Blessunarlega er það þannig í okkar alþjóðalega heimi að stjórnmála- og embættismenn eru ekki okkar gæfusmiðir, þegar kemur að efnahagslegri velsæld. Vissulega þurfa þeir að vanda til verka í sínum störfum og láta gott af sér leiða, en oft fá þeir of mikla athygli þegar kemur að umræðu um stöðu efnahagsmála. Kastljósið ætti stundum frekar að beinast að „smáatriðunum“ sem samt eru aðalatriðin.
Þörf á nýjum mörkuðum
Einstaklingar í fyrirtækjarekstri þurfa oft að sýna klókindi og sveigjanleika til að koma vörum og þjónustu á markað erlendis. Þegar kemur að útflutningi íslenska hagkerfisins er ein staðreynd sérstaklega sláandi. Það er hversu illa íslenskum fyrirtækjum hefur gengið að koma vörum inn á markað í Bandaríkjunum og einnig í Asíu.
Tölur Hagstofu Íslands um útflutning sýna glögglega að Ísland á of mikið undir EES-markaðnum. Þetta á við um nær allar útflutningsgreinar. Það er ekki óvenjulegt enda byggir viðskiptasamband Íslands við Evrópu á áratugalangri uppbyggingu, ekki síst í sjávarútvegi.
Heildarutanríkisverslun við evrópskaefnahagssvæðið (EES) í fyrra nam 489 milljörðum. Á sama tíma nam utanríkisverslunin 35 milljörðum gagnvart Bandaríkjunum. Tölurnar fyrir Asíumarkað eru síðan enn lægri.
Óhagstæð gengisþróun
Evrópa er vettvangur alþjóðlegra viðskipta og hefur á efnahagsleg uppbygging ríkja í álfunni, sem hafa náð mestum árangri, byggt á sterki stöðu í alþjóðavæddum heimi viðskipti.
Fljótt á litið þurfa íslensk útflutningsfyrirtæki að einblína enn meira á að komast inn á nýja markaði. Veik staða Bretlands eftir Brexit-kosninguna í sumar, hefur grafið undan mikilvægum útflutningsmarkaði fyrir íslenskar sjávarafurðir.
Pundið kostar nú 140 krónur en kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári. Horfurnar eru ekki bjartar á markaðnum. Í fyrra fór um 12 prósent af öllum útflutningi okkar til Bretlands og um 19 prósent af erlendum ferðamönnum koma frá Bretlandi. Útlit er fyrir að gjaldeyrisinnstreymi verði áfram mikið vegna vaxtar í ferðaþjónustu og styrking krónunnar gæti því vel haldið áfram.
Það er mikilvægt að fyrirtæki nái að verja stöðu sína á markaði eins og þeim breska, en þetta sýnir mikilvægi þess að leita leiða til að nema ný lönd.
Ísland á mikið undir ákvörðunum flugfélaga
Það eru líka erfiðleikar í Rússlandi (viðskiptabann) og í Nígeríu. Þar hefur gjaldeyrisskortur gert efnahagslífinu lífið leitt og skapað erfiðleika fyrir fyrirtæki sem hafa flutt inn vörur til landsins.
Íslenskur efnahagur á mikið undir ákvörðunum fólks og fyrirtækja út í heimi. Til dæmis hafa ákvarðanir erlendra flugfélaga um að hefja reglulega flugferðir til Íslands verið gríðarlega áhrifamiklar á Íslandi. Líklegt má telja að hér væri ekki nándar nærri eins mikill hagvöxtur ef erlend flugfélög hefðu ekki sýnt landinu jafn mikinn áhuga og raun ber vitni. Má þar nefna félög eins og Easy Jet og Delta sem hafa fluttu mörg hundruð þúsund manns til landsins síðan þau byrjuðu að bjóða upp á ferðir til Íslands.
Ekki treysta bara á stjórnmálin
Bandaríkjamarkaður er litlu minni en Evrópa í heild og Kína sömuleiðis. Þá eru ótalin önnur lönd Asíu, sem sum hver hafa vaxið hratt undanfarin ár.
Hvernig er hægt að opna þessar dyr? Ég held að það sé ekki gert við borð stjórnmálamanna nema að litlu leyti. Viðskiptasamningar milli ríkja einir og sér hjálpa heldur ekki.
Orð Michael Porters, prófessors við Harvard háskóla, koma upp í hugann. Hann sagði í erindi sínu í Háskólabíó í nóvember 2010, að fyrirtæki og fjárfestar hefðu mikinn sveigjanleika og gætu tengst inn á ótrúlegustu markaði. Þar sem stundum ríkti glundroði. Mikilvægast af öllu væru góðar og áreiðanlegar upplýsingar til að taka ákvarðanir. Stjórnmálamenn gætu svo stutt við með stöðugu regluverki.
Langtíma sóknaráætlun
Þó eðlilegt sé að deila um vaxtastefnuna á Íslandi, opinber fjármála og innviði á Íslandi, þá væri hjálplegt að skapa jafn frjóa umræðu um hvernig megi styrkja útflutningshlið hagkerfisins með fleiri stoðum. Horfa þá frekar ofan í smáatriðin fremur en útlínurnar.
Vel hugsanlegt er að fyrirtæki í útflutningi - af öllum stærðum og gerðum - þurfi að vinna saman á þessu sviði og móta sóknaráætlun til langs tíma. En ekkert framlag er þó mikilvægara en það, að hvert og eitt fyrirtæki gaumgæfi markaðina erlendis fyrir sína vöru og þjónustu. Ef fyrirtæki ná að brjóta ísinn á nýja markaðina en eru nú þegar opnir þá mun það drífa áfram vöxt og skapa góð og æskileg störf fyrir hagkerfið.