Fyrir fjórum dögum fékk ég tölvupóst frá framboði Hillary Clinton sem var frekar ógnvekjandi. Ég er skráður á netfangalista framboða Hillary og Donald Trump, fyrst og fremst til að fylgjast með og hvaða boðskap þessir tveir frambjóðendur hafa fram að færa.
Að undanförnu hefur slagurinn orðið harðari og stór orð falla alla daga, bandaríska alríkislögreglan FBI liggur undir ámæli og bakland beggja framboða er með allt á yfirsnúningi til að ná fram sigri 8. nóvember.
Það er erfitt að fylgja öllu því sem fram kemur, en í stórum dráttum er staðan sú að mjótt er að munum og það getur allt gerst. Líkurnar eru sagðar Hillary hagfelldari nú þegar fimm dagar eru til kosninga. FiveThirtyEight metur sigurlíkur Hillary um 65 prósent en Trump 35 prósent. Fyrir aðeins tveimur vikum voru líkurnar 87 prósent.
En aftur að póstinum. Hann var frekar stuttur, en í honum komu fram skilaboð um dagblað kynþáttahatarana í Ku Klux Klan (KKK), samtaka sem byggja blindu hatri á svörtum og hafa í seinni tíð borið út boðskap gegn hatri á innflytjendum, væri opinberlega búið að lýsa yfir stuðningi við Donald J. Trump. Blaðið heitir því ógeðfellda nafni, í ljósi málstaðarins, Krossfarinn (The Crusader).
Það merkilegasta við stuðninginn er að Trump sjálfur hefur neitað að fjarlægja sig KKK og þannig lagt blessun sína yfir að samtökin styðji frambjóðanda Repúblikana. Þetta reitti meðal annars Paul Ryan, einn af forystumönnum Repúblikana og fyrrverandi varaforsetaefni flokksins, til reiði og sagði hann að þetta daður Trump við samtök kynþáttahatara væri óásættanlegt. Hvað sem má segja um fyrri frambjóðendur flokksins, þá hafa þeir alltaf dregið skýrar línur þegar kemur að kynþáttahatri og algjörlega hafnað því.
Þetta atriði er reyndar bara eitt af mörgum sem tóna við rasismann hjá Trump, bæði kynþáttahatrið en ekki síður menningarlegan rasisma þar sem talað er gegn minnihlutahópum og þá einkum og sér í lagi innflytjendum. Málflutningurinn er síðan allur í slagorðum og frösum, og aldrei á dýptina eins og sást glögglega í sjónvarpskappræðunum þremur, sem Trump skíttapaði. Hans barátta snýst öðru fremur um að tala til allra þeirra sem eru óanægðir og fá þá til að snúast gegn „kerfinu“ og hafna Hillary.
Mikil spenna í Flórída
Í stuttu máli er staðan í Bandaríkjunum þannig, að ríki þessa stórveldis standa afar misjafnlega og er menningarlegur munur oft með ólíkindum. Strandríkin í vestri og austri hafa styrkst mikið efnahagslega á undanförnum árum, á meðan mörg miðríki, allt frá suðri til norðurs, standa verr.
Sé horft yfir stöðuna frá vestri til austurs þá er vesturstrandarríkin þrjú, Kalifornía, Oregon og Washington, nær alveg á bandi Hillary, miðað við kannanir. Mikil spenna verður í Nevada, þar sem sigurlíkur Hillary eru nú metnar 49,2 prósent en Trumps 50,8 prósent. Í Nýju-Mexíkó eru líkurnar með Hillary en FiveThirtyEight metur 82 prósent líkur á hún vinni þar. Í öllum öðrum suðurríkjum, frá Arizona í vestri til Virgínu í austri, eru líkurnar nú frekar með Trump. Mikil barátta verður fyrirsjáanlega í tveimur ríkjum á austurströndinni. Í Flórída og Norður-Karolínu. Staðan í Flórída er nú afar tvísýn, en líkurnar eru heldur með Trump eins og þær eru settar fram í á vef FiveThirtyEight, eða 50,6 prósent líkur á að hann sigri en 49,4 á að Hillary hafi betur. Í öðrum ríkjum á austurströndinni hefur Hillary stuðning vísan, en miðríkin eru meira og minna á bandi Trump.
Áþreifanleg spenna
Spennan fyrir kosningarnar er nánast áþreifanleg hér í Bandaríkjunum. Í Washington ríki, sem í gegnum tíðina hefur verið sterkt vígi Demókrata, má skynja mikla hræðslu við kosningarnar. Hvað gerist ef Trump vinnur? Þó vafalítið muni lífið ganga sinn vanagang, þá óttast margir sem ég hef rætt við, að Bandaríkin verði óöruggari og sundurlyndið mun leiða til mikilla átaka. Að grunni til er Bandaríkin innflytjendaland og byggt upp af innflytjendum. Þær ögranir sem Trump hefur byggt baráttu sína á er ekki aðeins til þess fallin að vekja hneykslan heldur líka hræðslu.
Þegar ég ræddi við foreldra bekkjarfélaga sonar míns, hér í Kirkland í útjaðri Seattle, þá skynjaði ég þetta sterkt. Hér er mikill suðupottur og stórt innflytjendasamfélag, ekki síst fólks frá Asíu sem starfar í tæknifyrirtækjum á svæðinu, Amazon og Microsoft einna helst. Fólk hræðist að hatrið fari á flug í Bandaríkjunum. Sagan sýnir að þetta geti gerst og afleiðingarnar eru ógnvænlegar. Harðari átök, bæði pólitísk og hagsmunatengd, innanlands. Meiri stríðsátök í heiminum eru líka ofarlega í huga fólks. Gleymum því ekki að Bandaríkin hefur peningaprentunarvald að baki tæplega tveimur þriðju af gjaldeyrisvaraforða heimsins, en Bandaríkjadalur er langsamlega stærsta viðskiptamynt heimsins. Alþjóðavætt varnarhlutverk landsins mótast ekki síst af þessum víðtæku og oft flóknu hagsmunum. Forseti Bandaríkjanna þarf því að búa yfir miklum mannkostum, yfirvegun og djúpri þekkingu á gangi heimsmálanna. Það hefur ekki sést glitta neitt í þetta hjá Trump. Ekki í eina sekúndu.
Eins og mál standa nú þá gæti þessi hatursboðskapur Trumps – sem er eins víðsfjarri hugmyndinni um frjálsan alþjóðavæddan heim og hugsast getur – unnið í kosningunum eftir fimm daga. Það hræðir fólk. Heilt yfir eru þó taldar meiri líkur á að Hillary vinni.