Það hefur ef til vill ekki farið framhjá landanum að holskefla ferðamanna flæðir yfir fjörur og fjöll um þessar mundir. Og í rauninni er þetta svo augljóst ástand að það er nær ómögulegt að telja pistla sem byrja á gífuryrðum um ferðamannastrauminn*. Þessi straumur er sumum jafn kær og Golfstraumurinn, en jafn fúll og forarpyttur fyrir öðrum. Sitt sýnist svo sem hverjum eins og eðlilegt er í samfélagi manna en því er ekki að neita að margt skondið getur komið upp á í dagsins önn þegar gestir eru svona margir.
Eins og þetta.
Ég var að keyra frá Keflavíkurflugvelli á bíl foreldra minna – hlaðbak sem var kominn nokkuð til ára sinna og var augljóslega ekki gerður út af neinni bílaleigu. Þegar ég keyri framhjá Ásbrú sé ég konu standa við veginn, með alþjóðlegt merki strandaglópa – þumalinn – hátt og skýrt á lofti. Ég ákveð að núna sé einmitt kominn tími til þess að stoppa fyrir puttalingi í allra fyrsta sinn á ævinni. Ég lækka í útvarpinu – úrval stöðva í umræddum bíl er einskorðað við Gufuna og Rondó – og, verandi dóttir Breta, spyr á klingjandi ensku hvert frúin sé að fara.
“To downtown Reykjavik,” svarar hún. Hún er klædd í harembuxur, svolítið upplitaðar, einhvers konar hlífðarjakka, gönguskó og með hárband í ætt við Survivor-buffin frægu. Fyrir mér er hún augljóslega bakpokaferðalangur (Fjällräven bakpoki: tékk), búin að tölta frá flugstöðinni og á leiðinni á hostel í Reykjavík.
“Great,” segi ég. “I’m actually headed downtown.”
Við höldum svo uppi samræðum, ég og puttalingurinn, og breskan mín ómar um bílinn á sinn einstaka yfirþyrmandi hátt (og örlítið hrokafullan, það verður að segjast). Ég spyr hana hvað hún sé að vilja hér (leiðsögumannaskóli), hvort hún hafi ferðast mikið (Kanada kemur upp) og hversu næs veðrið sé nú í dag (Íslendingurinn í mér varð að fá að koma fram, að minnsta kosti í smá stund). Að lokum spyr ég milljón króna spurningarinnar.
“So, where are you from?”
Það stendur ekki á svarinu. “Oh. I’m from Iceland, actually.”
Það hefði mátt heyra saumnál detta á eftir þessu svari, ef ekki hefði verið fyrir átök kúplingurinnar og hvin sumardekkjanna á nýlagðri Reykjanesbrautinni.
Ég neita því ekki að mér krossbrá innra með mér. Víðsýni blendingurinn ég, sem kalla ekki allt ömmu mína í ferðalögum og sjálfstæði, hafði svo hróplega rangt fyrir mér að ég hugsa að ég hefði roðnað ef það væri mér líkamlega mögulegt.
,,Ó,” segi ég. ,,Ég líka. “
Eftir á að hyggja hefði ég átt að hafa vit á því að steinþegja þarna eða halda leikritinu um Bretann á bláa Fordinum áfram. Það hefði eflaust gert aðstæðurnar aðeins bærilegri. Því það var ekki hægt að horfa framhjá því að í yfirlæti mínu var ég búin að stimpla frú Harem sem blankan bakpokaferðalang og ætlaði svo sannarlega að sjá aumur á henni til þess að geta krossað við góðverk dagsins.
Gott á mig.
Eftir þessa uppljóstrun varð andrúmsloftið í bílnum vægast sagt þrúgandi. Við vorum rétt komnar framhjá Bláalónsafleggjaranum og góðar 40 mínútur eftir í bæinn. Hvernig gæti ég mögulega bjargað þessum aðstæðum? Á meðan mosinn þaut framhjá í grænni móðu og flugulíkin hrönnuðust upp á framrúðunni var augljóst að ekkert var að fara að redda þessum vandræðagangi.
Við fundum það báðar.
Hálfbretinn á skrjóðnum og ekkibakpokaferðalangurinn.
Hvað gerir fólk í svona aðstæðum?
Þið vitið – aðstæðum þar sem lífið (eða egóið öllu heldur) liggur við.
Ef maður gengur fram á svangan skógarbjörn á maður að þykjast vera dauður. Fú Harem endaði á næsta bæ. Hún kom sér fyrir í sætinu þannig að hún sneri eins langt frá mér og hægt var í annars oggulitlu húsnæði og lokaði svo augunum. Þóttist sofa. Á tímabili komu frá henni ansi hreint sannfærandi ör-hrotur.
Þegar við komum loksins í Þingholtin eftir lengstu 40 mínútur ævi minnar galopnaði nýja vinkona mín augun, henti sér á hurðarhúninn og var flúin úr Fordinum á nýju Ólympíumeti, slík var þráin, nei – sjálfsbjargarhvötin. Áður en ég gat svo mikið sem kvatt hana var hún rokin niður einhverja götuna, Fjällräven-bakpokinn rétt lafandi á annarri öxlinni sem hún leit ekki einu sinni yfir til að þakka fyrir farið.
Gott á mig.
Og þá fór ég að hlæja.
Blessi þig ferðamannastraumur – en við Íslendingar mátumst ekkert sérstaklega vel við heimsborgarann sem kemur puttalingum til bjargar á gróðursnauðum þjóðvegum landsins.
Boðskapur þessarar sögu er morgunljós. Alltaf að spyrja “so where are you from?” áður en þú býður eftirhermubakpokaferðalöngum upp í bílinn þinn.
*Smáa letrið: Pistlahöfundur vinnur á auglýsingastofu og hefur margoft fengið borgað fyrir að fara fögrum orðum um áfangastaðinn Ísland í mismunandi samhengi. Pistlahöfundur tekur því smá ábyrgð á ástandinu. Smá.