Í gær birti Kjarninn fyrstu frétt sína uppúr samrunaskrá fyrirtækjanna Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, og 365 miðla. Umrædd samrunaskrá er ekki sú sama og hægt er að nálgast á vef Samkeppniseftirlitsins í dag. Þvert á móti er hægt að nálgast trúnaðarupplýsingar í henni sem átti að vera búið að fjarlægja úr skránni áður en hún var birt opinberlega.
Sú útgáfa, sem Kjarninn hefur undir höndum, var aðgengileg inni á vef Samkeppniseftirlitsins í nokkra klukkutíma þann 10. maí síðastliðinn. Á þeim tíma sem hún var aðgengileg með trúnaðargögnum hafa ugglaust fjölmargir hlaðið henni niður. Og margir áttað sig á því ansi fljótt að skjalið var vistað með þeim hætti að mjög auðvelt var að gera trúnaðarupplýsingarnar, sem áttu að vera afmáðar úr skjalinu, sýnilegar.
Mjög viðkvæmar upplýsingar
Í samrunaskránni sem var upprunalega birt á vef Samkeppniseftirlitsins er að finna gríðarlega viðkvæmar upplýsingar.
Til dæmis mun ítarlegri upplýsingar um rekstur og stöðu 365 miðla en birtast í þeim gögnum sem fyrirtækið gerir vanalega opinber. Gott dæmi um það er niðurbrot á því hvernig áskrifendur að sjónvarpsþjónustu fyrirtækisins skiptast niður á þær áskriftarleiðir sem það býður upp á. Það niðurbrot sýnir til að mynda að dýrustu leiðirnar eru ekki að seljast vel og að áskrifendur að sportpakka stöðvarinnar eru undir þrjú þúsund. Þá eru ítarlegar upplýsingar um alla efniskaupasamninga 365 miðla, við hverja þeir eru, hvernig þeir eru uppbyggðir og hvaða efni fyrirtækið er að kaupa af hverjum og hver gildistími samninga er. Þar er líka að finna upplýsingar um framtíð Miða.is á miðasölumarkaði á vefnum sem aldrei hafa verið birtar opinberlega.
Í gögnunum eru einnig upplýsingar um rekstur Fjarskipta sem hafa ekki verið aðgengilegar áður. Til dæmis um til hversu stórs hluta landsmanna 4G farsímadreifikerfi félagsins nær til og hvort að 4G fjarskiptaleyfi sem 365 miðlar fengu úthlutað fylgi með í kaupum Fjarskipta á þorra reksturs 365 miðla eða ekki. Þar er að finna upplýsingar um hversu mikið meðalnotkun í Mb yfir farsímanet Fjarskipta hefur vaxið frá janúar 2015 til mars 2017 og hvert gagnamagn yfir ljósleiðaratengingar á fastlínu var hjá félaginu á sama tímabili. Þar er líka hægt að sjá upplýsingar um hversu margir áskrifendur voru nákvæmlega að kaupa sjónvarpsáskriftarleiðir Fjarskipta, Vodafone Play og Circus, og hversu margir eru með sjónvarpið sitt í gegnum annað hvort Digital Ísland eða IPTV dreifingarkerfi félagsins.
Þá eru ótaldar þær upplýsingar um samrunann sem hafa ekki birst áður. Til dæmis niðurbrot á því hvernig eigi að ná fram þeirri samlegðarhagræðingu sem kynnt var að ná ætti þegar skrifað var undir kaupin. Í fjárfestakynningu sem birt var með tilkynningu til Kauphallar var einungis tiltekið að tækifæri til samlegðar væri metið á um 1.100 milljónir króna á ári. Í henni var bara sagt að um 90 prósent samlegðar væri vegna væntinga um lægri rekstrarkostnað og að þar skipti um 600 milljóna króna sparnaður vegna tæknimála mestu máli.
Í samrunaskránni með trúnaðarupplýsingunum eru samlegðaráhrifin brotin niður og sagt frá því að til standi að fækka stöðugildum hjá þeim einingum sem koma frá 365 um 41. Það eigi að spara 275 milljónir króna á ári. Niðurbrotið er víðtækara. Auk þess er sagt frá því búist sé við tekjusamlegð m.a. vegna „krosssölu á stökum vörum milli viðskiptavinahópa og bættrar nýtinga á auglýsingasöluteymi 365.“
Og svo framvegis.
Ábyrgðin er skýr
Af hverju skiptir ofangreint máli? Fyrir því eru nokkrar ástæður.
Fjarskipti skráð á markað og þar þarf að gilda sú meginregla að allir fjárfestar hafi sömu upplýsingar. Þeir fjárfestar sem hafa komist yfir umræddar trúnaðarupplýsingar hafa augljóslega betri upplýsingar um rekstur 365 miðla og Fjarskipta, og samruna þeirra, en þeir sem hafa þær ekki. Þær upplýsingar er hægt að nýta sér til að vera í betri stöðu á markaði til að taka ákvarðanir um hvort að það eigi að kaupa eða selja hlutabréf í Fjarskiptum. Eftirlitsaðilar hljóta að skoða hvort möguleiki sé á að þessar upplýsingar hafi verið notaðar í slíkum tilgangi.
Þá eru mörg helstu viðskiptaleyndarmál fyrirtækjanna tveggja nú líklega í höndum samkeppnisaðila þeirra. Bæði Fjarskipti og 365 gætu borið af þessu fjárhagslegan skaða. Og þau gætu ákveðið að sækja þann skaða til þeirra sem ollu honum.
