Nú er farið að færast fjör í leikana, í forsetakosningunum. Hart er sótt að Guðna Th. Jóhannessyni, eins og við var að búast. Hann hefur mælst með yfirburðarmesta fylgi allra frambjóðenda til þessa, eða tæplega 70 prósent. Ekki er víst að það haldist svo lengi, þegar meiri þungi kemst í baráttuna, en mikið þarf til svo að annar frambjóðandi eigi raunhæfan möguleika á sigri. Davíð Oddsson er líklegastur til að klifra upp í fylgi vegna þess hve sterkt bakland hann hefur frá gamalli tíð í stjórnmálunum, og er auk þess þekktastur allra frambjóðenda.
Ýmislegt hefur verið nefnt í gagnrýni á Guðna; afstaða hans í Icesave-deilunni og sitthvað fleira. Hildur Þórðardóttir, forsetaframbjóðandi, skrifaði grein sem birtist á vef Kjarnans í dag, þar sem hún ræðst með nokkru offorsi gegn Guðna. Hildur, sem hefur varla mælst með fylgi í könnunum til þessa, virðist sjá hann fyrir sér sem frambjóðanda valdsins.
Það var erfitt að sjá það fyrir að þorskastríðin kæmu upp á sviðið sem vopn gegn Guðna. Hann er líklega bestur þegar hann fær að taka þátt í umræðum um eigin rannsóknir. Ekki er víst að þessi taktík í gagnrýni muni virka, og þó; líklega er þetta ágæt leið til „safna liði", í það minnsta hjá Davíð.
Eitt hefur komið til umræðu hjá Davíð Oddssyni, og það eru sjálf neyðarlögin. Þegar hagstjórnin í landinu og skelfilega óábyrgur, fífldjarfur og lélegur bankarekstur, og óskilvirkt og lélegt eftirlit Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins (FME), höfðu skapað raunverulega hættu á allsherjarþroti hagkerfisins, þá var lögunum beitt til að vernda almannahagsmuni. Samkvæmt orðræðu Davíðs, og kannski helst stuðningsmanna hans, þá var það hann sem átti mestan heiðurinn að neyðarlögunum.
Óhætt er að segja að þetta sé umdeilt mat á sögulegum atburðum, en þetta er ekki nýtt í sjálfu sér. Davíð hefur margsinnis gagnrýnt sérstaklega FME fyrir að hafa brugðist í aðdraganda hrunsins, en talað um að Seðlabankinn hafi staðið sig vel, en hann sjálfur var formaður stjórnar seðlabankans í hruninu eins og kunnugt er.
Einn þeirra sem hefur spurt Davíð gagnrýnið út í þessi mál er Andri Árnason hrl., og lögmaður Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu. Hann spurði endurtekið út í atriði sem snéru að samstarfi Seðlabankans og FME, og benti á að það hefði verið samstarfssamningur í gildi, einmitt til þess að gera eftirlitið með einstaka þáttum kerfisins skilvirkara og betra. Seðlabankinn gæti ekki fríað sig ábyrgð á þessum málum. Það var fátt um skýr svör hjá Davíð, og hann endurtók það sem hann sagði áður; að FME hefði haft umsjón með mati á bönkunum og haft heimildir til að greina innviði bankanna.
Þegar kemur að framkvæmd neyðarlaganna sjálfra, þá er líka forvitnilegt að hlusta á vitnaleiðslur fyrir landsdómi. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME, var einn þeirra sem var í vitnastúku og rakti meðal annars hvernig tekið var á stöðu mála, þegar bankarnir bókstaflega hrundu. FME framkvæmdi neyðarlögin, ekki Seðlabankinn. Og hugmyndin um helsta inntak þeirra - að breyta kröfuröðinni og verja innlán almennings og fyrirtækja - fæddist á síðustu metrunum, í algjöru „panikki“. Enginn skýr leiðarvísir lá fyrir, heldur höfðu stjórnvöld aðeins teiknað upp mögulegar sviðsmyndir, eins og sjálfsagt er. Þetta helsta inntak í neyðarlögunum var atriði sem Jónas Fr. beitti sér að síðustu fyrir að færi inn í lögin, en vissulega höfðu margir aðkomu að lagatextanum.
Það er auðvitað grátbroslegt að hrunið haustið 2008, og einstaka atriði sem tengjast því hver gerði hvað, sé nú orðið að kosningamáli í forsetakosningunum 2016. En það á ekki að koma á óvart, í ljósi þess að Davíð er kominn fram á sjónarsviðið. Andstæðingar hans og stuðningsmenn sjá hlutina með ólíkum hætti, svo ekki sé meira sagt.