Kjarninn er fjögurra ára í næstu viku. Þá verða liðin fjögur ár frá því að fyrsta útgáfa hans leit dagsins ljós. Um var að ræða útgáfu sem byggði á hugsjón og rómantík. Hópur fólks setti nánast allt spariféð sitt í fjölmiðil sem átti að kafa dýpra, greina og setja hlutina í samhengi. Vera gagnrýninn en heiðarlegur og taka óhræddur þátt í umræðunni með því að styðjast við staðreyndir. Gera færri hluti en tíðkaðist á öðrum fjölmiðlum en gera þá vel.
Á þessum fjórum árum sem eru liðin þá hefur margt breyst. Kjarninn hefur þurft að breytast úr stafrænu vikulegu tímariti í vefmiðil sem rekur morgunpóst, hlaðvarpsþjónustu og enska fréttaþjónustu. Hann heldur úti, og utan um, Kjarnasamfélag og bætti nýverið við sig útgáfu Vísbendingar, rótgróins vikurits um efnahagsmál. Við höfum gert fjöldamörg mistök, en reynt að læra af þeim öllum í stað þess að stinga höfðinu í sandinn.
Það virðast margir furða sig á því hversu lengi Kjarninn hefur lifað. Hvernig það sé hægt á örmarkaði eins og þeim íslenska, með öllum hans sérkennilegheitum og strokum. Sérstaklega þegar stjórnmálamenn og annað áhrifafólk hefur tekið sig til og borið út alls kyns staðleysur og róg um miðilinn sem hefur á stundum haft veruleg áhrif á afkomumöguleika hans.
Ástæðurnar fyrir því að Kjarninn starfar enn eru að uppistöðu þrjár. Í fyrsta lagi er það þrjóska. Þeir sem að verkefninu stóðu unnu launalaust mánuðum saman og höfðu svo mikla trú á því að þeir ætluðu að láta það ganga. Í öðru lagi er það aðlögunarhæfni. Upphaflega hugmyndin að Kjarnanum, sem fallegt og gagnvirkt stafrænt tímarit, gekk ekki upp og við þurftum annað hvort að kyngja því eða breyta um kúrs. Það var nefnilega ekki efnið sem ekki var eftirspurn eftir, heldur formið. Því var hægt að breyta án þess að gefa nokkurn afslátt á því sem við stöndum fyrir.
Í þriðja lagi tókst okkur upprunalega ætlunarverkið. Að skipta máli á réttum forsendum. Lesendur treystu okkur betur en flestum öðrum fjölmiðlum og vantraustið er það minnsta sem mælist, að fréttastofum RÚV undanskildum.
Maður borðar ekki rómantík
Það er ekki góð hugmynd að stofna fjölmiðil í ríki með tæplega 340 þúsund íbúa sem tala tungumál sem enginn annar skilur. Sérstaklega þegar markaðsaðstæður eru mjög skakkar. Maður borðar nefnilega ekki rómantík.
Kjarninn hefur samtals tapað 39 milljónum króna á þeim heilu rekstrarárum sem hann hefur starfað. Við höfum getað það með stuðningi magnaðra hluthafa, hugsjónarfólks sem hefur ekkert annað erindi í aðkomu sinni að fjölmiðlarekstri en að styðja við gagnrýna og heiðarlega blaðamennsku.
Þetta tap hefur verið fjárfesting í uppbyggingu fjölmiðlafyrirtækis sem byrjaði á núlli og hefur það markmið að búa til sjálfbæran rekstur. Sem er ekki langt undan. Fyrirtækið er skuldlaust og hefur alltaf greitt alla sína reikninga. Þegar að aðlagast hefur þurft ófyrirséðum aðstæðum þá hefur það verið gert í gegnum reksturinn, með því að draga hann saman. Yfirbygging er engin og tæplega níu af hverjum tíu krónum sem við fáum í tekjur renna í laun starfsmanna. Á þessu tímabili hefur Kjarninn aldrei, aldrei, ekki staðið skil á opinberum gjöldum. Við höfum aldrei tekið lífeyrisgreiðslur, stéttarfélagsgreiðslur, meðlag eða annað sem dregið er af launum starfsfólks og á að skila til ríkissjóðs, og eytt í reksturinn. Enda er það ólöglegt og siðlaust.
Á þessum tíma höfum sett fjölmörg mál á dagskrá. Birt aragrúa frumgagna. Tekið þátt í umræðunni með staðreyndamiðuðum skoðanaskrifum. Greint stöðuna í stjórnmálum, efnahagslífi og viðskiptum. Veitt mikið og þarft aðhald. Fyrir það höfum við fengið tilnefningar og verðlaun. Og hátt í tvö þúsund manns hafa ákveðið að borga til okkar mánaðarlega svo við getum haldið áfram þessari vinnu. Sá stuðningur er ein meginástæðan fyrir því að við erum enn að.
Óheilbrigður markaður
Fjölmiðlaumhverfið hérlendis er nefnilega galið, og það virðist ekki vera neinn vilji til að breyta því. Það samanstendur af ríkisfyrirtæki sem fékk 3,8 milljarða króna af skattfé á síðasta ári. Til viðbótar hafði RÚV 2,2 milljarða króna í auglýsingatekjur á árinu 2016. Samtals gera þetta sex milljarðar króna.
