Skipulögð eyðilegging íslenskra fjölmiðla

Auglýsing

Kjarn­inn er fjög­urra ára í næstu viku. Þá verða liðin fjögur ár frá því að fyrsta útgáfa hans leit dags­ins ljós. Um var að ræða útgáfu sem byggði á hug­sjón og róm­an­tík. Hópur fólks setti nán­ast allt spari­féð sitt í fjöl­miðil sem átti að kafa dýpra, greina og setja hlut­ina í sam­hengi. Vera gagn­rýn­inn en heið­ar­legur og taka óhræddur þátt í umræð­unni með því að styðj­ast við stað­reynd­ir. Gera færri hluti en tíðk­að­ist á öðrum fjöl­miðlum en gera þá vel.

Á þessum fjórum árum sem eru liðin þá hefur margt breyst. Kjarn­inn hefur þurft að breyt­ast úr staf­rænu viku­legu tíma­riti í vef­miðil sem rekur morg­un­póst, hlað­varps­þjón­ustu og enska frétta­þjón­ustu. Hann heldur úti, og utan um, Kjarna­sam­fé­lag og bætti nýverið við sig útgáfu Vís­bend­ing­ar, rót­gró­ins viku­rits um efna­hags­mál. Við höfum gert fjölda­mörg mis­tök, en reynt að læra af þeim öllum í stað þess að stinga höfð­inu í sand­inn.

Það virð­ast margir furða sig á því hversu lengi Kjarn­inn hefur lif­að. Hvernig það sé hægt á örmark­aði eins og þeim íslenska, með öllum hans sér­kenni­leg­heitum og strok­um. Sér­stak­lega þegar stjórn­mála­menn og annað áhrifa­fólk hefur tekið sig til og borið út alls kyns stað­leysur og róg um mið­il­inn sem hefur á stundum haft veru­leg áhrif á afkomu­mögu­leika hans.

Auglýsing

Ástæð­urnar fyrir því að Kjarn­inn starfar enn eru að uppi­stöðu þrjár. Í fyrsta lagi er það þrjóska. Þeir sem að verk­efn­inu stóðu unnu launa­laust mán­uðum saman og höfðu svo mikla trú á því að þeir ætl­uðu að láta það ganga. Í öðru lagi er það aðlög­un­ar­hæfni. Upp­haf­lega hug­myndin að Kjarn­an­um, sem fal­legt og gagn­virkt staf­rænt tíma­rit, gekk ekki upp og við þurftum annað hvort að kyngja því eða breyta um kúrs. Það var nefni­lega ekki efnið sem ekki var eft­ir­spurn eft­ir, heldur form­ið. Því var hægt að breyta án þess að gefa nokkurn afslátt á því sem við stöndum fyr­ir.

Í þriðja lagi tókst okkur upp­runa­lega ætl­un­ar­verk­ið. Að skipta máli á réttum for­send­um. Les­endur treystu okkur betur en flestum öðrum fjöl­miðlum og van­traustið er það minnsta sem mælist, að frétta­stofum RÚV und­an­skild­um.

Maður borðar ekki róm­an­tík

Það er ekki góð hug­mynd að stofna fjöl­miðil í ríki með tæp­lega 340 þús­und íbúa sem tala tungu­mál sem eng­inn annar skil­ur. Sér­stak­lega þegar mark­aðs­að­stæður eru mjög skakk­ar. Maður borðar nefni­lega ekki róm­an­tík.

Kjarn­inn hefur sam­tals tapað 39 millj­ónum króna á þeim heilu rekstr­ar­árum sem hann hefur starf­að. Við höfum getað það með stuðn­ingi magn­aðra hlut­hafa, hug­sjón­ar­fólks sem hefur ekk­ert annað erindi í aðkomu sinni að fjöl­miðla­rekstri en að styðja við gagn­rýna og heið­ar­lega blaða­mennsku.

