Við fjölskyldan kynntumst vel hjónum frá Egyptalandi þegar við bjuggum í New York og höfum haldið ágætu sambandi við þau. Þau eiga tvo lífsglaða gutta á sama aldri og strákarnir okkar og reyndust okkur afar vel. Voru alltaf tilbúin að aðstoða og rétta fram hjálparhönd þegar þess þurfti.
Maðurinn er efnilegur vísindamaður og stundar doktorsnám í tölfræði og hefur vinna hans vakið athygli innan fræðasamfélagsins í Columbia háskóla. Hann hefur verið að þróa tölfræðilíkön til að gera úrvinnslu úr líffræðirannsóknum áreiðanlegri. Konan hans er ekki síður dugleg en þau luku bæði BS og MS námi við University of Missouri áður en þau fluttu sig til New York.
Þau eru múslimar og halda miklu sambandi við fjölda múslima í New York, ekki síst fólk frá miðausturlöndum. Þau koma bæði úr fátæku baklandi og hafa þurft að hafa mikið fyrir því að komast áfram í lífinu, með dugnað, heiðarleika og metnað að leiðarljósi.
Beygður og sár
Eftir að fréttirnar bárust út um að ömurleg og siðlaus stjórn Donalds J. Trumps, Bandaríkjaforseta, hefði bannað komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í miklum meirihluta og ákveðið að taka ekki á móti flóttamönnum í sárri neyð, þá hafði ég samband við fólkið og spurði hvernig það hefði það. Ég vissi að bannið næði ekki til þeirra en eftir nokkur samtöl okkar um viðhorf sem múslimar mæta og hafa þurft að þola, í gegnum allt framboð Donalds Trump, þá vissi ég að þetta væri líka erfitt fyrir þau og alla múslima.
Það er skemmst frá því að segja að maðurinn var beygður og sár þegar ég talaði við hann. Hann leit svo á að það væri verið að niðurlægja hann og fjölskyldu hans og meira og minna allt samfélag múslima með þessari ákvörðun. Konan hans tók í sama streng. Þetta var átakanlegt, beinlínis.
Ástæðan er sú að undirliggjandi í þessari ömurlegu ákvörðun Trumps - sem nær líka til fólks sem er með græna kortið og fullgilda heimild til að vera í landinu varanlega að öllu jöfnu - er kynþáttahatur og frelsisskerðing. Alveg tærir fordómar. Augljóst virðist að ákvörðunin fari gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna en það verður að koma í ljós hvort það verði farið með ákvörðunina fyrir dómstóla til að fá úr því skorið. Glundroði ríkti á flugvöllum heimsins vegna þessarar ákvörðunar í gær og var henni mótmælt vítt og breitt, eins og nær öllu sem Trump hefur gert frá því hann hóf störf.
Mórölsk skilaboð hans til umheimsins - sem er eitt vegamesta hlutverk forsetans - hafa verið fullkomlega hörmuleg á allan hátt og valdið sundrungu og reiði, nær hvert sem litið er. Stuðningsmenn fordómafullra viðhorfa hans gleðjast vafalítið enda er þeim ekki viðbjargandi.
Hafið samband
Ég hvet fólk til að setja sig í samband við múslíma í Bandaríkjunum sem það þekkir, stappa í það stálinu og reyna að gleðja það með einhverjum hætti. Þegar Bandaríkin - með öllu sínu ægivaldi hers og fjármála (65 prósent gjaldeyrisforða heimsins er í Bandaríkjadal) - er farið að haga sér með þessum hætti þá gætir áhrifanna um allan heim og í öðrum löndum líka. Það er skelfilegt.
Þetta er bein árás á venjulegt heiðarlegt fólk og líka gildi vestrænna samfélaga. Bandaríkin eru að grunni til innflytjendasamfélag og stundum eru þau skilgreind sem eina landið í heiminum sem hefur fjölþjóðlegan kjarna sem sitt helsta einkenni. Landið verður beinlínis til í kringum hin ýmsu þjóðerni sem byggja það upp.
