Það er margt líkt með núverandi ríkisstjórn og þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili. Forvígismenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og ráðgjafar þeirra, eyddu miklu púðri í að minna landsmenn á hversu mikið landið hefði risið undir þeirra stjórn. Hversu góðri efnahagslegri fótfestu það hefði náð í kjölfar þess svartnættis sem blasti við eftir hrunið.
Og þetta var rétt hjá þeim. Efnahagslegur árangur Íslands á síðasta kjörtímabili var um margt undraverður. Árið 2008 var tekjuhalli ríkissjóðs 216 milljarðar króna. Þegar ríkisreikningur 2013 var gerður upp, en hann byggði á síðasta fjárlagafrumvarpi þeirrar ríkisstjórnar, kom í ljós að ríkissjóður var rekinn nánast á pari.
Sú ríkisstjórn sem hafði tekið til eftir góðærisveisluna, og náð miklum árangri í þeirri tiltekt, beið samt sem áður afhroð í þingkosningunum 2013. Og það kom í raun engum á óvart. Þar var nefnilega ekki verið að refsa þeim fyrir tiltektina eða hagstjórnina, heldur allt hitt í verkum hennar sem orkaði tvímælis og kjósendur sættu sig ekki við.
Allt of mörg stór verkefni skiluðu allt of litlum árangri
Þrátt fyrir að fyrsta hreina tveggjaflokka vinstristjórn lýðveldissögunnar hefði notið rúmlega 60 prósent stuðnings í könnunum mánuði eftir að hún var kosin var fljótt að fjara undan henni. Það var eins og þeir sem henni stýrðu hafi litið svo á að um einstakt tækifæri til að stjórna án aðkomu Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks og þeirra málamiðla sem slík stjórnarsamstörf fela í sér væri að ræða. Samhliða því langstærsta samtímaverkefni sem nokkur ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir - að endurreisa heilt efnahagskerfi án þess að skilja þjóðina eftir í gjörbreyttum veruleika - ákvað vinstristjórnin að ráðast einnig í allar þær stóru breytingar og gæluverkefni sem ýmsir innan hennar höfðu gengið með í maganum allan sinn stjórnmálaferil.
Því var ráðist í umsóknarferli að Evrópusambandinu, þrátt fyrir að ekki væri meirihluti fyrir því innan ríkisstjórnar, þings eða þjóðar. Líklega hefur ekkert eyðilagt jafn mikið fyrir möguleikum Íslands á að ganga í Evrópusambandið og sú vanhugsaða vegferð. Það var ráðist í vinnu við stórtækar breytingar á stjórnarskrá, sem vissulega eru nauðsynlegar, en þurfa að vera í algjöru aðalhlutverki þegar þær eru mótaðar og ræddar, ekki í aukahlutverki efnahagslegrar endurreisnar eins og þær voru síðast. Niðurstaðan er sú að enn hafa engar breytingar orðið á stjórnarskránni.
Til viðbótar var tekin ákvörðun um að setja fullt af skattfé á hverju ári í byggingu og rekstur Hörpu á sama tíma og mikil niðurskurðarkrafa var á nánast allar stoðir samfélagsins. Það var ákveðið að ríkið myndi fjármagna kjördæmaverkefni á borð við gerð Vaðlaheiðarganga. Stóriðjuframkvæmdir í völdum kjördæmum fengu ívilnanir. Skattar voru hækkaðir. Bankakerfið var endurreist á nánast nákvæmlega sama hátt og það var áður, án útrásarstarfseminnar og á nýrri kennitölu. Kaupaukakerfi voru tekin upp í þessum bönkum á meðan að þeir voru enn að fullu á ábyrgð ríkisins ef illa færi og í ríkisbankanum fengu kröfuhafar það meira að segja í gegn að starfsmönnum yrði gefinn hlutur í bankanum fyrir að standa sig vel við innheimtu á nokkrum lánasöfnum, og þar með voru kröfuhafar farnir að móta eigendastefnu ríkisins.
