Það leit ágætlega út á korti að skjótast frá smábænum í Suður-Frakklandi, þar sem ég og fjölskyldan mín erum í sumarfríi, til St. Etienne á fótboltaleik. Þúsund kílómetra akstur fram og til baka á innan við sólarhring er hins vegar leiðigjarnari í framkvæmd en ég sannfærði mig um við skipulagningu hans.
Það er þó öllum sem búa á ferðamannafylltu Íslandi hollt að keyra um hraðbrautir meginlands Evrópu, þar sem vegirnir eru frábærir og þeir sem nota þá borga fyrir notkunina í tollahliðum. Í hvert sinn sem ég greiddi samviskulega fyrir þetta öryggi og þessi gæði langaði mig að vera með Ólöfu Nordal, ráðherra samgöngumála, í farþegasætinu til að benda henni á að það er svo augljóslega bæði galið og stórhættulegt að láta skattfé 330 þúsund manna þjóðar duga til að borga fyrir lélegt vegakerfi sem hátt í tvær milljónir manna nota í dag.
Þá áttaði ég mig á því að ég væri örugglega kominn með toxoplasma í heilann sem orsakað hefði breytingu á hegðun minni og hugsun, enda búinn að eyða hátt í viku í hinu hræðilega Evrópusambandi að borða osta sem eru ekki Gotti og bragðast raunverulega vel, nautakjöt úr útlenskum dýrum og súpa af rósavíni keyptu í stórmarkaði sem, ótrúlegt en satt, gerði það ekki að verkum að ég gerðist óhófsdrykkjumaður.
-son bætti -sen
Til að stytta mér stundir var ég búinn að safna upp nokkrum þáttum af bestu fótboltahlaðvörpum heims, Football Weekly og Men in Blazers. Þar er farið yfir, oft á ljóðrænan, vitrænan og oft stórkostlega fyndinn hátt, það helsta sem er að gerast í þessari skrýtnu íþrótt sem heillar svo marga.
Það var prýðileg upphitun fyrir það sem var framundan. Roger Bennett, Everton-með-haldandi snillingurinn sem er í aðalhlutverki í Men in Blazers þáttunum, er nýkominn heim til Bandaríkjanna eftir Íslandsheimsókn og lýsir því yfir við hvert tækifæri hvað hann sé heillaður af okkur og okkar. Bennett, sem er Englendingur, hefur ekki getað haldið með því landsliði frá árinu 1986 eftir að hann braut rúðu þegar Maradona skoraði með hendi guðs gegn Trevor Steven og félögum í enska landsliðinu í einum frægasta landsleik allra tíma. Þess vegna heldur hann með Íslandi í ár.
Football Weekly piltarnir eru með daglegan þátt á meðan að EM stendur yfir þar sem þeir gera upp það helsta sem gerðist þann daginn og spá í það sem er framundan. Óhætt er að mæla með þeim fyrir alla sem vilja meira, dýpra og skemmtilegra.
Umfjöllun þeirra um íslenska landsliðið hefur reyndar að mestu snúist um einkennilegheit frekar en getu liðsins. Þeir hafa til að mynda bent á að íslenska liðið hafi slegið áratugagamalt met Dana í leiknum gegn Portúgölum í gær. Á sjöunda áratugnum tefldu Danir fram liði þar tíu leikmenn báru eftirnafn sem endaði á -sen. Íslendingar bættu það met með því að tefla fram ellefu leikmönnum í gær sem enduðu á -son.