Ég skynja stöðu mála í Bandaríkjunum sem hættulega um þessar mundir, og andstaðan við þessa ákvörðun stjórnar Trumps hér á Seattle-svæðinu er gríðarleg, nánast áþreifanleg. Það sama á við um mörg önnur svæði, ekki síst borgarsamfélögin í landinu.
Staðan er líka álitin alvarleg út frá efnahagslegum forsendum þar sem öll vesturströndin, frá Kaliforníu gegnum Oregon og í gegnum Washington ríki, á beinlínis allt undir innflytjendum. Tæknifyrirtækin á þessum svæði hafa öll látið í sér heyra og mótmælt þessari ömurlegu árás á fólk.
Mörg hundruð starfsmenn Google, Microsoft, Amazon og Apple komast ekki í inn í landið og það sama má segja um fleiri fyrirtæki, meðal annars fjármálafyrirtækin sem starfa um allan heim. Mótmæli hafa líka komið þaðan. En það segir sína sögu að þessir tæknirisar, sem eru leiðandi í heiminum á sviði nýsköpunar, skuli taka jafn harða afstöðu gegn þessu hatri sem birtist með ömurlegu ferðabanni og mannréttindabrotum.
Borgirnar í Bandaríkjunum - einhverjir mögnuðustu mannlífspottar sem fyrirfinnast í veröldinni - hafa líkað gripið til varna. Má nefna Boston, New York, Seattle, Portland, Austin, LA, San Francisco og miklu fleiri því til staðfestingar. Marty Walsh, borgarstjórinn í Boston, flutti magnþrungna ræðu um stefnu Trumps í innflytjendamálum á dögunum og sagðist ekki að ætla að snúa bakinu við innflytjendum, alveg sama hvað. Ráðhúsið í borginni yrði opnað upp á gátt frekar en að reka þá úr borginni, ef þess þyrfti.
Kynþáttahatari sem dómsmálaráðherra
Það sem er alvarlegast við þessa nýju hvítu karlmenn í Hvíta húsinu er að það glittir ekki enn í neina dýpt í neinu sem komið hefur frá þeim. Þvert á móti virðist fullkomin vanhæfni ráða ferðinni, ofan í skuggalega öfgafullan málflutning margra þeirra sem standa Trump næst. Steve Bannon, sem stofnaði kynþáttahatursáróðursvefinn Breitbert, kemur þar upp í hugann og einnig Jeff Sessions, tilvonandi dómsmálaráðherra. Konur sem útskrifast hafa úr Harvard viðskiptaháskólanum, 650 talsins, mótmæltu því harðlega þegar Bannon var kominn inn í teymið hjá Trump og sögðu hann boðbera kynþáttahaturs og kvenfyrirlitningar.
Meira en 1.100 lagaprófessorar, þar af margir af virtustu prófessorum Bandaríkjanna, mótmæltu skipan Sessions með yfirlýsingu. Ástæðan er sú að Sessions er kynþáttahatari og hefur verið í áratugi. Allt frá því hann tók þátt í að bera út kynþáttahatur í Alabama hefur hatrið fylgt honum. Það sem einkum situr í lagaprófessorunum er það að Sessions nýtur þess vafasama heiðurs að hafa verið hafnað sem alríkisdómara vegna kynþáttahaturs. Eftir nákvæma skoðun á hans málflutningi var það niðurstaðan. Að hann væri óhæfur sökum kynþáttahaturs.
Hann hefur einnig verið meðal mestu andstæðinga innflytjenda í bandarískum stjórnmálum árum saman og mun vafalítið beita sér fyrir sínum sjónarmiðum sem dómsmálaráðherra.
Hér eru aðeins nefnd fá dæmi, en fleiri ískyggileg dæmi um stjórnarherrana mætti telja til. Og augljósa og oft ótrúlega skýra hagsmunaárekstra sömuleiðis.
Það er óboðlegt að svona sé komið fram við fólk og vonandi verður eitthvað til þess að Trump og félagar hans og ráðgjafar hrökklist frá völdum sem allra fyrst. Fjögur ár af þessum grunna, heimskulega og siðlausa málflutningi - og nú stefnu - er alltof langur tími.