Svo þarf auðvitað að nefna þau tvö atriði sem mestu máli skiptu: ríkisstjórnin náði engum tökum á húsnæðisvanda þjóðarinnar og missti að lokum allan trúverðugleika sinn í Icesave-málinu svokallaða. Fyrir utan þá stanlausu stöðubaráttu sem átti sér stað innan stjórnarflokkanna milli einstaklinga með stór egó, og skilaði ríkisstjórninni á endanum í minnihluta á Alþingi.
Loforð um peningagjafir, afnám og kylfur
Þetta nýttu aðrir flokkar sér í aðdraganda síðustu kosninga. Framsóknarflokkurinn -óumdeilanlegur sigurvegari þeirra – komst til valda á grunni loforða um fordæmalausar skaðabótagreiðslur úr ríkissjóði upp á tugi milljarða króna vegna verðbólguskota sem höfðu þegar leiðrétt sig sjálf, óútfærðra loforða um afnám verðtryggingar og á baki Icesave, sem flokkurinn hefur eignað sér heiðurinn af. Svo lofuðu þeir að berja á erlendum kröfuhöfum. Með kylfum.
Áherslur Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar voru í raun ekkert mjög frábrugðnar því sem flokkurinn lofar vanalega. Lægri skattar og styrkari efnahagsstjórn. Svona í grófum dráttum. Þetta skilaði flokknum þeim árangri að hann varð aftur stærsti stjórnmálaflokkur landsins, en niðurstaða kosninganna, 26,7 prósent fylgi, er sú næst versta sem hann hefur fengið á lýðveldistímanum. Eina skiptið sem útkoman hefur verið verri var árið 2009, í kjölfar hrunsins. Sjálfstæðisflokkurinn vann því engan sigur í kosningunum 2013. Þvert á móti.
Margt hefur breyst til betri vegar á Íslandi á vakt þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að völdum. Skuldir ríkisins hafa lækkað, tekjur hækkað, ríkissjóður er rekinn með afgangi, verðbólga hefur verið sögulega lág í ótrúlega langan tíma, kaupmáttur aukist og hagvöxtur er með því mesta sem mælist í hinum vestræna heimi. Þá stendur losun hafta fyrir dyrum og atvinnuleysi er vart mælanlegt. Yfir hverju eru þá hægt að kvarta? Sjáið þið ekki veisluna kjósendur?
Vandamálið sem forsvarsmenn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra átta sig hins vegar ekki á, eða vilja að minnsta kosti ekki horfast í augu við, er að fleiri og fleiri Íslendingar mæla ekki árangur og lífsgæði einvörðungu í hagtölum. Það er allt hitt sem gerst hefur á vakt ríkisstjórnarinnar sem gerir það að verkum að hún er nú jafn óvinsæl og sú sem sat á undan henni þegar rúmt ár er í kosningar. Og óvinsældirnar virðast aukast með hverjum mánuðinum sem líður.
Allt hitt...sem er ansi margt
Allt hitt er ansi margt. Þar má nefna hið fordæmalausa og ömurlega lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem var varaformaður Sjálfstæðisflokksins þegar það stóð yfir. Mál Illuga Gunnarssonar, einnar helstu vonarstjörnu Sjálfstæðisflokksins, sem varð uppvís að því að vera algjörlega fjárhagslega háður manni sem hann veitti viðskiptalega fyrirgreiðslu á erlendum vettvangi í starfi sínu sem ráðherra.
Það má tína til öll þau mál sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ráðist í en hafa ekki fengið brautargengi. T.d. náttúrupassi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, kvótafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, hinar furðulegu bréfasendingar Gunnars Braga Sveinssonar til Evrópusambandsins sem engir tveir virðast sammála um hvað þýði, vangeta Eyglóar Harðardóttur að koma nokkrum anga af húsnæðismálaáherslum sínum í gegnum ríkisstjórn þrátt fyrir orkustangasendingar, byltingakenndur prósentureikningur hennar og sirkusinn í kringum afnám verðtryggingar sem enginn stjórnmálamaður virðist vilja útskýra hvað eigi að fela í sér.