Önnur einkennileg staðreynd er sú að það eru fleiri leikmenn sem spila í íslensku deildakeppninni að spila í Copa America þetta árið en á EM. Þ.e. einn, Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar, situr á tréverkinu hjá Jamaíka. Svo hefur auðvitað verið týnt til þetta klassíska að líkurnar fyrir íslenskan karlmann á fótboltaspilunaraldri á að komast í landsliðið séu 2000 á móti einum (líkurnar á því að Leicester yrðu enskir meistarar voru 5000 á móti einum hjá veðbönkum fyrir síðasta tímabil) og að átta prósent þjóðarinnar væri mætt til að styðja við bakið á íslenska karlalandsliðinu á fyrsta lokamóti þess (til að halda áfram „miðað-við-höfðatölu“ leiknum sem við elskum svo mikið þá er það eins og að 4,3 milljónir Englendinga væru í Frakklandi í sama tilgangi). Þeir veltu töluvert fyrir sér íslenska orðatiltækinu „teknir í bakaríið“
En að leiknum.
Japanir í háum fimmum
Ég viðurkenni fúslega að hafa verið áhyggjufullur þegar ég settist við hliðina á japönskum starfsbræðrum mínum í blaðamannastúkunni í St. Etienne. Byrjunarliðið var það sama og hafði fleytt Íslandi í gegnum undanriðlanna að mestu (Ísland notaði einungis 16 leikmenn í undankeppninni. Ekkert lið notaði færri leikmenn). Frá því að þátttakan á lokamótinu var tryggð í fyrrahaust hefur hins vegar staðið yfir stórtæk tilraunastarfsemi og allskyns leikmenn hafa fengið tækifærið til að sanna sig, mest megnis með frekar slælegum úrslitaárangri. Þess vegna var ekki sjálfsagt að þessir ellefu hermenn myndu detta strax í taktinn sem þeir höfðu í gegnum undankeppnina þótt að þeim væri stillt upp saman.
Auk þess hafði ég áhyggjur af spennustiginu. Hvernig þeir myndu ráða við það. Margir þessarra stráka hafa látið það bera sig ofurliði tvívegis áður, þegar þeir léku í lokakeppni U-21 árs liða og svo í umspilsleiknum gegn Króatíu úti.
Svo hafði ég áhyggjur af því að Hannes væri ekki búinn að spila nógu mikið síðan að hann meiddist, að Kolbeinn væri laskaður á sálinni eftir súrt tímabil, að Kári væri of hægur fyrir innanhúsboltann minn á fimmtudögum, og þar af leiðandi ekki boðlegur á þessu sviði.
Sumir myndu kalla þetta óþarfa neikvæðni, en ég kýs að líta á þetta sem væntingastjórnun. Það er betra að láta koma sér á óvart en að valda vonbrigðum. Og mér var sannarlega komið á óvart.
Hátt og langt
Það var eiginlega draumkennd upplifun að horfa á Ísland spila á lokamóti. Að horfa á eitt horn vallarins vera algjörlega blátt, utan örfárra manna sem töldu EM vera blazer-viðburð, að syngja „Ferðalok“ fyrir leik af ofsakrafti og rúlla svo upp döprum portúgölskum áhangendum á öllum sviðum stuðningsmennsku það sem eftir lifði leiks.
Fyrri hálfleikur var ekki góður. Liðið hreyfði sig á löngum köflum eins og karlar á Fussball-borði, í flatri 4-4-2 línu. Það var samt sem áður alveg augljóst frá fyrstu mínútu að Ísland gæti gert eitthvað í þessum leik ef þeir stilltu sig aðeins til. Ótrúlegur stuðningur og óþolandi mannkostir stærstu leikmanna Portúgala, sérstaklega Ronaldo og Pepe, hjálpuðu ugglaust til að bæta þessari smá viðbót sem þarf til að lið sem skortir tæknilega getu bæti það upp með óseðjandi vilja og ákveðni.
Seinni hálfleikur var mun betri, og ótrúlegt en satt hafði maður alltaf einhvern veginn á tilfinningunni að við myndum ná einhverju út úr þessum leik. Það er auðvitað ljóðrænt að Birkir Bjarnason, sem lítur út eins og að He-Man og Fabio hafi eignast barn, skuli hafa skorað, gangandi auglýsing fyrir víkingaímyndina sem okkur Íslendingum er svo annt um að tengja okkur við.
