Úrskurður Kjararáðs frá því á kjördag 29. október hefur sett stöðuna á vinnumarkaði í uppnám. Með ákvörðuninni voru laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands hækkuð í einu stökki um tugi prósenta. Guðni Th. Jóhanesson, forseti Íslands, hefur þegar afþakkað hækkunina, en þingmenn og ráðherrar hafa ekkert gefið út um hvað þeir munu gera.
Féll í grýttan jarðveg
Ákvörðunin var misráðin, augljós mistök, og sést það ekki síst á því að öll helstu samtök og stéttarfélög, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og hjá atvinnurekendum, hafa harðlega mótmælt henni og krafist þess að hún verði afturkölluð strax. Forysta ASÍ hefur raunar farið fram á að þing verði kallað saman þegar í stað, og að fyrsta verkið verði það draga ákvörðunina til baka.
Beggja vegna borðsins heyrist sama óánægjuröddin, og ekki af ástæðulausu. Staðan á vinnumarkaði er viðkvæm, en með víðtæku samráði og samstarfi, ekki síst með stefnumarkandi skilaboðum frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, þá hefur verið um það rætt að hætta hinu sígilda „höfrungahlaupi“ í launaþróun, þar sem hver hópurinn eltir hinn, með kröfum um tugprósenta launahækkanir reglulega. Bjarni sjálfur hefur margítrekað að þessa aðferðafræði eigi ekki að nota, og það sé stórt hagstjórnaratriði fyrir Ísland að láta af þessu.
Þvert gegn boðaðri stefnu
Ákvörðun Kjararáðs fer alveg þvert gegn þessari stefnu. Samt þarf Kjararáð, samkvæmt lögum, að lesa í efnahagsaðstæður og launaþróun á hverjum tíma og haga ákvörðunum sínum í samræmi við aðstæður. Kjararáð mislas aðstæður hrapalega, og neikvæðar afleiðingar eru þegar komnar fram.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að halda vaxtastigi óbreyttu, en meginvextir eru nú 5,25 prósent á meðan verðbólga mælist 1,8 prósent. Ein af ástæðum þess að vextir lækka ekki eru áhrifin af ákvörðun Kjararáðs. Þetta sögðu forystumenn Seðlabanka Íslands, og staðfestu um leið neikvæð áhrif þessar ákvörðunar.
Hver vill ekki vera fjárhagslega sjálfstæður?
Meginþunginn í rökstuðningi Kjararáðs, eins og hann kemur fyrir í úrskurði þess, er þessi: „Afar mikilvægt er að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. Störf þeirra eiga sér ekki skýra hliðstæðu á vinnumarkaði enda eru þeir kjörnir til starfa í almennum kosningum og þurfa að endurnýja umboð sitt að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum hafa ekki verið ákvarðaðar sérstakar greiðslur fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma, þrátt fyrir að störf þeirra fari að hluta til fram utan hans.“
Þetta er einfeldnisleg röksemd, og það hlýtur að vera að hún hafi verið soðin saman í fljótheitum. Þennan texta má setja sem röksemdir fyrir flestar stéttir sem nú krefjast betri launa. Þá eru ábendingar úr ráðuneyti Bjarna, um að með þessari fyrirhuguðu tugprósenta hækkun séu ráðamenn búnir að ná flestum öðrum stéttum í launaþróun – þegar horft er yfir 10 ára tímabil með hruntímanum meðtöldum – einkennilegar.
Af hverju eru þær einkennilegar? Vegna þess að með þessari yfirlýsingu, staðfestir ráðuneyti Bjarna, að talið um nýtt verklag við mótun launastefnu á vinnumarkaði – það er að leggja höfrungahlaupið á hilluna – sé orðin tóm. Ekkert er að marka þá stefnu, ef ráðamenn eiga að fá reglulega tugprósenta hækkun til að hanga í öðrum stéttum, meðal annars stéttum sem starfa á einkamarkaði þar sem samanburður við stjórnmálaumhverfið er ekki alltaf viðeigandi. Ef höfrungahlaupið á að gilda um ráðamenn, þá gildir það hjá öllum öðrum.
Ein stétt hefur til dæmis nú risið upp og krefst tafarlausra launahækkana og úrbóta í vinnuumhverfi sínu. Það eru kennarar, sem hafa verið með lausa samninga frá því í júní. Ástæðan fyrir því að ólgan spratt upp á yfirborðið, með fjöldafundum og þrýstingi á sveitarfélög, var meðal annars hin illa rökstudda ákvörðun Kjararáðs. Staðan er alvarleg, ekki síst í ljósi þess að hún tengist slæmum aðstæðum í íslensku menntakerfi til framtíðar litið. Nýliðun er ekki næg í kennarastétt, og úrbóta er þörf.
Ekki vont fólk en hugsanlega ekki hæft
Kannski er ástæðan fyrir ákvörðun Kjararáðs sú, að í ráðinu situr fólk sem býr ekki yfir nægilegri þekkingu á efnahagsmálum. Þekking á lögfræði innan ráðsins er ágæt, eins og oft er í ráðum og nefndum hjá hinu opinbera, en ekki er að sjá mikla sérfræðiþekkingu á greiningu á stöðu efnahagsmála. Slíkt væri þó augljósa kærkomið í örríkinu Íslandi þar sem ákvarðanir ráðsins skipta miklu máli í hagstjórnarlegu tilliti. Vinnumarkaðurinn telur aðeins 197 þúsund manns og því skiptir máli að vanda til verka þegar ákvarðanir sem geta verið leiðandi fyrir heildina eru teknar.
Það er rétt hjá Guðna forseta, að í ráðinu er ekki vont fólk, en það útilokar ekki að það sé ekki starfi sínu vaxið. Í ráðinu eru Jónas Þór Guðmundsson lögfræðingur og formaður, Hulda Árnadóttir , Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Svanhildur Kaaber og Óskar Bergsson.
Nýtt þing getur stuðlað að sátt á vinnumarkaði með því að feta í spor forsetans, sem las aðstæðurnar hárrétt eftir að ákvörðun Kjararáðs frá því á kjördag var ljós. Það er að standa sameiginlega að því að afturkalla tugprósenta launahækkanir þingmanna og ráðherra, líkt og forsetinn gerði. Það er vel mögulegt að það sé erfitt fyrir þingið að horfa með svo tærum hætti í eigin barm, en það er mikilvægt að það sé gert og það getur stuðlað að meira trausti á Alþingi og ró á vinnumarkaði.