Vorboðarnir: Júróvisjón, sumarhaglið og spurningin „Hvað eruð þið að borga barnapíum?”
Ég skal svara þessari spurningu: Líklega eruð þið að borga barnapíunni allt of lítið miðað við ábyrgð, og það hvað börnin ykkar eru skemmtileg í alvöru. Flestir virðast vilja borga 500 krónur á tímann. Aðrir vilja miða við unglingavinnukaup, sem er fáránlega lítið. VR segir að tímakaup 14 ára við afgreiðslustörf séu um 1000 krónur, en það er auðvitað uppgefið.
Þegar ég svo segi hvaða kröfur ég gerði á sínum tíma, upp úr 1998, fyrir barnapíustörf hváir fólk og segir að það sé allt of mikið. Ég var með 2500 krónur fyrir útkallið að degi til - sama hvort það voru einn eða fjórir tímar, og 5000 krónur að kvöldi. Frænka mín var sú fyrsta sem réði mig til barnapíustarfa utan mín eigin heimilis og kenndi mér strax í upphafi að gera kröfur og hjálpaði mér að setja ákveðin viðmiðunarmörk. Þar kom að því að hæfileikar mínir á barnapíusviðinu spurðust út, og fólk óskaði eftir kröftum mínum, en hváðu þegar ég nefndi verðið. Svo var reynt að höfða til samvisku minnar um það að ég væri sú eina sem réði við barnið, sú eina sem barnið fílaði. Þess þá heldur ætti að borga mér fyrir þann hæfileika að eiga við umskiptinginn.
Auðvitað er þetta viðmiðunarkaup mitt hátt. Ég var líka geggjuð barnapía. Ég gerði þó skiptidíla við nokkra, eins og leikarana í fjölskyldunni sem gáfu mér leikhúsmiða í skiptum fyrir pössun. Frábær díll. Vinkona mín passaði fyrir fólk sem átti ísbúð og fékk greitt helming í inneign í ísbúðinni. Kom sér afar vel.
Við byrjum samt mjög snemma að snuða þá sem sjá um börnin okkar, og það byrjar í barnapíukúltúrnum, þar sem þau laun koma beint úr okkar eigin vasa. Barnapíustéttin er yfirgnæfandi kvennastétt og það er ótrúlegt að ennþá haldi fólk að öllum stelpum sé í blóð borið að dýrka það að umgangast börn eða að allar stelpur kunni á börn. Og auðvitað, þessi tugga um að þetta sé svo agalega gefandi starf. Veistu, að ef draumalaugardagskvöldið þitt snýst ekki um að vera með börnunum þínum, þá eru það ekki draumalaugardagskvöld 14 ára stelpu heldur.
Ef við förum aftur í 500 krónurnar er gott að skoða í hvað táningar gætu verið að verja peningum sínum. Á 500 króna tímakaupi ertu:
- Klukkutíma að vinna þér fyrir einu strætófargjaldi
- Tvo tíma að vinna þér fyrir litlum bragðaref
- Þrjá tíma að vinna fyrir einum bíómiða eða 12” Subway
- Fjóra tíma að vinna fyrir barnapíunámskeiðinu hjá Rauða krossinum
- Tæpa viku í dagvinnu að vinna sér inn fyrir nýjustu strigaskónum
Annað sem rímar einnig við kjaraviðræður annars staðar í samfélaginu er það að þó þú menntir þig til starfans er ekkert víst að það skili sér í hærri launum. Vinkonur mínar sem höfðu farið á námskeið hjá Rauða krossinum í skyndihjálp barna fengu ekki endilega meira ef þær höfðu ekki klárað námskeiðið, og sumir foreldrar gerðu meira að segja kröfur á að barnapíurnar hefðu lokið því. Námskeiðið kostar bara 2000 kall, en samt. Mikill peningur sérstaklega fyrir þær sem eru á 500 króna tímakaupinu.
Vissulega eru sumar barnapíuvaktirnar auðveldar, og hægt að hanga í símanum og horfa á Netflix, en það eru ekki erfiðleikar í starfinu sem fengu mig til að halda mig í svona háum launum, heldur var það FOMO-ið, óttinn við að vera að missa af einhverju. Að vera föst yfir sofandi börnum þýddi það að mögulega missa af mikilvægum félagslegum hlutum, og það bar að rukka fyrir. Vel.
Barnapíustandið er yfirgnæfandi kvennastétt, mögulega er það þess vegna sem við tímum ekki að borga meira en raun ber vitni. Svo er starfið auðvitað svo gefandi og yndislegt. Ekki kenna barninu þínu að semja af sér í upphafi atvinnuferilsins, sérstaklega í umönnunarstarfi. Umönnunarstörf eru mikilvæg. Það tekur restina af ævinni að leiðrétta það ef maður er einu sinni byrjaður að rukka of lítið.
Ég lærði ýmislegt í skóla, en það sem kennarar hafa kennt mér allra helst er að semja ekki af mér.