Hver ber ábyrgð á þessu klúðri og hvernig á sá að axla ábyrgð á því?
Það átta sig kannski ekki allir á því hversu alvarlegt það er að birta slíkar trúnaðarupplýsingar með þessum hætti. Þ.e. að gera viðskiptaleyndarmál opinber fyrir samkeppnisaðila og veita upplýsingar umfram það sem sagt er frá opinberlega í gegnum markaðinn. Það varðar nefnilega við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eiga að fara. Í þessu tilfelli er morgunljóst hverjir það voru sem miðluðu trúnaðarupplýsingunum. Það eru þeir einstaklingar sem skiluðu umræddri samrunaskrá inn til Samkeppniseftirlitsins á því formi sem henni var skilað inn og svo Samkeppniseftirlitið, sem birti samrunaskránna með trúnaðarupplýsingum á vef sínum í nokkra klukkutíma. Þeir ætluðu örugglega ekkert að gera það, og sjá ugglaust eftir því. En þetta er þeim að kenna. Engum öðrum.
Ekki benda á mig
Fjarskipti sendu skilaboð til Kjarnans eftir birtingu fréttar um fækkun stöðugilda 365 megin samhliða samrunanum um 41 og sögðu mikilvægt að fram kæmu upplýsingar um að þeir ætluðu ekki að reka neinn, heldur fækka í gegnum starfsmannaveltu. Það stendur reyndar hvergi í samrunaskránni, hvorki í opinbera hluta hennar né þeim hluta sem flokkast sem trúnaðarmál. Í niðurlagi skilaboða Fjarskipta segir að það sé þó mjög mikilvægt að þetta komi fram þar sem verið væri að „fjalla um afkomu fólks og ábyrgðarhluti að skapa ótta um svo veigamikið atriði að óþörfu.“ Það er mjög ódýrt hjá félaginu að ætla að hengja ábyrgðarhluta á upplifun væntanlegs starfsfólks þess á fjölmiðil sem er að segja fréttir úr fréttnæmum gögnum. Fjarskipti hefðu einfaldlega mátt skýra þennan hluta betur í samrunaskránni ef þeir höfðu svo miklar áhyggjur af sálarheill þeirra stöðugilda sem á að eyða.
Samkeppniseftirlitið sendi svo frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem það gaf í skyn að Kjarninn væri að brjóta lög með því að birta fréttir sem byggðu á trúnaðargögnunum sem eftirlitið birti á vef sínum. Það er fjarstæðukennt. Blaðamaður getur ekki brotið lög um miðlun trúnaðarupplýsinga heldur einungis sá sem lætur honum þær upplýsingar í té. Í þessu tilfelli er augljóst að sá er annað hvort lögfræðingarnir sem unnu samrunaskránna fyrir Fjarskipti og 365 eða Samkeppniseftirlitið sjálft.
Þriðji aðilinn í þeirri keðju, sé hann til, er svo tryggt nafnleysi og vernd samkvæmt lögum um fjölmiðla nema að um þjóðaröryggismál sé að ræða. Klúður samrunaaðila og Samkeppniseftirlitsins er varla þjóðaröryggismál. Reyndar má alveg opinbera það að Kjarninn á enn fyrsta eintakið sem stjórnendur hans hlóðu niður af samrunaskránni. Samkeppniseftirlitið sendi það nefnilega á alla fjölmiðla á Íslandi í tölvupósti að morgni dags 10. maí. Og í gegnum það skjal var hægt að nálgast trúnaðarupplýsingarnar. Til viðbótar er einfaldlega hægt að gúggla umrætt skjal og taka skyndiminnisáskrift af því. Þá birtast sömuleiðis allar trúnaðarupplýsingar. Því blasir við að það þurfi ekki einu sinni að ræða ábyrgð þriðja aðila. Samkeppniseftirlitið er sá aðili sem miðlaði trúnaðarupplýsingunum. Og þær eru aðgengilegar hverjum þeim sem áhuga hefur á vefnum.
Höfuð í sandi
Svo vekur vitanlega athygli að eftirlitið sá ekki tilefni til þess að senda frá sér tilkynningu þegar upp komst að það hefði óvart birt trúnaðarupplýsingar á vef sínum, eins og ábyrgt hefði verið að gera. Það gerðist hins vegar níu dögum síðar þegar fjölmiðill sagði fréttir upp úr þeim upplýsingum. Samt getur Samkeppniseftirlitið örugglega séð að stór hópur hlóð upprunalega skjalinu niður eftir að það birtist. Enda um að ræða stærsta samruna fjölmiðlunar og fjarskipta í Íslandssögunni sem mun hafa víðtæk áhrif. Það átti því að stinga höfðinu í sandinn og vona að þessi alvarlegu afglöp myndu ekki uppgötvast.
Til viðbótar sýnir afstaða eftirlitsins ótrúlegt skilningsleysi á eðli fjölmiðla. Þeirra hlutverk er að segja fréttir og upplýsa. Upplýsingarnar sem Samkeppniseftirlitið birti tímabundið á vef sínum voru fréttnæmar og áttu erindi við almenning. Hjá honum liggur trúnaður Kjarnans. Ekki í meðvirkni með eftirlitsstofnun sem gerði mistök eða gagnvart viðskiptahagsmunum fyrirtækja sem birtu óvart trúnaðarupplýsingar.
Þannig hefur það alltaf verið. Og þannig verður það áfram.