er búinn að ganga í Rithöfundasamband Íslands. Ég geri ráð fyrir að þau séu með nafnspjöld sem fylgja afslættir á bestu kaffihúsin og hettupeysur með lógó í stíl.
Þangað til held ég bara áfram að smakka latte með sírópi út um allan bæ. Akkúrat núna hef ég fundið eitt voðalega notalegt og krúttlegt kaffihús. En ég ætla ekki að segja ykkur hvar það er staðsett. Ég er bara búin að fá þrjú klipp á fríbollakortið mitt og vil ekki að aðrir finni þennan griðastað og steli af mér borðinu við gluggann (þar eru innstungur fyrir hleðslusnúrur). Hér er þægilegt að sitja og súpa af bollanum, velta fyrir sér mannlífinu í kringum sig og spá og spekúlera almennt. Sérstaklega þegar maður á að vera að læra. Smávægileg uppreisn gegn stundatöflu dagsins, ábyrgð og almennum raunveruleika. Til þess var kaffibollinn líklega fundinn upp. Sem fokk-jú við amstrið og skarkalann. Nei, nú leggjum við frá okkur lyklaborð, skóflur, stýri og önnur verkfæri vinnunnar og fáum okkur einn sótsvartan. Restin bíður á meðan.
Allt í kringum mig sitja aðrir í svipaðri stöðu. Og saman munum við sitja um stund uns andartakið er liðið hjá og verkefnalistinn kallar okkur aftur til sín. Hver ætli þeirra verkefni séu? Við hvað vinna þau? Ætli þau geti sagt með fullvissu: „Ég er X“. Ég er arkitekt. Ég er framkvæmdastjóri. Ég er kennari. Það hlýtur að fylgja því öryggi að vita svona nokkurn veginn hvað maður sé, eða að geta að minnsta kosti botnað þessa setningu. Eins og staðan er á mér í dag er ég nemandi. Það sama og ég er búin að vera í tæpa tvo áratugi. Þó svo að helminginn af þeim tíma hafi ég ekki skilgreint mig baun og verið drull um allt nema Disney-myndir og Playmo.
En fyrst annarri háskólagráðu minni fer senn að ljúka þarf ég víst að fara að ákveða mig hvað ég vilji í raun og veru verða. Og hvað ég sé á meðan ég er ekki búin að gera upp hug minn. Ekki má maður vera eilífðar stúdent og safna háskólagráðum eins og maður safnaði límmiðum í denn. Þannig hvað ætla ég að verða? Og hvað ætlar ÞÚ, kæri lesandi, að verða? Ertu eitthvað í dag? Varstu eitthvað og ert núna hættur? Finnurðu tilvistarkreppuna læðast aftan að þér? Gott. Þá sit ég ekki ein í súpunni.
Mér finnst þetta áhugaverð pæling nefnilega, þetta „Ég er X“. Sjálfsskilgreiningar geta verið flóknar. Af hverju miðum við til dæmis alltaf við atvinnu sem nefnarann í gildismati okkar. „Aha, hann er markaðsfræðingur,“ er einhvern veginn merkilegra en „Aha, hann er sorphirðumaður.“ En hvar værum við án sorphirðunnar? Í djúpum skít – bókstaflega.
Það er þessi helvítis mennta-elíta (hér er gott að lesendur ímyndi sér mig í köflóttum trefli, með stór svört gleraugu að reykja jónu til að kóróna staðalímyndina). Ég veit ekki með ykkur en ég er með alveg massífa komplexa yfir menntun minni og gildi hennar. Sálfræðin var of erfið, en samt ekki nógu erfið til að flokkast sem „alvöru“ heilbrigðisvísindi. Ritlistin er listnám og þar af leiðandi allt öðruvísi. Fáum áföngum lýkur með tölulegri einkunn sem pappakassinn ég á erfitt með að melta. Fékk reyndar 8 í ljóðaáfanga einu sinni og enga umsögn sem er gjörsamlega gagnslaust, svo það er varla skárra.
Málið með þessa pælingu er að hún er ekkert merkileg þannig séð. Léttúðug heimspeki pökkuð saman í plebbalegan pistil skrifuð af sjálfselsku og hugarangri. Minnir mig á línu eftir uppistandarann Simon Amstell: „I‘m on a journey to overcome ego. Which would be great. Except it‘s such an egotistical journey to be on.“
Ég tengi við margt sem Simon segir, til að mynda byrjar hann eitt af uppistöndum sínum með orðunum: „I‘m quite lonely, let‘s start with that.“ Engin kettlingatök þar á ferð. – Já, mér hefur verið tilkynnt að orðið er tæknilega séð vettlingatök en mér finnst kettlingatök mun betra svo ég kýs að nota það í staðinn. Þú ferð miklu varlegar með kettlinga en vettlinga. Ef þú gerir það ekki þarftu á hjálp að halda.
Þannig hver er niðurstaðan eiginlega? Hver ert þú? Hver er ég? Veit það einhver? Og hvers vegna þurfum við að vita það? Kannski er bara best að vera ekkert að pæla í svona spurningum á sunnudagskvöldum, rétt þegar vinnuvikan á að fara að hefjast. En ekki alveg strax, ég er ennþá í hinni heilögu kaffipásu. Það fá allir að njóta hennar. Nema náttúrulega starfsfólkið á kaffihúsunum sem fá ekki break fyrr en við lattelepjandi lúðarnir drullum okkur heim með ókláruð klippikort og tilvistarkreppu í farteskinu.
Þú færð 8 í einkunn fyrir að lesa þennan pistil.