Þegar ég var að alast upp var endalaust verið að reyna að troða upp á mig Monty Python. Ég skildi ekkert. Fannst teikningarnar ljótar, stíllinn gamaldags og þessir karlar augljóslega komnir yfir sitt blómlegasta skeið. Ég hnussaði í hljóði þegar Bretinn faðir minn, með önnur skyldmenni í sínu liði, dásamaði þessa tímalausu dýrð þar sem kaldhæðni draup af hverju einasta orði eins og hnausþykkt og dísætt eðalhunang framleitt af vandlega genabreyttum býflugum.
Og mér var sama.
Horfði bara á mitt ameríska rusl og pirraði Bretann endalaust með því að tala með lélegum bandarískum hreim (eða áströlskum, þegar Neighbours-tímabilið mitt réði lögum og lofum) í staðinn fyrir þeim breska sem ég var alin upp við.
En svo liðu árin og ég fór í menntaskóla, hvar það var kúl að fylgja engum straumum (nema þeim straumi að vera sífellt öðruvísi, en það er önnur saga) og rakst þar á kúrs um téða Monty Python-menn. Af hverju ekki, hugsaði ég, og skráði mig. Í versta falli væri þetta bara ein önn þar sem ég gæti falið mig á bak við orðaforða. Í besta falli myndi námsefnið ljúka upp fyrir mér áður óopnuðum dyrum orðsnilldar og kímni. Og verður heimurinn ekki betri þegar maður hlær?
Það kom mér því skemmtilega á óvart hvað þessir þættir slógu mikið í gegn hjá aðeins þroskaðri sál menntskælingsins. Ég skildi ekkert í æsku minnar þrjósku og teikningarnar voru bara nokkuð skemmtilegar eftir allt saman.
Og sjá: smekkur yðar á gríni mun breytast með tímanum.
Það sem hitti helst í mark hjá mér var skammlaust og óstöðvandi grínið sem beint var að efri millistéttinni og allri hennar angist. Að það væri í alvörunni vandamál að útskýra fyrir vesælum gæludýrasala að páfagaukurinn manns væri dáinn, á átján mismunandi vegu. Að velta fyrir sér hvernig heimspekingum myndi farnast í fótbolta. Og gera heila bíómynd um Brian en ekki Jesús því efri millistéttin trúir bara á markaðslögmálin og þarf ekki á neinum Frelsara að halda.
Þvílík uppljómun að fá að læra af forréttindastéttinni, langskólagenginni í bestu skólum Bretlands, og hlæja er þeir héldu spéspeglinum uppi fyrir framan nefið á þessum eymingjum sem voru skör lægra settir í samfélaginu.
Ef maður hugsar um það þá var þetta kannski svolítið eins og að horfa á Kardashian-fjölskylduna gera grín að heimilislausum í sjónvarpsþáttum fyrir verkafólk, svona til þess að setja þetta í nútímalegan búning. Smá óþægilegt. Fullkomlega sturlað reyndar.
En á gott grín ekki bara alltaf rétt á sér? Maður hlýtur að spyrja sig. Þessa dagana er grín alltaf skoðað með að minnsta kosti þrettán mismunandi gleraugum, sem er í raun bara mjög gott mál. Við veltum fyrir okkur hvort grín megi beinast að þeim sem eru í jaðarhópi miðað við sjálfan grínarann. Eða hvort jaðarsettir hópar megi gera grín að þeim sem eru í forréttindastöðu. Það er einhvern veginn skárra. Grín hefur jú löngum verið helsta vopn lítilmagnans í baráttunni gegn auðvaldinu.
Grín í dag er þó líka orðið að einhverskonar jarðsprengjusvæði. Ég aðhyllist að miklu leyti „political correctness” (sem virðist vera „rétttrúnaður” á íslensku, sem meikar bara engan sens) og finnst alveg rosalega skiljanlegt að maður eigi ekki að nota góð og gild orð um líkamsparta, útlit eða kynhneigð til þess að niðurlægja aðra. Bara algjörlega. En mér finnst líka að við, sem stétt / þjóð [veljið viðeigandi hópskilgreiningu hér] þurfum bara að kunna aðeins betur á grín.
Það er eftir allt saman bókstaflega lífsnauðsynlegt fyrir okkur að hlæja okkur í gegnum þessa síðustu og verstu. Það er einhvers konar hirðfífl í Hvíta húsi þeirra Bandaríkjamanna, öfgar vaða uppi í Evrópu og stríðandi þjóðir búa yfir alveg grafalvarlegum kjarnorkuvopnum. Við verðum að geta hlegið. Því heimurinn er í alvöru betri ef maður hlær.
Hátíðlegt loforð um meiri hlátur – hljómar það ekki bara vel?
Gerðu grín að þessum pistli. Ég skora á þig. Þú finnur mig á Instagram.