Á þriðjudag birti Sigríður Á. Andersen tillögu sína yfir þá 15 umsækjendur sem hún vildi skipa í Landsrétt. Um er að ræða umfangsmestu skipun dómara í Íslandssögunni, og afar mikilvægt að hún yrði óumdeild og nyti trausts.
Listi Sigríðar var frábrugðinn þeim lista sem dómnefnd um hæfi umsækjenda hafði lagt fram tæpum tveimur vikum áður. Fjórir af þeim 15 sem dómnefndin hafði mælt með voru ekki lengur tilnefndir og fjórir aðrir komnir í þeirra stað. Kynjahlutföll höfðu verið löguð umtalsvert. Í stað tíu karla og fimm kvenna vildi ráðherrann skipa átta karla og sjö konur. Kynjasjónarmið réðu þó ekki för við breytinguna að sögn ráðherra. Þau eru ekki hluti af rökstuðningi hennar fyrir breyttri röðun, heldur einungis dómarareynsla, sem Sigríður taldi að gera ætti hærra undir höfði við val á dómurum.
Strax var eftir því tekið að einn þeirra umsækjenda sem var nýr á lista Sigríðar var eiginkona Brynjars Níelssonar, samflokksmanns hennar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Innan réttarkerfisins voru þó ansi margir viðmælendur Kjarnans sammála um að fyrir skipan hennar gætu legið málefnalegar ástæður. Hún væri afar fær og virtur dómari. En augljóslega myndu vakna upp spurningar um hagsmunaárekstra.
Hæfir missa hæfi sitt
Málið tók hins vegar aðra stefnu á þriðjudagskvöld þegar Kjarninn birti lista dómnefndar um hæfi 33 umsækjenda um embætti dómara í Landsrétt. Þar var umsækjendum raðað í röð eftir hæfi, að mati dómnefndar. Í ljós kom að þeir sem dómnefnd hafði sett í sjöunda, ellefta, tólfta og fjórtánda sæti yfir hæfustu umsækjendur voru ekki á lista dómsmálaráðherra. Í þeirra stað voru komnir umsækjendur sem dómnefnd hafði sett í sæti 17, 18, 23 og 30.
Líkt og áður sagði þá rökstuddi Sigríður Á. Andersen breytta röðun sína með því að hún vildi gefa dómarareynslu meira vægi. Sá rökstuðningur rímar í engu við þá niðurstöðu sem hún kemst að.
Samkvæmt listanum sem Kjarninn birti á þriðjudag var Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, í sjöunda sæti á lista dómnefndar. Eiríkur var varaþingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í tvo mánuði á árinu 2006. Hann er hins vegar ekki á listanum sem Alþingi samþykkti. Í 117 blaðsíðna ítarlegri umsögn dómnefndar um umsækjendur (rökstuðningur dómsmálaráðherra fyrir breytingum sínum er fjórar blaðsíður) er reynsla umsækjenda af dómsstörfum meðal annars borin saman. Þar kemur í ljós að þrír umsækjendur sem lentu neðar en Eiríkur í heildarhæfnismati dómnefndar voru með minni dómarareynslu en hann, en rötuðu samt sem áður inn á lista Sigríðar yfir þá sem hún vill skipa í dómarasætin 15. Það var því eitthvað annað sem réð því að Sigríður vildi ekki skipa Eirík sem dómara vil Landsrétt.
Jón Höskuldsson, sem dómnefndin setti í 11. sæti, hlaut heldur ekki náð fyrir augum Sigríðar. Jón er þaulreyndur dómari og hefði átt að færast upp listann frekar en niður hann ef slík reynsla væri metin umfram aðra. Það gerði hann ekki, heldur fauk út af honum. Í hans stað ákvað Sigríður m.a. að skipa Ásmund Helgason, sem hafði verið settur í 17. sæti af dómnefnd. Í umsögn Jóns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að hann og Ásmundur hafi verið skipaðir héraðsdómarar sama dag, 15. maí 2010. Ásmundur þótti þó hafa eilítið meiri reynslu vegna þess að hann hefur auk þess setið í félagsdómi og verið ad hoc-dómari í Hæstarétti í einu máli.
Þá er ótalið að Ólafur Ólafsson, sem dómnefnd mat einn þeirra fjögurra sem hafi næst mesta dómarareynslu, hlaut ekki náð fyrir augum Sigríðar þrátt fyrir að hafa lent í 27. sæti á upphaflegum lista dómnefndar, eða þremur sætum ofar en Jón Finnbjörnsson, sem Sigríður ákvað að tilnefna. Jón er giftur eiganda á lögfræðistofunni LEX, þar sem dómsmálaráðherra starfaði um margra ára skeið áður en hún settist á þing.
Það sem á erindi við almenning
Þarna eru þrjú dæmi sem ganga ekki upp. Og augljóst að rök dómsmálaráðherra fyrir breyttri röðun voru brostin. Dómarareynsla hafði ekki ráðið för. Heldur eitthvað annað. Hvað það er verður ekki fullyrt um.
