Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeirri
skaðaminnkunarherferð sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, helstu
ráðgjafar hans, fjölmargir þingmenn Framsóknarflokksins og annað hart stuðningsfólk hafa staðið fyrir
undanfarna daga. Í hana var ráðist í kjölfar þess að þeir komust á snoðir um
að alþjóðlegur hópur rannsóknarblaðamanna ætlaði að upplýsa að eiginkona
ráðherrans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, ætti félag skráð í þekktu skattaskjóli. Þar geymir hún rúmlega milljarð króna. Auk
þess er hún stór kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna.
Í raun hefur framkvæmd þeirrar herferðar verið eitt það fyrirsjáanlegasta sem átt hefur sér stað í íslenskri pólitík í lengri tíma. Þ.e. að setja út hinar skaðlegu upplýsingar og sýna með því ætlað frumkvæði, en bíta síðan fast á móti af heilagri vandlætingu þegar eðlileg og nauðsynleg umræða, með réttmætum spurningum, hefst. Rúsínan í PR-pylsuendanum var síðan rosalega skrýtinn pistill forsætisráðherra þar sem hann leggur út frá því hversu óliðandi það sé að „ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi“.
Það sem þessi herferð, og blind þátttaka allra í kringum Sigmund Davíð í henni, opinberar er að hann er umkringdur meðvirku já-fólki. Það er tilbúið til að taka undir allt sem hann segir og fórna algjörlega eigin trúverðugleika og marktæki með því að bera fárveika málsvörn hans á opinber torg eins og um raunveruleika sé að ræða.
Aðskilnaður er ekki valkvæður
Nú skulum við fara yfir nokkrar staðreyndir. Kjarninn hefur reynt, án árangurs, að fá svör um erlendar eignir ráðherra ríkisstjórnar Íslands og fjölskyldna þeirra frá 15. mars 2015. Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, og aðrir sem hann hefur blandað í málið, hafa ítrekað neitað að veita þær upplýsingar. Það var eiginkona forsætisráðherra sem upplýsti sjálf um erlendar eignir sínar þegar við blasti að það stóð til að opinbera þær upplýsingar í erlendum stórblöðum. Í kjölfarið tók Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, að sér það hlutverk að svara öllum spurningum fjölmiðla um málið. Hann sendi einnig, óumbeðið, gögn sem eiga að sýna fram á rétt skattskil eiginkonu forsætisráðherra á fjölmiðla.
Það eru því ekki fjölmiðlar eða óprúttnir stjórnarandstæðingar sem blönduðu eiginkonu forsætisráðherra inn í eitthvað mál. Það voru hann, hún og ráðgjafar þeirra.
Bæði Anna Sigurlaug og Sigmundur Davíð hafa reynt í sínum málflutningi að selja þann sannleik að aðskilja þurfi með öllu hennar fjármál og stjórnmálamanninn Sigmund Davíð. Það er nánast fyndin eftiráskýring í ljósi þess hvernig forsætisráðherra hefur talað áður. Nægir þar að rifja upp viðtal við þá nýkjörinn formann Framsóknarflokksins sem birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2009. Þar segir: „Ég er í ágætu skjóli svo lengi sem konan mín gefst ekki upp á mér, ég fæ þá að borða og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sé hægt að ná til mín með fyrirgreiðslu eða ég þurfi að setja mig í þá stöðu að ég skuldi mönnum greiða. Ég er því frjáls til að fylgja eingöngu skoðunum mínum og beita mér jafnvel hart fyrir þeim.“
Árið 2009 var ríkidæmi eiginkonu hans ástæða þess að ekki var hægt að múta stjórnmálamanninum Sigmundi Davíð. Árið 2016 segir hann hins vegar að ríkidæmi hennar hafi ekkert með hann sem stjórnmálamann að gera.
Kröfuhafabani og krónuverndari
Það kusu fáir Sigmund Davíð eða Framsóknarflokkinn vegna þess að hann ætlaði að gera tíu ára búvörusamning, vegna þess að hann ætlaði að færa friðlýsingarvald frá Minjastofnun undir forsætisráðuneytið, vegna þess að þeir vildu lækka veiðigjöld, koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá eða vegna þess að þeir vildu að Evrópusambandsaðildarumsókn yrði hætt án aðkomu þings eða þjóðar. Ekkert af ofangreindu var í kosningabæklingi Framsóknar eða orðræðu Sigmundar Davíðs fyrir kosningar.
Nei, hann var kosinn sem leiðréttari og krónuverndari. Það voru málin sem skilgreindu hans pólitíska persónuleika. Hann vill vernda íslenska matvöruframleiðslu til að spara gjaldeyri. Hann vill greiða tugmilljarða króna skaðabætur fyrir verðbólguskot í stað þess að skoða upptöku nýrrar myntar. Hann fór meira að segja á íslenska kúrinn til að sýna hversu dásamlegt allt sem er íslenskt væri.
Samt kjósa forsætisráðherrahjónin að búa ekki í krónuhagkerfinu. Þau geyma peninganna sína annars staðar. Og þeir peningar hafa, í krónum talið, hækkað mjög í verði frá hruni, enda krónan veikst umtalsvert á því tímabili. Það er sannarlega ekki ólöglegt, en það er mjög á skjön við þá ímynd sem búin hefur verið til um manninn og seld kjósendum. Og það er siðferðislega ámælisvert að þykjast vera annar en þú ert.
