Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Fleyg setning atarna en á oft á tíðum vel við. Ég var ekki nógu þakklát fyrir eigin andardrátt og móðir náttúra refsaði mér með hálsbólgu og kvefi. Að sama skapi er hægt að snúa þessu máltæki við; stundum veit maður ekki hvað maður hafði það skítt fyrr en kvölinni er lokið. Þá er eins og fargi sé af manni létt, þokunni léttir og maður sér loksins út um augun aftur. Maður er kannski búinn að hjakka í sömu vitleysunni mánuðum saman og sér ekki baun, vinir og fjölskylda veifandi gleraugunum fyrir framan nefið á manni í gríð og erg og grátbiðja mann um að taka korktappana úr eyrunum og drullast til að hlusta. Nei, Rut, þú hefðir ekki átt að fara til Sviss sem au pair, þú kannt illa við börn. Nei, Rut, þú hefðir ekki átt að sækja um vinnu á hamborgarastað því þú ert vegan, aulinn þinn.
Ég vil samt ekki taka algjöra ábyrgð á vinnutengdri vanlíðan minni. Starfsviðtöl og starfsumsóknir eru mesti leikaraskapur fyrr og síðar. Nýlega sá ég auglýsingu þar sem leitað var að fólki til að taka að sér þrif. Verðugt starf eins og öll vinna almennt. En í auglýsingunni stóð: „Hefur þú brennandi áhuga á þrifum?“ Erum við ekki að djóka? Getum við ekki hætt þessum pollý-önnu leik? Atvinna er oft á tíðum bara salt í grautinn. Ég hef allavega aldrei farið í vinnuna 100% af því ég hef áhuga á viðfangsefninu, minn helsti hvati er sá að ég hef brennandi áhuga á því að verða ekki heimilislaus og geta keypt mér eitthvað að borða. Því þetta er vinna. Öll vinna er vinna. Sama hvort þú ert að vinna við eitthvað sem þér finnst hundleiðinlegt og gerir bara af illri nauðsyn eða vinnur við draumastarfið þitt þá er staðreyndin sú að vinna er vinna.
Nú vinn ég á yndislegum vinnustað við starf sem er mér afar kært en ég vinn í Kattholti. Ég elska kisur, hef alltaf gert það, og finnst frábært að fá að vinna með þeim. Það er fullt af fólki sem hefur engan áhuga á dýrum, finnst vond lykt af þeim, leiðinlegt að þrífa upp eftir þau og hreinlega nenna ekki að standa í þessari umönnun. Gott og blessað, ekki koma þér í þær aðstæður að þurfa að þrífa og mata sextíu ketti á hverjum degi. En svo eru þeir sem halda að þessi vinna sé himnaríki og ég hljóti að fljóta á bleiku skýi daginn út og inn. Fólk getur jafnvel orðið móðgað ef ég kveinka mér undan álagi því ég vinn við eitthvað sem ég elska. Hvernig dirfist ég. Ég dirfist því þetta er vinnan mín. Og vinna er vinna. Ég vinn líka fyrir Kjarnann, fæ að skrifa pistla einu sinni í mánuði og fíla það í drasl. Ég kvíði samt skilum, hef áhyggjur af því hvað fólki finnst um það sem ég skrifa og stundum dettur mér bara ekkert sniðugt í hug að fjalla um.
Vandamálið virðist felast í því að komast hjá því að detta inn í einhvern kvart-og-kvein gír en á sama tíma viðurkenna erfiðleikana sem fylgja atvinnu. Því að sjálfsögðu fylgja störfum einhverjir hnökrar. Ef ekki sökum annars en tímans sem maður ver í þau. Þú eyðir átta tímum á dag, fimm daga vikunnar við að gera nokkurn veginn það sama. Það koma aðrir kúnnar, þú ferðast til mismunandi landshluta, fjallar um nýjar bíómyndir, eða eldar öðruvísi rétti, en það fellur allt undir sama hatt. Ekki að undra að maður hlakki til helgarinnar.
Fólk vill oft gagnrýna listamenn fyrir að fá að vinna við það sem þeir elska, því það fá alls ekki allir að gera. En við þurfum ekki að stilla upp atvinnu á kerfisbundinn hátt þar sem erfiðasta vinnan fær mestu stigin og þeir sem fá lægstu launin og líður verst eigi meiri samúð skilið en aðrir. Sársauki er ekki keppni.
Sem unglingur var mér oft tjáð að ég ætti að vera þakklát fyrir að vera með vinnu yfir höfuð. Það væri til fullt af fólki sem væri bara ekki með neina vinnu og liði mun verr en mér. Hin sanna merking þakklætisins fólst því í því að hætta þessu væli. En þessi hugmynd er kolröng. Það að þér megi ekki líða illa því öðru fólki gæti liðið verr er það sama og segja að þú megir heldur ekki vera glaður því öðru fólki gæti liðið betur. Lífið gæti alltaf verið annað hvort betra eða verra. Þú gætir átt milljónkall í rassvasanum, verið í betra formi og fengið raðfullnægingar í hvert skipti sem þú stundaðir kynlíf. Þú gætir líka verið saurbjalla.
Við skulum því bara einbeita okkur að núinu og viðurkenna fyrir okkur að vinna er erfið en góð líka. Það er gaman að knúsa ketti. Það er ekki gaman að þrífa niðurganginn þeirra af veggjum. Jafnvægi heimsins hefur verið náð. Verum þakklát. Verum hreinskilin. Lífið er erfitt og lífið er gott.