Fyrstu viðbrögð voru þau að það þótti miður að listinn hafi lekið út. Sitjandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Njáll Trausti Friðbertsson, tók það skýrt fram í fjölmiðlum að almenningur hafi aldrei átt að fá að sjá listann, sem sýndi þó svart á hvítu að önnur sjónarmið en þau sem ráðherrann hefur gefið upp réðu tilnefningu hennar. Þessi vonbrigði gagnvart umræddum leka hafa síðan verið endurtekin af stjórnarliðum, meðal annars Viðreisnarmanninum Pawel Bartoszek í ræðupúlti Alþingis og Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar. Í grunnstefnu Viðreisnar segir t.d.: „Opin, upplýst og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Greiður aðgangur að upplýsingum er forsenda þekkingar. Upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart almenningi ber að efla.“ Í stefnu Bjartrar framtíðar segir: „Tölum saman, segjum satt. [...]Upplýsingar eru gull. Björt framtíð þorir að leiða hin stærstu og erfiðustu deilumál til lykta með gögnum, rannsóknum, opnu samtali og lýðræðislegum aðferðum.“ Þessi afstaða þingmanna og ráðherra flokkanna er í fullkominni andstöðu við stefnu þeirra.
Það skal tekið fram að Kjarninn mun alltaf birta gögn sem hann telur að eigi erindi við almenning. Þessi gögn áttu það svo sannarlega, enda vörpuðu þau öðru og skýrara ljósi á athæfi dómsmálaráðherra en ríkisstjórnin vildi. Ef gögn þola ekki að vera gerð opinber þá er það vegna þess að einhver hefur eitthvað að fela sem hann vill ekki að aðrir viti. Trúnaður við lesendur, vinnuveitendur þingmanna og ráðherra, verður alltaf í fyrsta sæti hjá Kjarnanum, algjörlega óháð þeim óþægindum sem Njáll Trausti, Pawel og Óttarr finna til út af þeim.
Virtur hæstaréttarlögmaður „í áfalli“
Aðrir höfðu þó meiri áhyggjur af efnisatriðum málsins. Þeirra á meðal er Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður með 24 ára starfsreynslu sem hefur verið treyst fyrir mörgum af viðkvæmustu og flóknustu verkefnum íslenska ríkisins á eftirhrunsárunum. Í umsögn hans segist hann hafa verið í áfalli þegar hann las rökstuðning dómsmálaráðherra. Þau uppfylli engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standist auk þess „enga efnislega skoðun“.
Jóhannes Karl segir í umsögninni að það sé „alþekkt að sumir ráða ekki við freistinguna að skipa vini sína, skoðanabræður og systur eða jafnvel ættingja í embætti. Þeir ganga framhjá þeim sem þeir telja með óheilbrigðar skoðanir á þjóðmálum eða þeir telja sig eiga eftir að jafna einhverjar sakir við. Síðustu 10 árin hefur réttarkerfið glímt við afleiðingar af skipunum af þessum toga í embætti dómara. Vantraust og tortryggni gripu um sig eftir skipanir í lok árs 2007 með dapurlegum afleiðingum fyrir alla sem í hlut áttu[...]Þegar svona forkastanleg vinnubrögð sjást þá leita menn annarra skýringa. Lét dómari stjórnmálaskoðanir (fortíðar) ráða þegar tilteknir umsækjendur voru látnir gossa út af dómnefndarlistanum? Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt. Alþingi er skylt að taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar og má ekki taka að sér hlutverk stimpilpúða fyrir framkvæmdavaldið í þetta sinn. Það er allt of mikið í húfi!“
Val um að stöðva ekki valdníðslu
Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur horft framhjá þessu öllu. Pawel Bartoszek, fulltrúi Viðreisnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í málinu, bar fyrir sig að hann vildi ekki vald til að krukka í breyttri röðun dómara og því væri það tæknilegt atriði að styðja við ákvörðun ráðherrans um hverjir ættu að sitja í Landsrétti. Óttarr Proppé sagðist vera ánægður með rökstuðning ráðherra. Og sagði, líkt og Pawel, að það væri ekki hlutverk Alþingis að hafa skoðun á lista ráðherrans. Það væri á ráðherrans ábyrgð. Þeir viku sér þannig hjá því að taka efnislega afstöðu til þess sem við blasir: dómsmálaráðherra tók ákvörðun um breytingu á skipan dómara með rökstuðningi sem sýnt hefur verið fram á að gengur ekki upp. Með öðrum orðum þá er hér um að ræða fúsk. Misbeitingu valds. Og það er nákvæmlega vegna slíkra aðstæðna sem leikreglurnar gera ráð fyrir að Alþingi geti stöðvað svona ömurlega valdníðslu. Að vera öryggisventill gegn henni. En Pawel, Óttarr og samflokksmenn þeirra hafa vikið sér undan þeirri ábyrgð. Með tæknilegum hætti.