Þetta tap hefur verið fjár­fest­ing í upp­bygg­ingu fjöl­miðla­fyr­ir­tækis sem byrj­aði á núlli og hefur það mark­mið að búa til sjálf­bæran rekst­ur. Sem er ekki langt und­an. Fyr­ir­tækið er skuld­laust og hefur alltaf greitt alla sína reikn­inga. Þegar að aðlag­ast hefur þurft ófyr­ir­séðum aðstæðum þá hefur það verið gert í gegnum rekst­ur­inn, með því að draga hann sam­an. Yfir­bygg­ing er engin og tæp­lega níu af hverjum tíu krónum sem við fáum í tekjur renna í laun starfs­manna. Á þessu tíma­bili hefur Kjarn­inn aldrei, aldrei, ekki staðið skil á opin­berum gjöld­um. Við höfum aldrei tekið líf­eyr­is­greiðsl­ur, stétt­ar­fé­lags­greiðsl­ur, með­lag eða annað sem dregið er af launum starfs­fólks og á að skila til rík­is­sjóðs, og eytt í rekst­ur­inn. Enda er það ólög­legt og sið­laust.

Á þessum tíma höfum sett fjöl­mörg mál á dag­skrá. Birt ara­grúa frum­gagna. Tekið þátt í umræð­unni með stað­reynda­mið­uðum skoð­ana­skrif­um. Greint stöð­una í stjórn­mál­um, efna­hags­lífi og við­skipt­um. Veitt mikið og þarft aðhald. Fyrir það höfum við fengið til­nefn­ingar og verð­laun. Og hátt í tvö þús­und manns hafa ákveðið að borga til okkar mán­að­ar­lega svo við getum haldið áfram þess­ari vinnu. Sá stuðn­ingur er ein meg­in­á­stæðan fyrir því að við erum enn að.

Óheil­brigður mark­aður

Fjöl­miðlaum­hverfið hér­lendis er nefni­lega galið, og það virð­ist ekki vera neinn vilji til að breyta því. Það sam­anstendur af rík­is­fyr­ir­tæki sem fékk 3,8 millj­arða króna af skattfé á síð­asta ári. Til við­bótar hafði RÚV 2,2 millj­arða króna í aug­lýs­inga­tekjur á árinu 2016. Sam­tals gera þetta sex millj­arðar króna.

Gróf­lega má áætla að tekjur RÚV af aug­lýs­inga­sölu séu á bil­inu 20-25 pró­sent af öllu því fé sem notað er til að kaupa aug­lýs­ingar á Íslandi. Þar skipta sjón­varps­aug­lýs­ingar og -kost­anir ugg­laust mestu máli, en RÚV ryksugar líka aug­lýs­ingar fyrir útvarps- og skjá­aug­lýs­inga­markað og eru þar í beinni sam­keppni við t.d. net­miðla um aug­lýs­inga­fé. Til við­bótar nið­ur­greiðir hið opin­bera rekstur val­inna einka­rek­inna fjöl­miðla með því að aug­lýsa nær ein­vörð­ungu í þeim og með því að taka á sig tug millj­óna kostnað við urðun dag­blaða­papp­írs.

Aug­lýsend­ur, fyr­ir­tækin í land­inu, hafa heldur ekki sýnt nýsköpun og fram­þróun í fjöl­miðlun mik­inn stuðn­ing. Aug­lýs­inga­mynstur hér­lendis er allt annað en í lönd­unum sem við miðum okkur við. Í nýlegri sam­an­tekt Fjöl­miðla­nefndar kom fram að 30,4 pró­sent af birt­ingum rati í prent­miðla. Árið 2015 var það hlut­fall komið niður í 14 pró­sent í Nor­egi. Sam­an­tektin sýndi einnig að vef­miðlar voru farnir að taka til sín þriðj­ung aug­lýs­inga­tekna í Nor­egi árið 2015. Í fyrra var hlut­deild íslenskra vef­miðla 16,5 pró­sent. Þar af fór að öllum lík­indum 80 pró­sent hið minnsta til vef­miðla sem tengj­ast prentút­gáf­um, Vísis og Mbl.is. Tekjur ann­arra vef­miðla af aug­lýs­ingum eru frekar að drag­ast saman en hitt. Og þeir þurfa að horfa til ann­arra tekju­stoða til að lifa af.

