Það virðast margir spyrja sig að því hvað það var nákvæmlega sem gerði það að verkum að á þriðja tug þúsund manns mættu og mótmæltu á Austurvelli mánudaginn 4. apríl. Mótmæli sem gáfu atburðarás kraft sem leiddi til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr stóli forsætisráðherra og nokkurs konar ný ríkisstjórn var mynduð á gömlum merg. Margar ástæður eru nefndar fyrir þessari þróun. Forsætisráðherra sagði ósatt, hann varð uppvís að fordæmalausum hagsmunaárekstrum, hann opinberaði eigið skilningsleysi á siðferði með því að segjast byggja sitt á lögum og reglum.
En líklega er stærsta skýringin sú að þetta var síðasta hálmstráið. Kastljósþátturinn sem opinberaði ráðamenn sem aflandsfélagaeigendur, og upplýsingar um að nokkur hundruð Íslendingar hið minnsta væru það líka, staðfesti að á Íslandi búa tvær þjóðir. Þeir sem eiga, stýra, deila og drottna, og svo hinir.
Umboðið dregið til baka
Algjör trúnaðarbrestur varð gagnvart ríkisstjórninni í byrjun síðasta mánaðar. 70 prósent misstu traust gagnvart henni samkvæmt könnunum. 63 prósent misstu traust á Alþingi og 67 prósent á stjórnmálum almennt. Þetta er fordæmalaus trúnaðarbrestur. Og það var ekki hægt að vísa í þingmeirihluta sem varð til í kosningum fyrir þremur árum síðan sem ástæðu til þess að sniðganga trúnaðarbrestinn. Segja kjósendum bara að halda kjafti, ríkisstjórnin sé með 38 þingmenn og að meirihlutinn ráði.
Alveg skýrt var að það þurfti að boða til kosninga. Umboðið sem ríkisstjórnin, og stjórnmál yfirhöfuð, fékk í apríl 2013 var horfið. Og haustkosningar eru líkast til besti kosturinn í þeim efnum. Það var rétt ákvörðun að setja þær á dagskrá.
En ríkisstjórnin hefði átt að nálgast málið á allt annan hátt en hún gerði. Af meiri auðmýkt og skilningi gagnvart viðbrögðunum. Sigmundur Davíð hefur til að mynda ekki beðist afsökunar á neinu nema því að hafa staðið sig illa í viðtali og telur sig hafa verið leiddan með óbilgirni í gildru af óheiðarlegum fréttamönnum. Sigmundur Davíð sér eftir því að upp um hann komst, ekki því sem hann gerði.
Fokreiður Bjarni Benediktsson að hella sér yfir stöðu stjórnarandstöðunnar, gefandi hrokafullar yfirlýsingar um mótmælendur og verða sér til skammar alþjóðlega með frammistöðu í viðtali við franska sjónvarpsstöð var heldur ekki viðmótið sem aðstæðurnar verðskulduðu. Það má vel vera að Bjarna þyki ósanngjarnt að fólk fetti fingur út í aflandsfélagaeign hans. En það breytir því ekki að í augum flestra sæmir slík eign ekki manni sem tilheyrir tvíeykinu sem leiðir þjóðina. Hún er merki um rof. Það sýndi sig vel í könnun Félagsvísindastofnunar sem birt var 6. apríl síðastliðinn. Þar vildu nær átta af hverjum tíu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segði af sér og sex af hverjum tíu að Bjarni gerði það.
Það hefði ekki verið góð hugmynd að kjósa í maí. Aðdragandinn fyrir alla sem hyggja á framboð í þingkosningum hefði verið allt of skammur. Það hefði leitt til þess að fólki hefði verið raðað á lista í flýti og málefnavinnu í aðdraganda kosninga hefði verið ábótavant. Niðurstaðan hefði verið sú að þeir valkostir sem stæðu okkur kjósendum til boða hefðu ekki verið af þeim gæðum sem við eigum heimtingu á.
Ósætti um skiptingu auðs
Kapítalismi er í grunninn gott kerfi til að auka hagsæld og lífsgæði. Sagan sýnir það svart á hvítu. Framleiðsla markast þá af markaðslögmálum og stuðlar að skapandi framþróun. Samkvæmt einfaldri skilgreiningu á kapítalisma þá snýst hann um að kapítalistarnir eigi framleiðslutækin en frjálst vinnandi fólk fær laun fyrir að selja vinnuafl sitt og vinna við þau.
