Mér finnst að fullorðna fólkið eigi að hlusta betur á krakka. Við vitum að þið viljið að okkur líði vel, en stundum gefið þið okkur hugmyndir um hvað við eigum að gera sem okkur finnst ekki góðar. En við getum ekki sagt ykkur það, af því að við erum stundum feimin og þið ráðið svo miklu um lífið okkar. Krakkar vita meira en fullorðnir hvernig það er að vera barn og þess vegna erum við sérfræðingarnir í hlutum sem við lendum í, þið ættuð að hlusta meira á okkur.
Ég var í skólanum og við sáum einelti eiga sér stað. Við reyndum að fá hjálp hjá einum kennara í frímínútum, en hann gerði ekki neitt. Það var sparkað í vin okkar og hann var laminn. Ég sá ungling labba framhjá og hún spurði hvort það væri slagur í gangi, ég sagði já. Hún hljóp og náði í alla í frímínútunum og nokkra kennara. Flestir kennararnir komu, nema þessi sem að ég reyndi að fá til að hlusta á mig. Hann trúði okkur ekki og gerði ekki neitt.
Við krakkarnir leystum þetta vandamál og þess vegna vil ég að þið hlustið betur á okkur og takið mark á því sem við segjum. Það er ekki nóg að spyrja okkur hvað okkur finnst þegar ykkur hentar, þið þurfið að hlusta meira og trúa okkur þegar við leitum til ykkar. Kennarar, gefið krökkum meiri séns.
Á alþjóðadegi barna, 20. nóvember, minnum við á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim mikilvæg réttindi. Yfirskrift átaks UNICEF á Íslandi á alþjóðadegi degi barna er #börnfáorðið. Markmið dagsins er að gefa börnum og ungmennum orðið, og skapa vettvang fyrir þau til að tjá skoðanir sínar opinberlega og í sínu nærumhverfi.