Einka­rekni fjöl­miðla­mark­að­ur­inn er ekk­ert sér­lega heil­brigð­ur. Það tapa nán­ast allir pen­ing­um, þegar litið er fram­hjá bók­halds­brell­um. Sumir fara þá í þann leik að skuld­setja sig fyrir yfir­tökum og borga ekki opin­ber gjöld, sem er glæp­ur, án þess að lög­regla eða önnur til þess hæf yfir­völd grípi til neinna aðgerða vegna þeirra lög­brota. Staðan á stóru fjöl­miðla­fyr­ir­tækj­unum síð­asta ára­tug­inn er síðan vel þekkt. Árvak­ur, útgef­andi Morg­un­blaðs­ins, hefur tapað nálægt 1,6 millj­arði króna frá árinu 2009 og fengið millj­arða afskriftir frá banka sem er nú í eigu íslenska rík­is­ins.

Hlut­hafar 365 hafa greitt 765 millj­ónir í nýtt hlutafé inn í félagið á allra síð­ustu árum. Það bæt­ist við tap (ef skatta­skuld sem þegar hefur verið greidd en ekki færð í rekstr­ar­reikn­ing) upp á tæp­lega 1,8 millj­arða króna á árunum 2014 og 2015, um tíu millj­arða króna skuldir og end­ur­fjár­mögnun sem mjög erfitt er að sjá að hafi verið ráð­ist í á vit­rænum við­skipta­legum for­send­um. En stærsti hlut­inn af 365 er nú að renna inn í Fjar­skipti, þar sem til stendur að fækka störfum 365-­megin um 41 með tíð og tíma. Líkur verða að telj­ast á því að meiri áhersla verði á afþrey­ing­ar­hluta fjöl­miðl­unar en dýran og erf­iðan frétta­stofu­rekstur hjá Fjar­skipt­um. Það er meira að segja skilj­an­legt, enda félagið skráð á markað og með allskyns við­skipta­vini sem það vill ugg­laust ekki styggja mikið með aðgangs­hörðum og gagn­rýnum frétta­flutn­ingi. Von­andi hef ég þó rangt fyrir mér varð­andi þennan hluta og vista­skiptin verði til þess að Frétta­stofa 365 blóm­stri sem aldrei fyrr.

Staðið sig afburða­vel við fárán­lega aðstæður

Þrátt fyrir þessa stöðu, og þá stað­reynd að öll hefð­bundin við­skipta­módel fjöl­miðla eigi undir högg að sækja vegna breyt­inga á neyt­enda­hegðun og tækni­þró­un­ar, þá hafa íslenskir fjöl­miðlar staðið sig afburða­vel á und­an­förnum árum. Þeir hafa sýnt aðhald, rann­sakað og opin­berað ótrú­lega margt. Nægir þar að nefna umfjöllun um banka­hrunið og eft­ir­köst þess, Pana­ma-skjöl­in, Leka­málið og Borg­un­ar­málið svo fátt eitt sé nefnt.

En fjöl­miðlum er að blæða út. Starfs­manna­velta er ótrú­lega há. Laun eru allt of lág, starfs­um­hverfið er allt of íþyngj­andi og rekstr­ar­for­send­urnar sífellt að verða verri. Tals­verður hluti vinnu fjöl­miðla­manna er unn­inn í sjálf­boða­vinnu þar sem fáir borga yfir­vinnu eða álag og í þeim hraða sem ein­kennir nútíma­sam­fé­lag sam­fé­lags­miðla og snjall­síma má færa rök fyrir því að fjöl­miðla­fólk þurfi stans­laust að vera að fylgj­ast með. Sam­an­dregið gerir þetta það að verkum að við erum sífellt að missa gott fólk út af fjöl­miðl­un­um. Fólk með getu, þekk­ingu, sam­bönd, nægi­lega for­vitni og reynslu. Fjöl­miðl­arnir verða veik­ari fyrir vik­ið. Og efnið sem þeir birta verra. Fram undan er frek­ari sam­þjöppun eða rekstr­ar­stopp hjá mörgum þeirra.

