Bökkum aðeins. Við erum stödd á árinu 2008, í nóvember. Víglínan í endurreisninni hefur verið dregin með neyðarlögum, sem eru einstök í heimssögunni, og fjármagnshöftum. Nýir bankar hafa verið búnir til á grunni neyðarlaganna.
Ný staða, nýtt bankakerfi
Þegar öllu var á botninn hvolft, með hvelli, þá þorði enginn að láta hinn frjálsa markað leita bestu lausnarinnar út úr vandanum sem Ísland var í. Það hefði gert næstum öll fyrirtæki á Íslandi gjaldþrota og heimili líka.
Ríkisvald - af miklum þunga meira að segja með afturvirkum inngripum á fjármálamarkað þar sem kröfuröð var snúið við - var það sem bjargaði og skapaði vígstöðu til efnahagslegrar uppbyggingar.
Það var kannski táknrænt fyrir stöðuna, að sá flokkur sem á teljast til hægri í stjórnmálunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði forystu um setningu neyðarlaganna, í hinum fullkomna stormi.
Þetta var á vissan hátt hugmyndafræðilegt gjaldþrot þeirra sem sjá hina svarthvítu mynd frelsis annars vegar og ríkisafskipta hins vegar. Hún er fölsk og ekki í takt við veruleikann.
Það merkilega við þessar vel heppnuðu aðgerðir er að nú, átta og hálfu ári síðar, er enn í gangi atburðarás þar sem ríkið er að ná vopnum sínum og kröfuhafar föllnu bankanna - með vogunarsjóði af Wall Street í aðalhlutverkum - fylgjast með hverju skrefi og vilja fá ávinning í sínar hendur. Þrátt fyrir stöðugleikaframlög frá kröfuhöfum til ríkisins þá er þessi staða enn uppi.
Staðan er þannig að ríkið á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum, Íslandsbanka að öllu leyti og 13 prósent hlut í Arion banka.
Hvað er að gerast hjá Arion banka?
Nú berast af því fréttir að vogunarsjóðir vilji kaupa um fjórðung í Arion banka, í viðskiptum þar sem 40 til 50 prósent hlutur í bankanum verður seldur. Til að þetta gangi upp þurfa helst íslenskir lífeyrissjóðir að kaupa hluti líka.
Greinilegt er að Kaupþing, sem á 87 prósent í bankanum, liggur á að framkvæma þessi viðskipti.
Starfsfólks Kaupþings fær milljarða í bónusgreiðslur ef það tekst að selja hlutina til einkaaðila á næstunni, á ákveðnu verðbili, en stefnt hefur verið að því að selja Arion banka að fullu fyrir árslok.
Í ljósi sögunnar - þegar fjárglæframenn, sem sumir hverjir hafa nú hafa hlotið dóma fyrir fordómalausa efnahagsbrota glæpi, eignuðust stóran hlut í íslenska bankakerfinu - þá ættu nú að kvikna viðvörunarljós hjá einhverjum á Alþingi. Lítið hefur hins vegar sést til þeirra.
Í fyrsta lagi hefur ekkert komið fram opinberlega um það hverjir standa að baki vogunarsjóðunum sem hafa áhuga að verða beinir eigendur að Arion banka.
Fjármálaeftirlitið hefur ekki birt neinar upplýsingar um það, og ekki lagt fram rökstutt mat á því hvort aðilarnir - sem raunverulega eiga vogunarsjóðina - séu traustsins verðir. Það er ekki nóg að segja að sjóðirnir geti mögulega talist hæfir, og það er heldur ekkert einkamál eftirlitsins.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hefur heldur ekki tjáð sig um þetta og virðist ekki vita nákvæmlega hvaða fólk er að baki sjóðunum.
Skiptir þetta máli? Já, þetta skiptir mjög miklu máli fyrir almenning, sem fjármagnar íslenska bankakerfið, á þessum einangraða örmarkaði þar sem er ekki virk alþjóðleg samkeppni. Þetta er mikilvægt mál sem verður að upplýsa um.
Þá liggur líka fyrir - og er vafalítið óumdeilt, einmitt í ljósi sögunnar - að það er ríkisábyrgð á starfsemi banka á Íslandi, alveg óháð eignarhaldinu. Ef stjórnendurnir gera stór mistök sem leiða til áfalla þá mun banki bankanna, Seðlabanki Íslands, og ríkissjóður, koma að borðinu. Efast einhver um þetta? Það get ég ekki ímyndað mér.
Ísland greip til séríslenskra aðgerða í hruninu, blessunarlega. Enda eru aðstæður hér séríslenskar. Aðeins 193 þúsund manna vinnumarkaður með eigin mynt og peningaprentunarvald. Fjármálakerfið er ekkert í útlöndum, nema í gegnum takmörkuð lán, og getur ekki sinnt stærstu fyrirtækjum landsins til jafns við alþjóðlega banka þegar kemur að lánum.
Erlendir bankar eru með alla stærstu bitana á markaðnum. Orkufyrirtækin, stærstu sjávarútvegsfyrirtækin að stórum hluta og einnig alþjóðlegu fyrirtækin, Marel, Össur og flugfélögin að nokkru leyti.