Sjálfstæðisflokkurinn má þó eiga það að hann er sjálfum sér samkvæmur. Hann er flokkur valds og í samtölum við áhrifafólk innan hans kemur fljótt í ljós að þar telja menn að skipanir eigi að vera pólitískari. Það er ekkert verið að fela að í grunninn sé það sem flokkurinn stendur fyrst og fremst fyrir eru lægri skattar og völd, meðal annars til að geta raðað hverjum sem þeim þóknast á ríkisjötuna og/eða -spenann. Svo eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins búnir að fullkomna þann leik að setja á fót heilagan vandlætingarleikþátt gagnvart þeim sem benda augljósa valdníðslu, líkt og að sá sem framkvæmdi hagsmunaárekstur og fúsk sé fórnarlamb, ekki gerandi.
Kynjasjónarmið ekki hluti af rökstuðningi ráðherra
Rökstuðningur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir því að styðja breytta röðun dómsmálaráðherra er brjóstumkennanlegur. Við blasti að þorri þingmanna flokkanna sem ákváðu að taka afstöðu í málinu höfðu ekkert kynnt sér það. Eða töluðu gegn betri sannfæringu. Erfitt er að sjá hvort sé verra.
Björt Ólafsdóttir frá Bjartri framtíð fór til að mynda í ræðustól og furðaði sig á því fokreið að minnihlutinn gæti ekki stutt breytingu sem fæli í sér bætt kynjahlutföll. Hanna Katrín Friðriksson og Jóna Sólveig Elínardóttir frá Viðreisn buðu upp á svipaðan málflutning. Sigríður Á. Andersen minnist hins vegar ekki einu orði á kynjahlutföll í sínum rökstuðningi. Þau höfðu ekkert með gerræðislega ákvörðun hennar að gera. Það myndu þingmennirnir og ráðherrann vita ef þeir hefðu lesið þriggja blaðsíðna bréf dómsmálaráðherra til Alþingis með rökstuðningi hennar. Það tekur um mínútu að lesa það.
Og annar rökstuðningur hennar fyrir breyttri röðun gengur heldur ekki upp, líkt og rakið hefur verið hér að ofan. Það er því ótrúleg þvæla að bjóða viti bornu fólki upp á að segjast ánægðir og sáttir með rökstuðning ráðherra, og nota það sem skálkaskjól fyrir að hleypa þessu ömurlega máli í gegn.
Þarna áttu sér stað hefðbundin pólitísk hrossakaup. Stóri flokkurinn sagði litlu flokkunum að þeir yrðu að hleypa þessu máli í gegn. Og þeir kyngdu því.
Trúverðugleiki Landsréttar og Alþingis beðið hnekki
Viðreisn keyrði sína kosningabaráttu á siðvæðingu, gagnsæi og breyttum vinnubrögðum. Á því að vera með almannahagsmunum en gegn sérhagsmunum. Óttarr Proppé sagði við DV daginn fyrir kosningar að Björt framtíð leggi „áherslu á vönduð vinnubrögð, breitt samráð og baráttu gegn fúski og sérhagsmunagæslu. Okkar hlutverk er að hafa góð áhrif og auka samvinnu í íslensku samfélagi.“ Með stuðningi sínum við ákvörðun dómsmálaráðherra þá hafa báðir flokkar opinberað að þeir eru ekki það sem þeir sögðust vera. Þeir hafa „kyngt ælunni“ á sama hátt og Brynjar Níelsson kyngdi þegar hann samþykkti lög um jafnlaunavottun. Það gerði Brynjar „í þágu mikilvægra hagsmuna“. Ælukyngingar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru vegna þess að þeir flokkar hafa tekið sérhagsmuni Sjálfstæðisflokks fram yfir almannahagsmunina sem felast í því að tilbúningur nýs dómstigs hafi þann trúverðugleika sem þarf.
Flokkarnir tveir hafa misst allan trúverðugleika. Þeir hafa opinberað sig sem gamaldags valdaflokka með umbótagrímu þar sem stólarnir eru mikilvægari en prinsippin. Það er ástæða fyrir því að Viðreisn og Björt framtíð mælast vart með lífsmarki í skoðanakönnunum. Vegna þess að orðum þeirra hafa ekki fylgt efndir. Og nú hafa þeir mögulega veitt sér náðarhögg sem flokkarnir munu ekki ná sér af. Þeir hafa tekið þátt í spillingarathæfi sem gleymist aldrei, „í þágu mikilvægra hagsmuna“.
Ástandið í ríkisstjórnarsamstarfinu minnir á ofbeldisfullt hjónaband þar sem bældur maki – sem níðst hefur verið á – telur sig ekki hafa efni á skilnaði. Of mikið sé undir. Þess í stað sættir hann sig við höggin og útskýrir svo ástæðuna fyrir marblettunum fyrir þeim sem spyrja með lélegum fyrirslætti. Hann gekk á hurð. Rann í sturtunni. Rökstuðningur ofbeldismannsins var svo sannfærandi.
Það sem átti sér stað í gær er risamál. Það var samþykktur gjörningur sem er ömurlegur og óheiðarlegur. Borðleggjandi er að rökstuðningur ráðherrans gengur ekki upp heldur eru önnur sjónarmið sem ráða ákvörðun hennar. Trúverðugleiki Landsréttar, dómskerfisins og Alþingis hefur beðið hnekki. Skaðinn er skeður. Og þann skaða eiga Viðreisn og Björt framtíð skuldlaust.
Til hamingju með það.