Þessi staða hefur blasað við árum sam­an. Að sér­hags­muna­öfl halda uppi þorra einka­rek­inna fjöl­miðla í sam­keppni við rík­is­fyr­ir­tæki sem þrátt fyrir sín góðu verk tekur til sín allt of mikið súr­efni á sam­keppn­is­mark­aði og hefur stór­kost­lega vond áhrif á nýsköpun í fjöl­miðlum með fyr­ir­ferð sinni. Til hliðar er hand­fylli af minni sér­hæfð­ari miðlum sem reyna að lifa af í sam­keppni við lög­brjót­anna sem skila ekki opin­beru gjöld­un­um, sér­hags­muna­eig­end­urna með millj­arð­anna og rík­is­vald­ið.

Áður­nefnd sér­hags­muna­öfl hafa haft fullt gagn af því að fjár­magna tap­rekstur fjöl­miðla. Eig­endum Morg­un­blaðs­ins hefur tekist, í gegnum fjöl­miðla­rekst­ur, póli­tískan þrýst­ing og stuðn­ing við rétta stjórn­mála­flokka, að ná í gegn helstu áherslu­málum sín­um. Þeim tókst að koma umsókn að Evr­ópu­sam­band­inu frá, koma í veg fyrir breyt­ingar á stjórn­ar­skrá, hafa gríð­ar­leg áhrif á Ices­a­ve-­deil­una, kné­setja vinstri stjórn­ina og hindra breyt­ingar á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu. Á und­an­förnum mán­uðum hefur Kaup­fé­lag Skag­firð­inga síðan verið að taka við af útgerð­ar­mönn­unum sem helsti styrkt­ar­að­ili Morg­un­blaðs­ins. Það er kannski til­viljun að á sama tíma hefur áhersla blaðs­ins á ein­hliða umfjöllun um land­bún­að­ar­mál auk­ist til muna. En lík­lega ekki.

Hjá 365 var frægt þegar fjöl­miðl­arnir tóku við. Og herj­uðu, með prýði­legum árangri, á dóm­stóla og ákæru­vald í land­inu til að draga úr trú­verð­ug­leika þeirra, á sama tíma og skugga­eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins sat á saka­manna­bekk. Það er erfitt að setja verð­miða á frels­ið.  

Van­virð­ing og skiln­ings­leysi

Skipuð var nefnd í lok síð­asta árs til að fjalla um rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Hún hefur enn ekki skilað af sér. Miðað við það virð­ist staðan ekki vera tekin mjög alvar­lega. Að minnsta kosti er vand­séð að brugð­ist verði við henni í tíma. Og rétt­mætt að hafa áhyggjur af því að allar sér­tækar aðgerðir sem ráð­ist verði í muni fyrst og síð­ast gagn­ast stærstu einka­reknu fjöl­miðl­unum með lösk­uðu við­skipta­mód­el­in. Þeim sem haldið er á floti með millj­arða með­gjöf. Afleið­ingin verður lit­laus­ari og eins­leit­ari fjöl­miðlaflóra.

