Vogunarsjóðir hafa eignast stóran hlut í íslenskum viðskiptabanka. Þeir eru auk þess með kauprétt á hlut sem myndi gera þá að meirihlutaeiganda í þeim banka, sem heitir Arion banki. Sá sem seldi þessum vogunarsjóðum þennan banka er félagið Kaupþing ehf. Það er félag utan um eftirstandandi eignir banka sem fór eftirminnilega á hliðina í október 2008 með gríðarlegum samfélagslegum áhrifum.
Vogunarsjóðirnir sem voru að kaupa hlutinn í Arion banka eru líka stærstu eigendur Kaupþings ehf. Þeir fjórir aðilar sem að kaupunum standa eiga samtals 66 prósent í Kaupþingi. Þeir eru því að kaupa hlutinn af sjálfum sér.
Af hverju eru þeir að kaupa íslenskan banka?
Þegar tilkynnt var um kaupin um síðustu helgi virtust ansi margir himinlifandi. Það var reynt að selja þetta sem frábærar fréttir. Bankastjóri Arion banka sagði að kaupin sýndu að nýju eigendurnir trúi „því að framtíð bankans sé björt.“ Forstjóri Kaupþings sagði viðskipti vogunarsjóðanna vera „sterkt merki um trú þeirra á Íslandi og ekki síður á Arion banka.“ Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði að „viðskiptin sem slík eru mikið styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf “ og að það væri „ljóst að íslenska krónan hefur ekki reynst fyrirstaða í þessum viðskiptum.“ Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði: „Sjóðirnir eru að veðja með bankanum og Íslandi. Það er öfugt veðmál en fyrir hrun þegar veðjað var gegn Íslandi. Það er hægt að horfa á það jákvætt.“
Þetta er allt þvæla. Þeir sem stýra vogunarsjóðum eru erkikapítalistar. Tilgangur þeirra er bara einn: að græða eins mikið af peningum og þeir geta á sem skemmstum tíma. Þeir eru ekkert óheiðarlegir með það. Sá tilgangur kemur skýrt fram í stefnu þeirra flestra. Hluti af þeirri stefnu er þó líka að tala opinberlega á þann hátt sem sjóðirnir telja að þeir sem verið er að græða á vilji að þeir tali. Þetta eru eldklárir einstaklingar sem kunna sinn leik upp á tíu. Og víla ekkert fyrir sér að blása sápukúlum upp um óæðri endann á íslenskum stjórnmála- og embættismönnum ef það skilar þeirri niðurstöðu sem þeir vilja.
Þessir aðilar hafa þegar mokgrætt á því að kaupa kröfur á fallna íslenska banka og eru búnir að semja við íslensk yfirvöld um hversu mikið af þeim hagnaði þeir mega fara með heim til sín og dreifa til þeirra einstaklinga og félaga sem standa nafnlausir að baki hverjum sjóði fyrir sig. Kaupin á Arion banka af sjálfum sér er ekkert annað en liður í því að liðka fyrir þeirri útgreiðslu.
Salan færir Kaupþing nefnilega nær því að greiða út 81 milljarð króna til eigenda sinna. Þá peninga má ekki greiða fyrr en búið er að greiða upp skuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenskra stjórnvalda upp á 84 milljarða króna. Salan á Arion mun gera þeim kleift að greiða upp það skuldabréf. Þetta er helsta ástæða þess að þrír vogunarsjóðir og sjálft krúnudjásnið í alþjóðlegum fjárfestingabankaheimi, Goldman Sachs, eru að makka saman að kaupa í íslenskum viðskiptabanka. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir eru að greiða eins lágt verð og þeir komast upp með fyrir hlutinn. Það og sú staðreynd að þrátt fyrir frekar slakan undirliggjandi rekstur íslenskra viðskiptabanka, og engar væntingar um neinn verulegan vöxt þeirra, þá eiga þeir fullt af eigin fé sem hægt verður að tappa af í nánustu framtíð. Eigið fé Arion banka var til að mynda 211 milljarðar króna um síðustu áramót.
Af hverju skiptir máli hver á banka?
Bankar hafa gríðarleg áhrif á líf okkar. Það ættum við Íslendingar að vita manna best. Fyrir átta og hálfu ári hrundi spilaborg bankagosa, sem hafði vaxið svo mikið á vængjum ódýrs lánsfjár og vaxtamunaviðskipta að hún var tólf sinnum stærri en þjóðarframleiðsla litla ríkisins, yfir okkur. Afleiðingarnar urðu eftirfarandi: hrun gjaldmiðils, atvinnuleysi fór í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að verða gríðarlega skuldsettur, Ísland þurfti að fara í áætlun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og þriðja heims ríki til að fá fyrirgreiðslu svo hægt yrði að reka báknið okkar áfram, verðbólga fór í 18,6 prósent, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins nánast hvarf og hefur ekki verið endurheimt.
Það má segja að heilög þrenning hafi orsakað þetta. Í fyrsta lagi meðvirkt og barnalegt opinbert kerfi, með bláeygða stjórnmálamenn í aðalhlutverki. Í öðru lagi bankamenn sem lánuðu lélegum tengdum aðilum allt of mikið af peningum, fjármögnuðu eigin hlutabréf í mæli sem aldrei áður né síðar hefur sést í heiminum (og urðu með því uppvísir að fordæmalausri markaðsmisnotkun) og þegar erlendu lánalínurnar lokuðust fóru að grípa til aðgerða sem gerðu afleiðingarnar miklu verri. Í þriðja lagi vegna þess að stórir aðilar, t.d. vogunarsjóðir, sáu brjálæðisleg gróðatækifæri í því að spila á litla örhagkerfið og litla gjaldmiðilinn okkar en forðuðu sér nægilega tímanlega til að þurfa ekki að taka á sig höggið. Þeir voru hins vegar mættir strax aftur til að græða á ringulreiðinni sem skapaðist í kjölfarið.