Það má nefna lækkun veiðigjalda á moldríka og óhugnarlega valdamikla stétt útvegsmanna. Svikin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsviðræður. Kjaradeilur án nokkurrar hliðstæðu. Hin ævintýralega ósanngjarna og óréttlætanlega „Leiðrétting“ sem bæði þiggjendur og greiðendur virðast blessunarlega hafa áttað sig á að er voðaverk og ekki talið ríkisstjórninni til neinna tekna. Stanslausar árásir á RÚV vegna fréttaflutnings sem virðist í huga margra hafa áhrif á þá fjármuni sem fyrirtækinu er skammtað.
Gæðum skammtað og stanslaus átök
Allskyns mál hafa líka komið upp sem gefa það til kynna að úthlutun gæða sé, vægast sagt, ábótavant. Útdeiling styrkja með sms-sendingum til flokksbræðra, hundruð milljóna króna fjárveiting til landshluta sem telst til höfuðvígis annars stjórnarflokksins til að fjölga þar störfum þrátt fyrir að atvinnuleysi sé þar minnst á öllu landinu og tugmilljóna króna ráðgjafagreiðslur til fyrrum ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna. Svo ekki sé minnst á sölu ríkisbanka á greiðslukortafyrirtæki á undirverði á bakvið luktar dyr til valins hóps þrátt fyrir að eigendastefna ríkisins kalli á opið og gagnsætt ferli.
Þá mál vel draga þá ályktun að stanslaust hnútakast forsætisráðherra, sem telur sig oftar en ekki misskilinn, við fjölmiðla, Kára Stefánsson, borgarstjórann í Reykjavík og ansi marga aðra trufli kjósendur. Áhugi hans á skipulagsmálum, sem hefur nú umbreyst í vilja til að færa skipulagsvald sveitafélaga til forsætisráðuneytisins, er líka hættur að vera krúttlegur og orðinn dálítið óhugnarlegur. Þar má nefna hugmyndir um viðbyggingu við Alþingishúsið, áhuga á að ráða staðsetningu nýs Landsspítala, hina kostnaðarsömu færslu á hafnargarðinum, tilraunir til að breyta útliti Hafnartorgs í póstkort sem fellur að hans smekk, flutning ráðuneyta þangað og tilraunir flokks forsætisráðherra að taka skipulagsvald á flugvallarsvæðum af sveitarfélögum.
Þjóð vill valdeflingu
Ljóst má vera að nýjustu kannanir, sem sýna samanlagt fylgi stjórnarflokkanna langt undir fylgi Pírata og stuðning við ríkisstjórnina á svipuðu róli og stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var þegar rúmt ár lifði af síðasta kjörtímabili, eru farnar að valda miklum áhyggjum innan raða þeirra. Þrátt fyrir að forsætisráðherra tíundi það í hverju ávarpi á fætur öðru hversu gott við höfum það undir hans stjórn, þrátt fyrir að ríkisstjórnin auglýsi hversu frábær hún sé í völdum fjölmiðlum og þrátt fyrir innreið ungliða með róttækar áherslur í forystu Sjálfstæðisflokksins þá heldur fylgið áfram að rjátlast af þeim.
Þótt ofangreint skipti allt máli þegar ástæður fylgistapsins eru greindar er óþolið gagnvart verkum ríkisstjórnarinnar ekki stóra breytan. Stóra breytan er aukið sjálfstraust almennings til að stíga úr úr þeim veruleika að hann þurfi jakkafata- eða dragtarklætt fólk með flokkskírteini til þess að segja honum hvernig hlutirnir séu og hvað sé honum fyrir bestu. Fólk treystir sjálfu sér til að nálgast upplýsingar og leggja mat á sannleiksgildi þess sem lagt er fyrir framan það. Samhliða þá vill það frekar taka fleiri ákvarðanir um samfélagið sem það lifir í sjálft, í stað þess að útvista þeim til fólks sem endurspeglar það á engan hátt á fjögurra ára fresti. Þess vegna vilja Íslendingar ekki kjósa stjórnarflokkana og þess vegna vilja þeir heldur ekki kjósa hefðbundnu stjórnarandstöðuflokkana.
Almenningur vill valdeflingu. Og telur að Píratar geti fært þeim hana.