Ég hef á undanförnum mánuðum verið að lesa mig til um það sem er að gerast hjá fyrirtækinu Amazon. Það er með höfuðstöðvar hér á Seattle svæðinu og fer vöxtur þess ekki framhjá neinum sem hingað kemur. Hann hefur verið með ólíkindum og verður enn meiri næstu þrjú árin. Í desember í fyrra tilkynnti fyrirtækið að það myndi ráða 100 þúsund nýja starfsmenn á næstu 18 mánuðum, vítt og breitt um Bandaríkin.
Bara aðra leiðina
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi, tilkynnti um þetta daginn eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi frá sér tilkynningu um að 700 störf yrðu eftir í bílaverksmiðju í Michigan í stað þess að fara til Mexíkó.
Bezos hefur lengi deilt við Trump og bauð honum meðal annars far - aðra leið - með geimskutlu fyrirtækisins hans, Blue Origin. Hann trúir á alþjóðavæddan opinn heim og hafnar þjóðernisskotinni efnahagsstefnu Trumps (American First).
Gríðarlegur vöxtur
Amazon er nú í því ferli að vaxa leifturhratt í Bandaríkjunum, en á sama tíma að færa út kvíarnar um allan heim og skipuleggja starfsemi sína í Evrópu og Asíu betur.
Markaðsvirðið er nú komið yfir 458 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 55 þúsund milljörðum króna, og er fyrirtækið með hærri verðmiða en fimmtán helstu keppinautar þess á smásölumarkaði samanalagt.
Þó Amazon sé í hugum margra fyrst og síðast netverslun, þá er eitt atriði sérstaklega áhugavert í þeirra framþróun. Það er notkun á því gríðarlega mikla magni gagna sem fyrirtækið safnar saman frá notendum sínum og greinir alveg í kjölinn. Þau eru svo notuð til að framþróa starfsmennina, renna stoðum undir gervigreindarþróun og þess háttar.
Mikilvægi sköpunar
Eitt af því sem Bezos hefur talað mikið um, er að framundan séu miklar og hraðar breytingar á störfum. Gervigreind, þar sem úrvinnsla úr miklu magni gagna er í brennidepli, sé að breyt miklu, og það verði krefjandi fyrir fyrirtæki að bregðst við hröðum breytingum.
Þetta fer að verða gamall frasi að segja, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.
En á sama tíma segir hann, að mitt í öllum þessari ævintýralegu gagnaúrvinnslu, þá verði sköpunin enn dýrmætari. Tær sköpunarkraftur sem erfitt eða ómögulegt sé að fanga með gagnaúrvinnslu sé eitt af því sem mikil eftirspurn verði eftir í framtíðinni.
Í árlegu bréfi sínu til hluthafa segir hann meðal annars, þar sem fjallað er um reynslu neytenda af nýjum vörum og þjónustu. „Góð upplifun notenda byggir á tilfinningu, innsæi, forvitni, hugrekki, bragði. Engu af þessu er hægt að ná fram með könnun meðal notenda (surveys).“
Hann segir síðan að sá sem ætli sér að ná árangri geti ekki reitt sig um of á kannanir og gögn sem koma fram úr þeim, eða prófunum á hinum ýmsu vörum. Sá sem ætli sér að ná árangri verði að skilja mikilvægi þessarar skapandi upplifunar, og hvernig hún kemur fram. Átta sig á mannlegu eðli, ekki síður en gögnunum.
Krafturinn sjálfur
Mitt í gagna- og tæknistorminum leynist nefnilega ljós sem mikilvægt er að gefa gaum. Það er sköpunarkrafturinn sjálfur.
Margir halda því fram að listamenn (hönnuðir, rithöfundar, myndlistafólk, kvikmyndargerðarfólk) muni á næstu árum og áratugum verða verðmætir starfskraftar af þessum sökum, og muni ekki aðeins auðga mannlífið með listinni, heldur koma enn meira að vöruþróun og upplifunarmótun inn í fyrirtækjum en verið hefur. Það verði enn mikilvægara en áður, að finna þetta lykilatriði sem býr til árangursmikið starf, þegar aðgangurinn að upplýsingum og persónulegum gögnum verður orðinn enn meiri.
Mikilvægi góðra menntastofnanna
Þetta samspil tækni og sköpunar er eitt af því sem gerir menntastofnanir, og mannlífssuðupottana innan þeirra, að sífellt mikilvægari vettvangi fyrir nýsköpun. Þar sem þekkingu raunvísindanna sleppir, tekur önnur við, og öfugt. Það sést vel á mati þeirra sem aðgang hafa að mörgu hæfileikaríkasta fólki tækniheimsins, eins og tilfellið er með Jeff Bezos, að þeir gera sér vel grein fyrir mikilvægi þessarar fjölbreytni þegar áskoranir framtíðarinnar eru annars vegar.
Meðal annars af þessum sökum, sem hér eru nefnd, verður að huga vel að því að okkar helstu rannsóknar- og menntastofnanir séu nægilega vel fjármagnaðar til að geta skapað efniviðinn sem þarf fyrir síbreytilegan heim.