Núver­andi for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­innar tjáði sig um stöðu fjöl­miðla hér­lendis fyrir nákvæm­lega ári síðan. Þá sagði hann: „Hún­ ­ger­ist æ sterk­­ari til­­f­inn­ingin að vegna mann­eklu og fjár­­skorts séu við­kom­andi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um ­starf­­semi þar sem hver fer fram á eigin for­­send­­um. Engin stefna, ­mark­mið eða skila­­boð og þar með nán­­ast eng­inn til­­­gang­­ur, ann­ar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skipt­ast ­síðan á að grípa gjall­­­ar­hornið sem fjöl­mið­ill­inn er orð­inn ­fyrir þá og dæla út skoð­unum yfir sam­­fé­lag­ið. Ein í dag - önnur á morg­un. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Face­book­síðu og leyfa öllum að skrifa á vegg­inn?“ Hann bætti síðar á Alþingi að hann upp­lifi fjöl­miðla af þessu tagi ekki mark­verða og að ekki væri mark á þeim tak­andi. Það var í fyrsta sinn á frá því í umræðum um breyt­ingar á fjöl­miðla­lög­unum árið 2005 sem Bjarni Bene­dikts­son tjáði sig um fjöl­miðla úr ræðu­stól Alþing­is.

Ummælin sýndu algjöra van­virð­ingu gagn­vart íslenskum fjöl­miðlum og skiln­ings­leysi á eðli þeirra. Með þeim réðst hann að heilli starfs­stétt sem vinnur m.a. við að veita honum og öðrum ráða­mönnum aðhald.





Skortur á póli­tískum vilja

Þrátt fyrir að for­sæt­is­ráð­herr­ann telji flesta fjöl­miðla vera „lítið annað en skel“ hefur hann ekki lyft litlafingri til að beita sér fyrir bættu rekstr­ar­um­hverfi þeirra. Svo virð­ist sem að ráða­menn líti ekki á fjöl­miðla sem mik­il­væga stoð í lýð­ræð­is­ríki. Að til­urð fjöl­breyttrar flóru fjöl­miðl­unar skipti máli fyrir heil­brigða og sann­gjarna umræðu sem bygg­ist á stað­reynd­um. Frekar örlar á eft­ir­sjá eftir þeim tíma þegar flokks­blöðin lifðu góðu lífi og gátu miðlað upp­lýs­ingum í gegnum póli­tískar síur, í stað þess að réttur les­enda til að fá réttar upp­lýs­ingar og rétt sam­hengi væri settur í önd­vegi.

Það virð­ist ein­fald­lega eng­inn póli­tískur vilji vera til þess að breyta þess­ari stöðu. Og eðli­legt er að velta því af mik­illi alvöru fyrir sér hvort að það sé með­vituð ákvörðun að hunsa aðvör­un­ar­ljósin sem hafa blikkað árum saman fyrir augum stjórn­mála­manna. Hvort um sé að ræða skipu­lega eyði­legg­ingu íslenskra fjöl­miðla.

Það er póli­tísk ákvörðun að skikka ekki við­eig­andi stofn­anir til að fylgja lögum þegar fyr­ir­tæki brjóta þau stór­kost­lega með því að skila ekki opin­berum gjöldum til að verða sér úti um rekstr­ar­fé. Slíkt er á kostnað sam­keppn­is­að­ila sem reka sig í sam­ræmi við lög. Það er póli­tísk ákvörðun að taka ekk­ert á stöðu RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði sem er stór breyta í því að drepa nýsköpun í fjöl­miðl­un. Það er póli­tísk ákvörðun að nið­ur­greiða dreif­ingu sumra fjöl­miðla með opin­beru fé. Og það er póli­tísk ákvörðun að grípa ekk­ert inn í þegar stærstu einka­reknu fjöl­miðl­arnir eru að uppi­stöðu reknir í stór­kost­legu tapi fyrir fé sér­hags­muna­að­ila sem aug­ljós­lega beita þeim fyrir sig í völdum mál­um.

Það borgar nefni­lega alltaf ein­hver fyrir frétt­ir.

Hægt er að ganga í Kjarn­an­sam­fé­lagið og styrkja áfram­hald­andi starf Kjarn­ans með því að smella hér.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari