Aðgerðahópur stjórnvalda sem hefur það verkefni að búa til nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum vegna Parísarsamkomulagsins óskaði eftir tillögum frá almenningi fyrir um tveimur vikum síðan. Hægt er að senda inn tillögur í gegnum vef aðgerðahópsins co2.is.
Nú þegar hafa fleiri en 50 tillögur borist og verið birtar á vefnum. Þar er tæpt á hinum ýmsu þáttum er við koma loftslagsmálum.
Hægt er að lesa tillögur almennings á vefnum co2.is eða með því að smella á hlekkinn hér.
Loftslagsmálin verði gerð hluti af daglegri stjórnsýslu
Margt hefur verið vel gert á Íslandi í tengslum við loftslagsmál jafnvel þó árangurinn láti ekki sjá sig. Fjallað hefur verið um það hér í Kjarnanum hvernig útstreymi gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast þrátt fyrir aðgerðaáætlanir og loftslagslög. Þá hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld verði að spýta í lófana ef markmið Íslands í þessum málaflokki eigi að nást. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur sjálf sagt slæma stöðu hafa komið sér á óvart.
Í lokaritgerð sem ég skrifaði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands á vordögum gerði ég tilraun til þess að greina stefnumótun íslenskra stjórnmála í loftslagsmálum. Niðurstaðan var sú að stefnumótunin virðist alla tíð hafa verið drifin að miklu leyti af alþjóðlegum skuldbindingum. Ísland fellur í hóp markaðssinna um aðgerðir í loftslagsmálum og hægt er að draga þá ályktun að stjórnvöld raði efnahag þjóðarinnar fram fyrir loftslagsmál og sjálfbærni. Stefna íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum er að mörgu leyti fylgifiskur efnahagsstefnunnar.
Aðgerðir í loftslagsmálum þurfa hins vegar ekki að þýða dauðadóm yfir íslenskum hagvexti og efnahagsframförum.Aðgerðir í loftslagsmálum þurfa hins vegar ekki að þýða dauðadóm yfir íslenskum hagvexti og efnahagsframförum. Þvert á móti felast gríðarstór tækifæri í skýru viðbragði við hlýnun jarðar, og ég leyfi mér að fullyrða að þau tækifæri geta verið mun verðmætari og meira spennandi en fleiri álver og stóriðjuframkvæmdir.
Ég trúi því að miklu sé hægt að ná fram með breyttu verklagi stjórnvalda, hvort sem það er á Alþingi eða í stjórnarráðinu. Það var ánægjulegt að fylgjast með ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar ráðast í gerð nýrrar aðgerðaáætlunar þar sem verkefnum er skipt þvert á ráðuneyti. Það staðfestir að í huga ráðherra eru loftslagsmálin viðamikill og mikilvægur málaflokkur. Á Alþingi þykja mér loftlagsmálin mega vera ofar í huga þingmanna í öllum málaflokkum, enda snerta loftslagsmál alla þætti samfélagsins.
Hér að neðan má lesa hugmyndir undirritaðs, Birgis Þórs Harðarsonar, blaðamanns Kjarnans, sem sendar hafa verið aðgerðahópi stjórnvalda um loftslagsmál. Gengið er út frá því að markmiðið með loftslagsáætlun íslenskra stjórnvalda sé aukin sjálfbærni samfélagsins, og á endanum kolefnishlutleysi.
Útblástursúttekt með öllum lagafrumvörpum
Jafnvel þótt flestir þingmenn sem setið hafa á Alþingi undanfarin kjörtímabil hafi verið sammála um að hlýnun jarðar sé yfirvofandi vandamál sem verði að takast á við í nútímanum til þess að afstýra samfélagslegum og fjárhagslegum kostnaði í framtíðinni hefur ekki tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með beinum aðgerðum. Ljóst er að skoðun og stefna stjórnmálamanna í loftslagsmálum verður að rista dýpra í samfélaginu en hún hefur gert hingað til ef árangur á að nást.
Til þess að ná því fram mætti gera þá kröfu til allra lagafrumvarpa sem lögð eru fram á Alþingi að í greinargerð þeirra fylgi sérstök útblástursúttekt, þe. mat flutningsmanna á áhrifum nýrra laga á loftslag, útblástur gróðurhúsalofttegunda og umhverfi.
Um leið mun loftslagsvitund löggjafans aukast í hvaða málaflokki sem er og ný mál verða metin út frá hlið loftslagsmála frá því að þau eru lögð fram.Með þessu væru málefni loftslagsins flutt undir öll svið samfélagsins. Um leið mun loftslagsvitund löggjafans aukast í hvaða málaflokki sem er og ný mál verða metin út frá hlið loftslagsmála frá því að þau eru lögð fram. Þessu fylgir jafnframt að umræða um loftslagsmálin mun fara fram í þingsal óháð hvaða þætti samfélagsins er verið að ræða.
Hliðarverkanir af útblásturúttektum með lagafrumvörpum verða eflaust margskonar. Ég vænti þess að þekking kjörinna fulltrúa og ríkisstarfsmanna á loftslagsmálum muni aukast mikið um leið og gerð verður krafa um að fjallað sé um þau. Alþingi er jafnframt æðsta stofnun ríkisins og fer með dagskrársetningarvald í samfélaginu. Nú þegar er mikil umræða um loftslagsmál meðal almennings sem mun aðeins aukast þegar Alþingi fjallar ítarlegar. Slíkt getur aðeins haft jákvæðar afleiðingar og hraðað framkvæmd aðgerðanna sem íslensk stjórnvöld verða að ráðast í.
Fjallað er um kröfur sem gerðar eru til lagafrumvarpa í þriðja kafla þingskapalaga. Hægt væri að bæta þessari kröfu við 37. grein laganna. Í þeirri grein er einnig tiltekið að forseti Alþingis geti „sett leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa“.
Gjald fyrir dreifingu pappírs
Hingað til Íslands eru flutt mörg þúsund tonn af pappír og pappa á hverju ári. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru rúmlega 25 þúsund tonn af pappír og pappa flutt til Íslands árið 2016. Það er aðeins minna en hafði verið árin á undan; Árið 2015 voru flutt inn tæplega 27 þúsund tonn og árið 2014 um það bil 29 þúsund tonn.
Ef þessar tölur eru bornar saman við magn úrgangs sem varð til á Íslandi árið 2014 sést að megnið af pappírnum verður að rusli. Miðað við gögn Umhverfisstofnunar var nærri 28 þúsund tonnum af pappír og pappa hent árið 2014. Stór hluti alls þess pappírs sem verður að rusli er sendur utan til endurvinnslu.
Kolefnisfótspor óendurunnins pappírs er þess vegna töluvert; hann verður til úr trjám sem felld eru einhvers staðar í heiminum, fluttur í umskipunarstöðvar og þaðan til Íslands þar sem pappírinn verður fljótt að rusli. Að lokum er pappírinn svo fluttur aftur erlendis þar sem hann er endurunninn, eða hann urðaður hér á landi.
Gera má ráð fyrir stór hluti alls innflutts pappírs sé borinn út á heimili fólks sem ómerktur fjölpóstur, dagblöð eða kynningarefni hverskonar. Megnið af pappírnum safnast þess vegna saman á heimilum fólks sem þarf sjálft að standa straum af sorphirðunni sem verður af pappírsflaumnum, hvort sem það er með beinum hætti eða ef sveitarfélag veitir þjónustuna.
Þarna eru tækifæri fyrir hið opinbera að draga úr magni úrgangs frá heimilum með því að rukka útgefendur fjölpósts og dagblaða fyrir dreifingu þessa efnis. Með því er settur þrýstingur á útgefendur til að beita umhverfisvænum stafrænum aðferðum við miðlun á upplýsingum og efni, hvort sem að eru fréttir eða auglýsingar.
Fyrir þessu eru fordæmi í öðrum geirum samfélagsins. Úrvinnslugjald er lagt á ákveðnar vörur við innflutning og við sölu innlendrar framleiðslu. Hægt væri að beita úrvinnslugjaldi á óendurunninn pappír, eða þrengja gjaldheimtuna aðeins við fjöldapóstdreifingu. Útgefendur dagblaðs þyrftu þannig að borga ákveðið krónugjald fyrir hvert kíló sem dreift er á pappír. Þeim skattpeningum væri svo hægt að veita í niðurgreiðslu á sorphirðugjöldum eða til að efla fræðslu um flokkun úrgangs.
Hlutfall plastumbúða af innpakkaðri vöru
Þegar verlsað er í matinn, föt eru keypt eða sótt í hreinsun eða nesti sent með börnum í skóla kemur einnota plast nær undantekningarlaust við sögu. Plast er þess eðlis að það brotnar mjög hægt niður (eða bara ekki) í náttúrunni og er þess vegna sá úrgangur sem erfiðast er að meðhöndla.
Einnota plast má finna mjög víða í íslenska hagkerfinu, ekki síst í viðskiptum hins almenna neytanda. Svo dæmi sé tekið af grænmeti: Allt grænmeti er sett í marga plastpoka, ein paprika fer í sér poka því ekki má setja tómatinn með því á honum er annar verðmiði. Bæði innflutt grænmeti og það sem framleitt er hér á landi er jafnvel pakkað í plastumbúðir fyrir neytendur. Þessar umbúðir verða nær undantekningarlaust að rusli um leið og byrjað er að neyta vörunnar.
Hér gætu verið tækifæri fyrir stjórnvöld að grípa inn í og takmarka hlutfall plastumbúða af innpakkaðri vöru. Þannig væri hægt að minnka það ónáttúrulega sorp sem þarf að urða og hugsanlega lengja líftíma ruslahauga í leiðinni.
Innleiðing hagrænna hvata fyrir vistvænar vörur og þjónustu
Loftslagsbreytingar eru sagðar vera einhver stærsti og víðtækasti markaðsbrestur sem orðið hefur. Markaðsbresturinn hefur orðið vegna þess að markaðinum er eingöngu stillt upp til þess að þátttakendur á honum geti hámarkað fjármagn sitt; Umhverfið eða samfélagsmál koma markaðinum ekki beint við.
Þennan markaðsbrest hefur þegar verið reynt að bæta hér á Íslandi með þátttöku í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Þar eru losunarheimildir mengandi efna gerðar að verslunarvöru; Verðmiði er hengdur á mengunina til þess að knýja fyrirtæki til þess að leita umhverfisvænni lausna í starfsemi sinni. Þetta kerfi má gagnrýna með ýmsum hætti, en þarna er kominn vísir að ríkisinngripi í markaðsbrestinn. Einnig hefur verið innheimt kolefnisgjald á eldsneyti um nokkurra ára skeið og skatta- og tollakerfi hefur verið breytt til að hygla umhverfisvænni bílum.
Stjórnvöld ættu þess vegna að leggja ríka áherslu á hærri gjaldheimtu af mengandi vörum og veita ívilnanir á loftslagsvænum staðgönguvörum.Brýnt er að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum snúist að miklu leyti um að veita almenningi fleiri loftslagsvænni valkosti en bjóðast á almennum frjálsum markaði. Stjórnvöld ættu þess vegna að leggja ríka áherslu á hærri gjaldheimtu af mengandi vörum og veita ívilnanir á loftslagsvænum staðgönguvörum.
Þetta er þegar gert með gjöldum á bíla knúnum sprengihreyfli og eldsneyti og með ívilnunum á umhverfisvænni bíla. Munurinn er hins vegar ekki nógu mikill til þess að orkuskiptin verið nógu hröð. Í úttekt Kjarnans sem birtist 29. júlí síðastliðinn kemur fram að sparnaðurinn við að kaupa rafmagnsbíl umfram bensínbíl er aðeins 690.508 krónur. Raunkostnaður rafbílakaupana var 7.549.600 krónur og hlutfallslegur sparnaður aðeins 8,4 prósent af raunkostnaði bensínbílkaupa.
Rafbílavæðingin er hér valið sem dæmi. Auk ívilnana þarf ríkið að stuðla að innviðauppbyggingu fyrir rafbíla. Sömu sögu má segja um aðra þætti á leið til sjálfbærni; Innviðauppbygging verður að vera undanfari samfélagsbreytinganna.
Almenningssamgöngur
Hluti af því að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að fleiri loftslagsvænir valkostir standi almenningi til boða í samfélaginu er að tryggja að aðrir samgönguvalkostir en einkabíllinn standi til boða. Þar liggur beinast við að almenningssamgöngur og almenningssamgöngumöguleikar verði efldir.
Í losunarbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun skilaði í apríl á þessu ári kemur fram að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hafði aukist um 28 prósent árið 2015 miðað við losun ársins 1990. Nærri því fjórðungur aukningarinnar er vegna bílaumferðar á Íslandi. Uppruni um það bil 20 prósent alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi var vegna bílaumferðar árið 2015.
Bílar eru mjög áhugavert fyrirbæri, ekki síst í þéttbýli. Þeir eru oftar en ekki álitnir algerlega nauðsynlegir í ýmislegt skutl, hvort sem það er til og frá vinnu, með börn í skóla eða í verslunarleiðangra. Þeir standa óhreyfðir á bílastæðum 95 prósent af líftíma þeirra og bílastæðin yfirtaka oftar en ekki dýrmætt byggingarland. Margar bílferðir væri þó hægt að fara með almenningssamgöngum.
Almenningssamgöngur þrífast best í þéttbýli. Þeim mun strjálbýlla sem svæði verður þeim mun kostnaðarsamara er að reka samgöngukerfi sem allir íbúar geta nýtt með góðu móti. Það er þess vegna hluti af eflingu almenningssamgangna að þétta byggð í þéttbýli með sem mestu móti. Um leið opnast tækifæri á að gera aðra samgöngumöguleika – svo sem hjólreiðar eða göngu – enn greiðari en þeir eru nú þegar.
Stjórnvöld ættu að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum að greitt verði úr samfélagssjóðum í uppbyggingu almenningssamgöngukerfis og rekstur þess á næstu árum og áratugum, og stuðla að enn þéttari byggð á höfuðborgarsvæðinu. Þar býr meira en helmingur þjóðarinnar og gert er ráð fyrir töluverði fjölgun á næstu áratugum.
Það er ekki fyrr en boðið er upp á aðra samgöngukosti sem hægt verður að takmarka og skilyrða þá samgöngumáta sem fólk reiðir sig á í dag. Áætlanir eins og að takmarka bílaumferð í miðbæ Reykjavíkur við rafbíla eða eitthvað slíkt verður erfitt að ráðast í fyrr en aðrir valkostir hafa verið innleiddir.
Kolefnishlutleysi Íslands
Lokamarkmið allrar loftslagsstefnumótunar ætti að vera kolefnishlutleysi. Stjórnvöld ættu að kynna þetta sem loftslagsmarkmið Íslands á alþjóðavettvangi.
Kolefnishlutleysi íslensks samfélags verður þegar magn gróðurhúsalofttegunda sem blásið er út í andrúmsloftið er jafn mikið eða minna en magn gróðurhúsalofttegunda sem bundið er í jörðu.
Íslenskir ráðamenn þreytast ekki á að kynna sjálfbærar auðlindir Íslands, hvort sem þær eru nýttar til raforkuframleiðslu eða húshitunar. Oftar en ekki fylgir lýsing á því hvernig íslenskt samfélag brást við olíukreppunni á áttunda áratug síðustu aldar og byggðu hitaveituna, sem síðan hefur sparað Íslendingum mikinn pening og stórminnkað kolefnafótspor daglegs lífs hins hefðbundna Íslendings.
Þennan hugsunarhátt mættu stefnumótendur tileinka sér í hinum ýmsu flokkum loftslagsmála. Vandamál stjórnmálamanna er að kostnaðurinn verður mikill til að byrja með, en eins og sýnt var fram á í hitaveituvæðingunni má spara mikinn kostnað í framtíðinni.
Stjórnmálamenn verða að setja skammtímahagsmuni sína og fjárhagslegra stuðningsmanna sinna til hliðar til þess að hægt sé að ráðast í breytingar hratt. Það mun þess vegna krefjast pólitísks kjarks og útsjónarsemi ef þetta á að takast.
Tillögurnar hafa verið sendar aðgerðahópi stjórnvalda í nafni Birgis Þórs Harðarsonar.