Bankar eru því mjög samfélagslega mikilvægir. Þess vegna voru allir föllnu bankarnir endurreistir af ríkinu með handafli utan um innstæður og innlendar eignir. Heimili og fyrirtæki voru þvegin í gegnum þessa banka. Þeir hafa enn mikið vald yfir afdrifum beggja. Og móta tilveru okkar meira en góðu hófi gegnir.
Við erum fljót að gleyma
Það er ekki ár liðið frá því að íslenskt samfélag fór á hliðina vegna Panamaskjalanna. Undirliggjandi í þeirri ólgu var að almenningur sætti sig ekki við það að yfirstétt Íslendinga lifði ekki í sama veruleika og hann, heldur kom sér undan tug milljarða skattgreiðslum og faldi fé sem orðið hafði til í íslensku efnahagskerfi á aflandseyjum þar sem kröfur um upplýsingagjöf eru engar. Með því að gera þetta kom þessi hópur sér undan því að taka þátt í aðlöguninni sem við öll hin sem fáum bara borgað í íslenskum krónum og lifum mánuði til mánaðar þurftum að taka á okkur í gegnum gengisfall og aðrar búsifjar.
Gagnsæi og opnun urðu tískuorð stjórnmálanna. Traust og sátt yrði ekki endurheimt fyrr en að við værum búin að innleiða kerfi þar sem allt er uppi á borðum. Í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem tók við völdum fyrir tveimur mánuðum kemur gagnsæi t.d. fyrir sex sinnum.
Nú er hins vegar verið að selja banka sem ríkið endurreisti með handafli til hóps erkikapítalista. Banka sem ríkið hefur sýnt í verki að það muni gangast í ábyrgð á, að minnsta kosti að hluta, ef illa fer. Banka sem Seðlabanki Íslands þarf að þjónusta og sjá t.d. til þess að hafi nægjanlegt aðgengi að lausu fé.
Kaupendurnir hafa m.a. nýverið greitt á þriðja tug milljarða króna í sektir fyrir að múta embættismönnum í Afríku. Einn þeirra var í vikunni færður í ruslflokk af matsfyrirtæki. Þeir pössuðu upp á að eiga bara 9,99 prósent hver í Arion banka en ekki 10 prósent, sem hefði þýtt að þeir væri virkir eigendur og hefðu þurft að fara í gegnum hæfismat. Þeir munu aldrei nokkurn tímann gefa upp hvaða einstaklingar eru á bak við fjárfestingar þeirra. Þeir eru skráðir með endanlegt heimilisfesti á Caymaneyjum eða öðrum þekktum aflandseyjum vegna „skattahagræðis“. Það er ekkert opið né gagnsætt við neinn þessara aðila.
Það er ekki vilji til að breyta
Þrátt fyrir að bankahrun hafi skilgreint tilveru okkar árum saman, og valdið gríðarlegu samfélagslegu tjóni, hefur ekki verið mótuð nein alvöru stefna hérlendis um hvernig fjármálakerfi við eigum að byggja upp. Hvernig kerfi myndi nýtast íslensku samfélagi best. Eina stefnan sem er við lýði hjá sitjandi ríkisstjórn er sú að aðrir en ríkið eigi að eiga banka. Markaðurinn eigi að sjá um fjármálaþjónustuna. En við erum búin að reyna það. Þá þurfti ríkið og almenningur að hreinsa upp í nokkur ár eftir að kapítalistarnir og markaðurinn brugðust gjörsamlega því trausti sem þeim var sýnt.
Ýmsir stjórnmálamenn segja að það sé í raun ekkert hægt að gera neitt varðandi sölu á Arion banka. Hann sé nú þegar að mestu í eigu einkaaðila sem hljóti að mega selja þá eign, jafnvel þótt þeir séu sjálfir á kauphliðinni.
Það bara ódýr fyrirsláttur. Löggjafinn mótar umgjörð samfélagsins með lögum og reglum. Hann getur mótað það algjörlega eftir sínu höfðu hvers konar fjármálakerfi hann vill, hverjir megi eiga banka í slíku kerfi og hvort viðskiptabankastarfsemi sé heimil í sama fyrirtæki og stundar áhættusaman fjárfestingabankarekstur. Vandamálið er að löggjafinn, og kannski aðallega framkvæmdarvaldið sem ræður því sem það vill í þinginu, vill ekkert breyta þessu. Það er einbeittur vilji valdamanna sem drífur þá þróun sem við erum föst í áfram.
Enn og aftur er verið að taka snúning á okkur. Sömu aðilar og tóku snúning á okkur í gerviuppgangnum fyrir hrunið og sömu aðilar og högnuðust ævintýralega á endurreisninni hér sem kröfuhafar eru að taka einn hring í viðbót áður en þeir fara með ávinninginn heim. Þeim er alveg sama um íslenskt samfélag. Þeir vilja bara græða sem mest á sem skemmtum tíma og fara síðan til að skipta ávinningnum milli huldumannanna sem standa að baki skrýtnu nöfnunum sem skráð eru á hluthafalistanna. Þeir eru ekki að fjárfesta hér vegna þess að þeir telja að framtíð Arion banka sé björt, ekki vegna þess að þeir hafa svo mikla trú á Arion banka, ekki vegna þess að þeir eru að veðja með íslenskum bönkum og íslensku efnahagskerfi.
Með orðskrúð er verið að fela það sem raunverulega er að eiga sér stað. Það er verið að hafa okkur að fíflum. Og það virðist vera að þeir sem það eru að gera muni enn og aftur komast upp með verknaðinn.