Það er þó hægt að útfæra kapítalisma á margskonar hátt. Á Norðurlöndunum eru til að mynda mjög blönduð hagkerfi þar sem ríkið leikur stórt hlutverk í efnahagskerfinu. Þótt Íslendingar séu líkast til flestir fylgjandi því að hér sé rekið kapítalískt markaðshagkerfi samhliða sterku velferðarkerfi þá er augljóst ósætti um hvernig auðurinn sem kerfið myndar eigi að skiptast á milli fólks. Hérlendis hefur hann safnast hratt upp á fárra höndum vegna þess að völdum hópi hefur verið gert kleift með lagasetningu að búa til gríðarlegan arð af nýtingu náttúruauðlinda. Með því að nýta stjórnmálalega stöðu til að færa útvöldum valin viðskiptatækifæri. Með því að handvelja ríkt fólk sem á peninga til að græða enn meiri peninga.
Þessi litli hópur Íslendinga er sá sem á bankareikninga erlendis. Sem var í einkabankaþjónustu hjá gömlu íslensku bönkunum sem stofnuðu aflandsfélög þar sem ríku Íslendingarnir gátu falið peningana sína fyrir hinum Íslendingunum, skattinum og síðar meir lánardrottnum sem vildu fá skuldir sínar greiddar. Peninga sem urðu til á Íslandi.
Um hvað snýst þetta?
Það er ekki bara tilfinning að auður sé að safnast saman á færri höndum. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir einstaklinga óx auður tekjuhæstu tíundar landsmanna á vinnumarkaði, 19.711 manns, um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Það var 16,2 milljörðum krónum meira en fátækari helmingur vinnandi landsmanna, rúmlega eitt hundrað þúsund manns, jók eignir sínar um á sama tíma.
Auður þessa efsta lags íslensks samfélags hefur raunar vaxið ævintýralega á rúmlega áratugi. Árið 2002 áttu Íslendingar 885 milljarða króna í hreinni eign. Síðan þá hefur auður þeirra aukist um 1.626 milljarða króna. Af þeim auði hafa 603 milljarðar króna runnið til efstu tíundarinnar, eða 37 prósent viðbótarauðsins.
Auk þess á ríkasta tíund þjóðarinnar yfir helming allra verðbréfa. Markaðsvirði þeirra verðbréfa, sem eru til dæmis hlutabréf í fyrirtækjum landsins, er mun hærra en uppgefið nafnvirði. Því er eigið fé ríkasta hópsins því miklu mun meira en tölur Hagstofu Íslands gefa til kynna. Bilið er enn stærra.
Þegar það kemur í ljós að hluti þessa hóps geymir ekki einu sinni peningana sína í íslenska hagkerfinu er ekki skrýtið að fólk verði reitt. Rofið milli þeirra sem eiga fjármagnið og eignirnar og þeirra sem fá borgað fyrir að skapa auðinn er fullkomnað. Þeir sem eiga þurfa ekki að takast á við tugprósenta gengisfall, verðbólgurússíbana og fjármagnshöft líkt og launafólkið sem fær borgað í íslenskum krónum. Á meðan að launafólkið tekur á sig leiðréttingu hagkerfisins eftir óhófstíð fyrir hrun í gegnum veskið árum saman hagnaðist ríka fólkið á gengisfallinu vegna þess að það geymdi peningana sína í aflandsfélögum. Og gat svo flutt peningana sína aftur inn í íslenska hagkerfið í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem leynd ríkir yfir hverjir nýttu sér, keypt eignir á brunaútsölu með 20 prósent afslætti, og þar með orðið enn ríkari.
Þeir sem leiddu ríkisstjórnina sem kosin var til valda í síðustu kosningum tilheyra efsta laginu. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson eru af auðfólki komnir. Og margar aðgerðir ríkisstjórnar þeirra voru tortryggðar vegna þess að þær þóttu frekar þjónusta hina best settu en launafólkið í landinu.
Opinberunin í Kastljósþættinum sunnudaginn 3. apríl, sem nær átta af hverjum tíu landsmönnum fannst faglegur, staðfesti þessa tilfinningu í hugum margra. Þess vegna mótmæltu svona margir. Þess vegna styður einungis fjórðungur þjóðarinnar ríkisstjórnina. Þess vegna er allt traust milli almennings og stjórnmálalegra stofnana landsins horfið.