Það er þannig, að ef stjórnvöld vilja, þá geta þau tryggt almannahagsmuni miklu betur en nú er gert, með því að eignast Arion banka að fullu. Eignast allt kerfið, og klára þannig aðgerðina sem hófst á grunni neyðarlaganna.
Stutt er síðan Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og nú forsætisráðherra, lagðist gegn því í orði að lífeyrissjóðirnir yrðu eigendur bankanna, ekki síst vegna mikilla umsvifa þeirra á markaði á Íslandi.
En eru þeir verri eigendur en vogunarsjóðirnir á Wall Street, sem eru að grunni til skammtímatækifærissjóðir?
Ef ríkið gerir þetta - það er að eignast Arion banka að fullu líka - þá er komin upp einstök staða til að móta bankakerfi sem þjónar almenningi best, og verðmæti hafa líka verið tryggð betur, enda er tugmilljarða hagnaður af kerfinu, sem starfar í haftaumhverfinu hér á landi.
Til dæmis mætti klára nauðsynlega rökræðu á vettvangi Alþingis um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, og hvernig megi takmarka ríkisábyrgð á bankastarfsemi, óháð eignarhaldi.
Þessi misserin er ríkið til dæmis með tugi starfsmanna í vinnu við að miðla verðbréfaviðskiptum, stýra sjóðum og sinna margvíslegri starfsemi, sem einkafyrirtæki eru að sinna vel, og augljóslega þarfnast þess ekki að vera undir sama hatti og viðskiptabankastarfsemin.
Varla er það sérstakt áhugamál stjórnmálamanna að það sé hægt að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið. Það er engan veginn hægt að átta sig á því hvernig landið liggur pólitískt, þegar þessi mál eru annars vegar, og hagfræðingar hafa á þessu ýmsar skoðanir sem eru mismunandi.
Það virðist blasa við að Kaupþing, og helstu eigendur þar og starfsmenn, séu að reyna að þvinga söluna á Arion banka í gegn til að gæta að eiginhagsmunum.
Stjórnvöld geta hins vegar hugað enn betur að verðmætunum í bankakerfinu með því að stjórna ferðinni alveg, láta ekki undan þrýstingi vogunarsjóðina eða annarra, heldur þvert á móti draga frá öll tjöld og flýta sér hægt. Klára heimavinnuna.
Við vitum öll að litla einangraða íslenska bankakerfið er mikilvægt í samfélaginu. Við vitum að óæskilegur eigendur og lélegir reynslulitir stjórnendur geta valdið gríðarlegu tjóni ef ekki er vandað til verka.
Stutt innskot: Nýlega las ég meira en 100 blaðsíðna dóm í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, þar sem níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings voru dæmdir fyrir lögbrot, sum mjög alvarleg og önnur léttvægari.
Í dómnum kom eitt atriði fram sem mér fannst stórmerkilegt. Að það hefði ólöglega hefði verið staðið að viðskiptum með eigin bréf Kaupþings frá árinu 2005, mörgum árum fyrir hrunið og áður en atriðin sem voru til umfjöllunar, áttu sér stað. Þetta fór allt framhjá Fjármálaeftirlitinu, eins ótrúlega og það hljómar. Það mat hlutina ranglega og leyfði vandamálum að magnast upp. Leiðsögnin var röng og beinlínis ýtti undir vandamál í bankakerfinu, eins og sést í þessu máli.
Hver veit nema að Fjármálaeftirlitið hafi ekkert lært af þessum glórulausu mistökum og sé ekki búið að full greina vogunarsjóðina og hvort þar reynist æskilegir eigendur íslenska bankakerfisins til framtíðar litið eða ekki.
Eðlilegt aðhald
Á meðan ekkert er komið fram opinberlega, þá eru þetta eðlilegar og sanngjarnar spurningar. Það er lágmark að stjórnmálamenn finni fyrir aðhaldi þegar mál sem þessi eru annars vegar.
Ríkisstjórn sem hangir saman á einum manni, með minnihluta atkvæða á bak við sig, getur varla haldið að hún geti leyft eigendabreytingunni á Arion banka að eiga sér stað svo til alveg án pólitískrar umræðu. Og þó. Maður veit aldrei þegar stjórnmálamenn eru annars vegar.
Þó Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, hafi svarað því til að það sé óþarfi að flýta sér við sölu á hlutum í bönkunum, þá virðist sem það sé hér um bil búið ákveða að selja hluti í Arion banka, á meðan þingmenn ræða um bjór og vín, létt og sterkt.
Það væri táknrænt í ljósi sögunnar, en um leið bæði alvarlegt og sorglegt. Eignarhaldið á endurreistu bankakerfi sem almenningur fjármagnar skiptir miklu máli fyrir almenning og stjórnvöld hafa það í hendi sér hvernig það eigi að vera til framtíðar litið.
Það á ekki að láta vogunarsjóði niðurlægja Alþingi og almenning, eða leyfa einhverjum einstaklingum sem hafa mikla fjárhagslega hagsmuni af því að keyra málin áfram, að stjórna ferðinni.