Seðlabanki Íslands birti yfirlit yfir stöðu þjóðarbúsins í
vikunni. Um er að ræða fyrsta slíka yfirlitið síðan að nauðasamningar föllnu
bankanna voru samþykktir og afgreiddir í lok síðasta árs. Niðurstaðan er sláandi.
Það er sláandi góð. Hreinar skuldir Íslendinga við útlönd eru nú 14,4 prósent
af landsframleiðslu. Við nauðasamningagerðina lækkuðu þær um 328,6 prósent af
landsframleiðslu og hafa nú ekki verið lægri frá því á síldarárunum.
Og ofan á allt annað er hér bullandi hagvöxtur vegna ferðamennsku, makríls, einkaneyslu og sífellt stækkandi hugverkaiðnaðar. Sjö og hálfu ári eftir allsherjarhrun íslenska efnahagskerfisins, sem var svo alvarlegt að þáverandi fjármálaráðherra landsins hélt að hann myndi ekki geta tekið út peninga í hraðbanka erlendis á íslenska kortinu sínu, er Ísland komið í kjörstöðu.
Létum aðra borga fyrir partýið
Þótt ferlið hafi verið langt og strangt þá hefðum við Íslendingar líkast til ekki geta beðið um betri niðurstöðu. Við sem þjóðarbú yfirskuldsettum okkur í erlendum gjaldeyri á nánast fordæmalausu góðærisfylleríi sem skilaði okkur bankakerfi sem var rúmlega tíu sinnum árleg landsframleiðsla. Þessir peningar runnu inn í bankana sem lánuðu þá aftur út til misgáfulegra athafna, bæði fjárfestingu og neyslu. Þorrinn fór til heimatilbúinna viðskiptasnillinga sem notuðu féð til að sölsa undir sig nánast allt íslenskt atvinnulíf/samfélag samhliða því að þeir keyptu aragrúa eigna erlendis, oft á yfirverði. Á endanum áttu þessir „viðskiptavinir“ bankana sem höfðu fjármagnað þá að mestu sjálfir. Á þeim tíma voru þeir líka farnir að stunda að selja hvorum öðrum eignir á sífellt hærra verði ásamt því að smíða sífellt flóknari, og stundum ólögmætar, fléttur til að halda partýinu gangandi.
Slatti fór líka til heimila landsins. Fyrir utan öll lánin sem veitt var til kaupa á húsnæði, bíla, sumarbústaði, flatskjái, tjaldvagna og Arne Jacobsen egg þá bjuggu bankarnir til hlýja og velborgaða innivinnu fyrir nánast alla sem útskrifuðust úr háskólum landsins um nokkurra ára skeið. Annar hver viðskiptafræðingur með BS gráðu var kominn með yfir milljón á mánuði, sjúkraþjálfara til að stilla skrifborðsstólinn sinn, risnureikning til að dekka öll fljótandi hádegin, raðhús, Volkswagen Touraeg jeppa á myntkörfuláni og aðgang að lúxusstúku á leikjum í ensku úrvalsdeildinni eftir hentugleika. Fyrir þrítugt.
Sveitarfélögin voru ekkert mikið skárri. Þau fóru mikinn. Byggðu knatthallir, sundlaugar með öldum, réðust í miklar innviðauppbyggingar samhliða gengdarlausum lóðaúthlutunum og veðjuðu milljörðum króna á hafnarframkvæmdir fyrir ókomna stóriðju sem hafa síðan aldrei skilað neinu til baka.
Orkufyrirtækin, á ábyrgð hins opinbera, hófu stórsókn í erlendri skuldsetningu í kapphlaupi við að byggja sem flestar virkjanir á sem skemmstum tíma. Og auðvitað eina stærstu stíflu Evrópu, Kárahnjúkavirkjun.