Ég hafði reynt, með slælegum árangri, að sýna faglega stillingu í blaðamannastúkunni og sýna ekki miklar tilfinningar þegar hlutir gerðust í leiknum. Ég skil reyndar ekki af hverju, enda augljóst á gömlu Sævars Jónssonar-landsliðstreyjunni frá 1988 sem ég var íklæddur að ég var afar hlutlægur. Þegar Birkir skoraði réð ég hins vegar ekki við mig og rauk upp með öskrum, líkt og allir aðrir landar mínir. Íslenska karlalandsliðið hafði skorað mark á lokamóti í knattspyrnu. Og var við það að taka stig af Portúgölum. Japanirnir fíluðu þetta og gáfu mér háar fimmur.
Það skal viðurkennt að ég elska ljótan fótbolta. Hátt og langt er alveg minn kaffibolli. Og íslenska liðið bauð upp á það í hrönnum. Ekkert endurspeglaði leikskipulagið betur en sú staðreynd að Aron Einar Gunnarsson var látinn taka nær öll innköst liðsins, sama hvar þau voru á vellinum og grýta boltanum eins langt og hann gat. Á einum tímapunkti tók hann slíkt við hornfána íslenska marksins. Í fótbolta, ólíkt stjórnmálum, helgar tilgangurinn meðalið. Íslensku stuðningsmennirnir elskuðu þetta með mér. Hverri tæklingu, kýlingu og „bodýtékki“ var fagnað líkt og liðið hefði skorað eftir hjólhestaspyrnu.
Síðustu mínúturnar voru þó afar taugatrekkjandi. Þegar Ronaldo skaut úr aukaspyrnum 33 og 34 á lokamóti (hann hefur aldrei skorað úr slíkri á slíku) í uppbótartíma hélt ég að ég væri að fá heilablæðingu. En það hefur örugglega bara verið toxoplasminn út af ESB-fæðinu.
Stoltið helltist síðan yfir mann þegar tyrkneski dómarinn flautaði leikinn loks af. Stolt vegna frammistöðu liðsins, vegna frammistöðu stuðningsmanna og vegna þess að við erum ekki eins slæmar manneskjur og Ronaldo og Pepe.
Helvítis Icesave og Gary Lineker
Auðvitað fagnaði íslensk þjóð villt og galið eftir þennan stórkostlega leik. Við erum langminnsta þjóð sem leikið hefur á lokamóti, skorað mark á lokamóti og fengið stig á lokamóti. Það er einstakur árangur og sýnir að það er hægt að fara langt á því að vera ruglaður og sýna samheldni. Heimurinn, og Gary Lineker, var sammála.
Það er nefnilega dásamlegt hvað skrýtin íþrótt getur sameinað þjóð sem hefur það sem þjóðaríþrótt að rífast á internetinu. Þótt það væri ekki nema í nokkrar mínútur.
Svo kíkti maður á samfélagsmiðlanna og sá að sigurinn var orðin að karpfæðu. Þeir sem telja sig sannari Íslendinga en aðra voru farnir að nota hlægileg ummæli freku krakka-gínunar Ronaldo um smælingjahugarfar Íslendingar sem pillu á einhverja ímyndaða andstæðinga. Að þetta væri svipað viðhorf og þeir sýni. Reyndar er þetta sami hópur og skilgreinir lífið og samfélagið út frá Icesave. Það fyndna við þessi einföldu og vitgrönnu merkimiðafræði er að þeir sem hana stunda, og nota til að ásaka aðra um að sundra eða svíkja, sundra mest sjálfir. Það gerir nefnilega aðra ekki að föðurlandssvikurum, landráðamönnum eða öðru slíku einfaldlega vegna þess að þeir sjá ekki tilveru sína sömu íhaldssömu og sérhagsmunagæslublinduðu augum og þeir.
En látum það ekki trufla gleðina. Áfram til Marseille til að sigra Ungverja. Heimurinn heldur með okkur. Lítilmagnanum. Stórasta landi í heimi.