Ég er svo lánsöm að eiga nokkra vini og vinkonur sem ég gæti ekki hugsað mér að þekkja ekki. Þetta almennt frábæra fólk valdist í lífið í gegnum skóla, tómstundir og vinnu en með barneignum, flutningum, ferðalögum og vinnu er hálf kómískt að reyna að koma á fagnaðarfundum, hversu stórir eða litlir sem þeir kunna að vera.
Allir sem hafa til dæmis nokkurn tímann reynt að skipuleggja eitthvað með Dönum vita hvað það er vonlaust. Það fer almennt einhvern veginn svona:
Íslendingur: Hvað segirðu, eigum við ekki að kíkja í kaffi?
Dani: Jú, hvernig ertu á mánudaginn eftir fimm vikur, í viku 48?
Íslendingur: Ég var nú bara að meina á eftir sko ...
Dani: Nei það gengur ekki, ég er búin að hafa síðdegið skipulagt síðan í viku 34. Hvað segirðu, vika 48?
Við hlæjum að þessu en nákvæmlega sama fyrirbrigði er að laumast yfir okkur annars skipulagsfælnu Íslendinga. Ég var til dæmis að reyna að fá tvo vini – bara tvo – til þess að hitta mig í bjór bara næst þegar hentaði (má segja bjór í blöðunum?). Svarið? 17. október.
Þegar þetta barst í tal var sko ennþá september.
Og þetta var ekki eina félagslífið sem þurfti á ofurskipulagi í excel að halda, með átta dagbækur opnar. Ég bauð öðrum vinahóp í heimsókn um daginn – húsbandið var í útlöndum og mér leiddist – en þurfti sjálf að afboða boðið um leið og það hafði verið sent vegna þess að fundur í vinnunni var settur á bækurnar. Svo var fundurinn afboðaður en hittingurinn hafði verið færður um tvo daga – sem, eins og allir vita, þýðir auðvitað að ekkert verður af honum. Þetta hefði ekki verið hundrað í hættunni nema af því að þetta var í svona nítjánda sinn sem við þurftum að blása hitting af, enda öll mjög upptekið fólk.
Ég var þess vegna að spá í hvort við sem samfélag þyrftum ekki bara nýjar reglur um hvað má líða langur tími þar til hittingur er ákveðinn og þar til hann er framkvæmdur. Ég sting upp á fimm virkum dögum. Það virðist virka rosalega vel fyrir alls konar innheimtufyrirtæki, til dæmis, sem gefa manni bara stuttan greiðslufrest. Þau vita greinilega sínu viti – þegar maður er með deadline framkvæmir maður einfaldlega.
Svo gæti það mögulega verið of mikil frekja. Önnur leið væri auðvitað bara að mæta heim til fólks í staðinn fyrir að hringja á undan sér. Ef viðkomandi er ekki heima þá er það auðvitað leiðinlegt, en maður reyndi að minnsta kosti.
Það hefur vissulega sína galla – það væri vissulega mjög óþægilegt að heyra í dyrabjöllunni í sturtu og hlaupa eins og holdvotur hundur til dyra (ég er svo sjúklega meðvirk, muniði,) bara til þess að hleypa einhverjum inn í kaffi.
En samt. Er það ekki betra heldur en að hitta aldrei fólk? Jú, smá óþægilegt fyrst og mögulega, ef þú ert eins og ég, þarftu að díla við einhvers konar rakaskemmdir á forstofugólfinu eftir mörg svona atvik, en hvað eru smá rakaskemmdir milli vina?
Kíktu endilega í kaffi.
Ég er til dæmis laus 20. október.