Arðgreiðslur tryggingafélaga landsins, sem ætla að greiða hluthöfum sínum samanlagt 8,5 milljarða króna í arð og kaupa hlutabréf af þeim fyrir 3,5 milljarða króna, hafa verið harðlega gagnrýndar undanfarna daga. Ekki síst vegna þess að þessar greiðslur eru langt umfram hagnað félaganna þriggja í fyrra. FÍB, félag íslenskra bifreiðaeigenda, segir til að mynda að tryggingafélög stundi sjálftöku og gripdeildir úr sjóðum sem séu í raun í eigu viðskiptavina þeirra. Félögin, VÍS, TM og Sjóvá, séu að fara að tæma bótasjóði til að greiða út ofangreindan arð á næstu dögum. Þessir sjóðir séu til vegna þess að tryggingafélögin hafi verið með uppsprengd iðgjöld af ofáætluðum tjónum.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, gagnrýndi arðgreiðslurnar einnig harðlega í pistli sem hún birti á heimasíðu félagsins á föstudag. Fyrirsögn hans er: „Okkur er misboðið!" Þar gagnrýnir Ólafía tryggingafélögin þrjú harðlega fyrir að láta hluthafanna ganga fyrir viðskiptavinunum þegar kemur að því að njóta hagnaðar sem þau skapa. „Slæm afkoma tryggingahluta fyrirtækjanna virðist kalla á hækkun iðgjalda en góð afkoma fjármálareksturs og breyttar reikningsskilaaðferðir eru ástæða greiðslu arðs. Nú eru aðgreiðslurnar langt umfram hagnað á meðan viðskiptavinir fá hærri reikning til að standa undir rekstri tryggingahlutans. Er nema von að við reiðumst?," sagði Ólafía.
Gagnrýni hennar á fullan rétt á sér. Það vakna hins vegar spurningar um af hverju VR beitir sér ekki beint vegna málsins. Stéttarfélagið skipar nefnilega fjóra af átta stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði verzlunarmanna á móti atvinnurekendum, sem skipa hina fjóra. Sá lífeyrissjóður er stærsti einstaki eigandi tveggja þeirra tryggingafélaga sem nú eru að greiða eigendum sínum háan arð, TM (9,8 prosent hlutur) og VÍS (9,2 prósent hlutur) . Hann er enn fremur sjöundi stærsti eigandi Sjóvar (4,5 prósent hlutur). Því er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem VR ræður yfir ásamt fulltrúum atvinnurekenda, sá aðila sem hagnast hvað mest af arðgreiðslum tryggingafélaganna. Og sá aðili sem ætti að vera í bestri stöðu til að koma óbeit sinni á ákvörðuninni um arðgreiðslurnar rækilega á framfæri.