Hitt meginatriðið sem Sigmundur Davíð hefur lagt út frá í sinni pólitík er að hann sé maðurinn til að leysa úr því risastóra efnahagslega vandamáli sem slitabú bankanna og losun fjármagnshafta eru. Hann var kröfuhafabani. Þar hefur „við og þið“ hugmyndafræðin verið tekin upp á nýtt og áður óþekkt stig í íslenskri umræðu. Fólkið í kringum Sigmund Davíð hefur beinlínis ásakað þá sem hafa ekki kokgleypt síbreytilegar stefnur forsætisráðherrans í málinu um að ganga erinda erlendra kröfuhafa. Vegið gróflega að mannorði og framfærslu fólks með vægðarlausum atvinnurógi. Nú er komið í ljós að eiginkona Sigmundar Davíðs er, og hefur verið allan þann tíma sem hann hefur verið forsætisáðherra, erlendur kröfuhafi. Og hann sagði engum frá því, væntanlega vegna þess að honum finnst það ekki koma neinum við.
Vanhæfið er algjört
En það kemur sannarlega öllum við. Vegna þess að eiginkona hans á mörg hundruð milljón króna beina hagsmuni af því hvernig slitabú föllnu bankanna eru gerð upp þá var hann alltaf vanhæfur til að koma að þeirri aðgerð. Látum liggja á milli hluta hvort aðkoma hans að aðgerðinni sé í andstöðu við stjórnsýslulög - það hlýtur að vera skoðað af þar til bærum eftirlitsstofnunum á næstu vikum - en hún er sannarlega í andstöðu við gildandi siðareglur ráðherra. Þar segir t.d. í a-lið 2.greinar að ráðherra skuli „forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín." Í c-lið sömu greinar segir að ráðherra eigi að upplýsa „fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstrum." Þessar siðareglur eru í fullu gildi og hafa verið það frá árinu 2011. Hægt er að lesa þær hér. Þær eiga að veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti eins og forsætisráðherrastaða er en jafnframt gefa þær almenningi færi á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og útgefnar reglur.
Vanhæfið og hagsmunaárekstrarnir blasa svo augljóslega við og það skiptir engu máli að Sigmundur Davíð hafi sagt við eiginkonu sína í einrúmi að eina leiðin til að endurreisa samfélagið væri að afskrifa kröfurnar hennar. Það skiptir heldur engu máli að hún hafi svarað honum, einnig í einrúmi, að „eina leiðin til að endurreisa samfélagið væri að afskrifa mikið af kröfum á bankana og það myndi þýða að margir sem þegar hefðu tapað miklu á gjaldþroti þeirra myndu tapa enn meiru.“
Það skiptir meira að segja engu máli þótt að Sigmundur Davíð hafi barist hart fyrir því að kröfuhafar, þar með talin eiginkona hans, myndu bera sem minnst úr býtum við uppgjör á slitabúunum. Það virðist hann nefnilega hafa gert. Sigmundur Davíð er samt vanhæfur til að koma að málinu vegna hagsmunaárekstra á nákvæmlega sama hátt og sá sem á kvóta er vanhæfur til að koma að ákvörðunum um úthlutun hans og á sama hátt og dómari má ekki dæma í málum skyldmenna sinna. Fyrir skemmstu komst umboðsmaður Alþingis til dæmis að þeirri niðurstöðu að Árni Sigfússon væri vanhæfur um að taka ákvarðanir um úthlutanir úr Orkusjóði til ríkisstofnunar sem bróðir hans stýrir. Þar voru engir persónulegir fjárhagslegir hagsmunir undir, en vanhæfið þótti samt algjörlega skýrt samkvæmt stjórnsýslulögum.
Hið alvarlega trúnaðarbrot verður að hafa afleiðingar
Það skal vera alveg skýrt að þetta mál snýst ekki um að enginn megi eiga pening. Það snýst ekki um að nýta sér maka til að koma höggi á stjórnmálamann. Þetta snýst ekki um að skattar hafi verið greiddir á réttan hátt eða að Íslendingar eigi peninga í erlendum skattaskjólum. Það snýst um gróft trúnaðarbrot milli forsætisráðherra og alls almennings. Það snýst um það að forsætisráðherra þjóðarinnar var vanhæfur til að taka þátt í öllum ákvörðunum vegna losunar hafta og slitum þrotabúa gömlu bankanna, vegna þess að eiginkona hans var kröfuhafi. Hún, og þar af leiðandi hann, höfðu beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu málsins.
Til viðbótar þarf nú að upplýsa um allar erlendar eignir allra ráðherra, fjölskyldna þeirra og allra annarra sem komu beint að haftalosunarferlinu. Það getur ekki verið nokkur vafi á um að það fólk hafi hagnast persónulega af niðurstöðu málsins. Í aðdraganda forsetakosninga er mikið talað um að græða þurfi þjóðarsárið. Sárið sem opnaðist við bankahrunið og blæðir tortryggni yfir öll lög samfélagsins. Sem gerir það að verkum að vantraust er á nánast allar stofnanir samfélagsins. Stjórnmálamenn verða að leiða það bataferli í orði og á borði.
Trúnaðarbrot forsætisráðherra sem átt hefur sér stað er eitt það alvarlegasta, ef ekki það alvarlegasta, sem orðið hefur í íslenskum stjórnmálum. Og það verður að hafa afleiðingar. Stjórnmálastéttin verður að ákveða, með trúverðugum hætti, hverjar þær afleiðingar eiga að vera. Annars getum við einfaldlega pakkað saman og hætt þessum samfélagsleik okkar.