Þau tíðindi urðu á föstudaginn síðasta að gengi bréfa Marels fór yfir 300 og stóð það í 307 í lok dags. Verðmiðinn á fyrirtækinu var þá í 219 milljörðum sem gerir það langsamlega verðmætasta félagið á skráðum hlutabréfamarkaði hér á landi. Þar á eftir kemur Össur en það er nú 175 milljarða virði, sé miðað við stöðuna eins og hún var við lokun markaða á föstudag.
Nýjustu rekstrartölurnar hjá Marel eru gleðiefni fyrir íslenskt viðskiptalíf þar sem þær staðfesta að félagið er að sækja fram á vaxtamörkuðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, auk þess sem starfsemin hefur verið að styrkjast í bæði Evrópu og Norður-Ameríku. Sölumet var slegið hjá fyrirtækinu á síðustu þremur mánuðum síðasta árs, þegar tekjur voru 295 milljónir evra, eða sem nemur um 38 milljörðum króna.
Sveiflur á hlutabréfamörkuðum segja ekki alla söguna en það er engu að síður gleðiefni að hlutabréfamarkaðurinn hafi byggst þannig upp eftir hrunið að þessi fyrirtæki séu leiðandi.
Hvers vegna að minnast á þessu tíðindi nú?
Það var einkum tvennt sem kom upp í hugann:
1. Í fyrsta lagi finnst mér fullt tilefni til þess að líta á það sem fagnaðarefni, nú tæpum áratug eftir einstakt hrun á fjármála og verðabréfamörkuðum, þá séu það þessi flaggskip íslenskrar nýsköpunar og alþjóðlegs hluta hagkerfisins, sem eru verðmætustu félögin á markaði.
Það er gott fyrir Ísland að það sé þannig.
Það má líkja þessu við mikilvægar fyrirmyndir, því þörfin á viðlíka uppbyggingu og átt hefur sér stað hjá Marel og Össuri á Íslandi er mikil. Því miður eigum við Íslendingar ekki nógu mörg alþjóðleg fyrirtæki sem hafa náð djúpum tengingum við alþjóðamarkaði og selt hugvitssamar vörur og þjónustu, en á sama tíma haldið hjartanu í starfseminni á Íslandi. Og þau sem hafa náð miklum árangri, missa stundum tengslin við Ísland á endanum eða verða undir í alþjóðlegri samkeppni.
Nefna má Actavis sem dæmi um þetta. Störfin hjá því fyrirtæki eru að miklu leyti að hverfa úr landi, og eignarhaldið er löngu farið.
Meirihlutaeigendur Össurar eru danskir en líkt og í tilfelli Marels þá eru höfuðstöðvarnar á Íslandi.
Hjá Marel er eignarhaldið að langmestu leyti hjá Íslendingum, höfuðstöðvarnar eru í Garðabæ og grunninn sjálfan má rekja til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og íslensks sjávarútvegs. Árið 1983 byrjaði boltinn og rúlla og nú, 34 árum síðar, er Marel á grænni grein sem alþjóðlegur risi. Fyrirtækið er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins og í heild starfa um 4.600 starfsmenn hjá fyrirtækinu í 30 löndum.
Þetta er stór og mikil saga með mörgum köflum lítilla sigra og mikilla hindrana sem þurfti að ryðja úr vegi.
2. En hvaðan kemur grunnurinn? Hvernig byrja ævintýrin?
Þar beinast spjótin að háskóla- og nýsköpunarumhverfinu. Ég hef í nokkur skipti minnst á það í pistlum að undanförnu að mér finnist ekki nægilega mikið hlustað á neyðaróp frá háskóla- og rannsóknarumhverfinu á Íslandi. Margar hagtölur eru góðar - svo langt sem sá mælikvarði nær - og stjórnmálamenn hafa stært sig af góðri efnahagslegri stöðu. Á sama tíma sýna ýmsir mælikvarðar að við séum ekki á réttri leið.
Til dæmis hefur mat á grunnskólakerfinu komið illa út í alþjóðlegum könnunum (þó þær séu umdeildar), kennarar eru afar ósáttir við laun sína og starfsumhverfi, og rektorar háskóla í landinu hafa ítrekað beint því til stjórnvalda að fjárframlög til háskólastigsins á Íslandi séu alltof lág í alþjóðlegum samanburði.
Ef þessi staða verður með þessum hætti áfram þá mun keðjan sem á liggja frá rannsóknar- og nýsköpunarstarfi háskólanna, til fjárfesta og þaðan út í atvinnulífið, ryðga og stífna. Hún þarf að vera vel smurð ef hagkerfin eiga að finna fyrir ávinningnum.
Það er líka sanngjarnt að spyrja að því hvernig við ætlum að leggja grunninn að nýjum fyrirtækjum sem eru eins og leiðtogarnir Marel og Össur.
Vissulega hafa komið upp mörg fyrirtæki, ekki síst í hugbúnaðargeiranum, sem hafa náð miklum alþjóðlegum árangri og fleiri eru líkleg til afreka. En það er samt áhyggjuefni ef það eru að koma fram fyrirtæki á 20 til 30 ára fresti sem ná því að verða alþjóðlegir leiðtogar á sínu sérsviði. Betra væri að stytta tímann um helming, til að halda í við aðrar fyrirmyndar þjóðir í þessum efnum.
Það má ekki misskilja mig í þessu: Það eru mörg frábær fyrirtæki sem við eigum sem eru að gera góða hluti, og raunar alveg magnaða í sumum tilvikum. Mörg þeirra eru ennþá lítil á alþjóðlegan mælikvarða og hafa ekki hafið útrás á erlenda markaði fyrir alvöru. Önnur hafa hins vegar mikla möguleika, eins og áður sagði, og má nefna CCP, Tempo, Mentor og Meniga, og vitaskuld mun fleiri.
Það má svo ekki gleyma því að rýna í stöðuna á hverjum tíma. Þó í fyrra hafi skapast um átta þúsund ný störf og atvinnuleysi sé lítið, þá er ekki endilega víst að þessi störf hafa skapist á þeim stöðum í hagkerfinu sem við kjósum helst. Það er á sviði alþjóðlegs hluta hagkerfisins, einkum í tækni- og iðngreinum ýmis konar. Þar sem Marel og Össur hafa vaxið og dafnað.
Flest störfin urðu til í ferðaþjónstu og byggingarðinaði.
Vonandi mun ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fylgjast náið með því sem er að gerast í hagkerfinu og ekki draga of víðtækar ályktanir af því að erlendum ferðamönnum sé að fjölga eins mikið og raun ber vitni. Það er gott og blessað, en til lengdar ætti að vera kappsmál að örva nýsköpunarstarfið og reyna að búa til fleiri fyrirmyndir eins og Marel og Össur. Hjá þeim liggur grunnurinn í nýsköpunar- og rannsóknarstarfi sem að lokum - eftir mikla þolinmæði, klókindi og stuðning fjárfesta - leiddi til ævintýra.