Eitt sinn, skömmu eftir hrun, keyrði ég um Reykjavík með yfirmanni erlendrar alþjóðastofnunar sem hafði ekki komið til Íslands árum saman. Hann sat þögull og horfði út um gluggann þorra bílferðarinnar á meðan að íslensku farþegarnir vældu yfir ástandi mála og hversu skítt þeir hefðu það. Eftir drykklanga stund leit maðurinn til baka og sagði að Ísland hefði umbreyst frá því að hann var hér síðast. Uppbyggingin sem átt hefði sér stað væri ótrúleg og eiginlega fáránlega umfangsmikil. Síðan spurði hann: „hver haldið þið að hafi borgað fyrir þetta allt saman?“
Afskriftir útlendinga: 7.134 milljarðar króna
Stutta svarið er auðvitað þeir sem lánuðu Íslendingum fyrir hrun. Um þriðjungur þeirra peninga sem streymdi inn til Íslands komu frá þýskum fjármálastofnunum, meðal annars sveitasparisjóðum sem voru sólgnir í íslensk bankaskuldabréf. Hluti kom frá fjárfestingasjóðum sem höfðu tekið stöður til að hagnast á vaxtamunaviðskiptum með íslensk hávaxtarbréf. Og restin frá allskyns aðilum í alþjóðlega fjármálakerfinu sem héldu að það væri gróðravænlegt að lána peninga til Íslands.
Seðlabankinn staðfesti með yfirliti sínu sem birt var í vikunni hversu mikið þessir aðilar töpuðu á Íslandi. Sú tala er 7.134 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að verg landsframleiðsla Íslands árið 2014, allt sem Íslendingar bjuggu til og seldu það árið, var upp á 1.989 milljarða króna. Útlendingarnir sem lánuðu Íslandi fyrir hrun töpuðu rúmlega 3,5faldri landsframleiðslu Íslendinga. Augljóst var að Ísland gat aldrei greitt þetta til baka. Og ekki gátu kröfuhafarnir komið hingað og tekið knatthallirnar eða íbúðarblokkirnar sem byggðar höfðu verið fyrir peninganna þeirra.
Hluti þessarra kröfuhafa höfðu verið séðir og keypt skuldatryggingar á lán sín til Íslands. Þeir gátu þá fært tap sitt og kröfur yfir á erlend tryggingafélög, sem síðan seldu þær síðan áfram á hrakvirði til vogunarsjóða sem sérhæfa sig í að græða á löndum í tómu efnahagslegu tjóni.
Þeir sem töpuðu mest á íslenska hruninu eru því augljóslega tveir hópar: þeir erlendu lánveitendur sem lánuðu hingað fé og þau tryggingafélög sem seldu skuldabréfatryggingar á íslensku bankana.
Greiðum ekki skuldir óreiðumanna
Þetta var staða sem menn gerðu sér grein fyrir strax í byrjun þegar neyðarlögin voru sett. Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, var ekkert að grínast þegar hann sagði Íslendinga ekki ætla að borga skuldir erlendra óreiðumanna, þótt óreiðumengið væri kannski víðara en Davíð upplýsti um. Áhrifamikill stjórnarþingmaður í ríkisstjórninni sem setti neyðarlögin sagði við mig að neyðarlagasetningin og stofnun nýju bankanna utan um eignir sem teknar hefðu verið út úr þrotabúum þeirra hefði gengið undir nafninu „Operation fuck the foreigners“ á meðal ýmissa á þinginu og í embættismannakerfinu.
Alla tíð síðan þá hefur verið ljóst að Ísland hvorki ætlaði né gat greitt þessar skuldir sínar. Og mjög lengi hefur legið fyrir að við myndum komast upp með það. Þessari ákvörðun yrði sýndur skilningur í alþjóðasamfélaginu. Í lok síðasta árs var þessum kafla síðan að mestu lokað með því að vogunarsjóðirnir sem keyptu kröfur þeirra sem töpuðu mest á Íslandi sömdu um hversu mikið þeir mættu fá af þeim eignum sem hægt var að skipta á milli. Ljóst er að þeir eru mjög ánægðir með sína ávöxtun, sem er yfir væntingum þeirra.
Ísland getur þó verið kátast allra. Við fengum 3,5falda landsframleiðslu lánaða og þurfum ekki að borga hana til baka. Það má því segja að „Operation fuck the foreigners“ hafi gengið fullkomlega upp.