Gróflega má áætla að tekjur RÚV af auglýsingasölu séu á bilinu 20-25 prósent af öllu því fé sem notað er til að kaupa auglýsingar á Íslandi. Þar skipta sjónvarpsauglýsingar og -kostanir ugglaust mestu máli, en RÚV ryksugar líka auglýsingar fyrir útvarps- og skjáauglýsingamarkað og eru þar í beinni samkeppni við t.d. netmiðla um auglýsingafé. Til viðbótar niðurgreiðir hið opinbera rekstur valinna einkarekinna fjölmiðla með því að auglýsa nær einvörðungu í þeim og með því að taka á sig tug milljóna kostnað við urðun dagblaðapappírs.
Auglýsendur, fyrirtækin í landinu, hafa heldur ekki sýnt nýsköpun og framþróun í fjölmiðlun mikinn stuðning. Auglýsingamynstur hérlendis er allt annað en í löndunum sem við miðum okkur við. Í nýlegri samantekt Fjölmiðlanefndar kom fram að 30,4 prósent af birtingum rati í prentmiðla. Árið 2015 var það hlutfall komið niður í 14 prósent í Noregi. Samantektin sýndi einnig að vefmiðlar voru farnir að taka til sín þriðjung auglýsingatekna í Noregi árið 2015. Í fyrra var hlutdeild íslenskra vefmiðla 16,5 prósent. Þar af fór að öllum líkindum 80 prósent hið minnsta til vefmiðla sem tengjast prentútgáfum, Vísis og Mbl.is. Tekjur annarra vefmiðla af auglýsingum eru frekar að dragast saman en hitt. Og þeir þurfa að horfa til annarra tekjustoða til að lifa af.
Einkarekni fjölmiðlamarkaðurinn er ekkert sérlega heilbrigður. Það tapa nánast allir peningum, þegar litið er framhjá bókhaldsbrellum. Sumir fara þá í þann leik að skuldsetja sig fyrir yfirtökum og borga ekki opinber gjöld, sem er glæpur, án þess að lögregla eða önnur til þess hæf yfirvöld grípi til neinna aðgerða vegna þeirra lögbrota. Staðan á stóru fjölmiðlafyrirtækjunum síðasta áratuginn er síðan vel þekkt. Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, hefur tapað nálægt 1,6 milljarði króna frá árinu 2009 og fengið milljarða afskriftir frá banka sem er nú í eigu íslenska ríkisins.
Hluthafar 365 hafa greitt 765 milljónir í nýtt hlutafé inn í félagið á allra síðustu árum. Það bætist við tap (ef skattaskuld sem þegar hefur verið greidd en ekki færð í rekstrarreikning) upp á tæplega 1,8 milljarða króna á árunum 2014 og 2015, um tíu milljarða króna skuldir og endurfjármögnun sem mjög erfitt er að sjá að hafi verið ráðist í á vitrænum viðskiptalegum forsendum. En stærsti hlutinn af 365 er nú að renna inn í Fjarskipti, þar sem til stendur að fækka störfum 365-megin um 41 með tíð og tíma. Líkur verða að teljast á því að meiri áhersla verði á afþreyingarhluta fjölmiðlunar en dýran og erfiðan fréttastofurekstur hjá Fjarskiptum. Það er meira að segja skiljanlegt, enda félagið skráð á markað og með allskyns viðskiptavini sem það vill ugglaust ekki styggja mikið með aðgangshörðum og gagnrýnum fréttaflutningi. Vonandi hef ég þó rangt fyrir mér varðandi þennan hluta og vistaskiptin verði til þess að Fréttastofa 365 blómstri sem aldrei fyrr.
Staðið sig afburðavel við fáránlega aðstæður
Þrátt fyrir þessa stöðu, og þá staðreynd að öll hefðbundin viðskiptamódel fjölmiðla eigi undir högg að sækja vegna breytinga á neytendahegðun og tækniþróunar, þá hafa íslenskir fjölmiðlar staðið sig afburðavel á undanförnum árum. Þeir hafa sýnt aðhald, rannsakað og opinberað ótrúlega margt. Nægir þar að nefna umfjöllun um bankahrunið og eftirköst þess, Panama-skjölin, Lekamálið og Borgunarmálið svo fátt eitt sé nefnt.
En fjölmiðlum er að blæða út. Starfsmannavelta er ótrúlega há. Laun eru allt of lág, starfsumhverfið er allt of íþyngjandi og rekstrarforsendurnar sífellt að verða verri. Talsverður hluti vinnu fjölmiðlamanna er unninn í sjálfboðavinnu þar sem fáir borga yfirvinnu eða álag og í þeim hraða sem einkennir nútímasamfélag samfélagsmiðla og snjallsíma má færa rök fyrir því að fjölmiðlafólk þurfi stanslaust að vera að fylgjast með. Samandregið gerir þetta það að verkum að við erum sífellt að missa gott fólk út af fjölmiðlunum. Fólk með getu, þekkingu, sambönd, nægilega forvitni og reynslu. Fjölmiðlarnir verða veikari fyrir vikið. Og efnið sem þeir birta verra. Fram undan er frekari samþjöppun eða rekstrarstopp hjá mörgum þeirra.
Þessi staða hefur blasað við árum saman. Að sérhagsmunaöfl halda uppi þorra einkarekinna fjölmiðla í samkeppni við ríkisfyrirtæki sem þrátt fyrir sín góðu verk tekur til sín allt of mikið súrefni á samkeppnismarkaði og hefur stórkostlega vond áhrif á nýsköpun í fjölmiðlum með fyrirferð sinni. Til hliðar er handfylli af minni sérhæfðari miðlum sem reyna að lifa af í samkeppni við lögbrjótanna sem skila ekki opinberu gjöldunum, sérhagsmunaeigendurna með milljarðanna og ríkisvaldið.
Áðurnefnd sérhagsmunaöfl hafa haft fullt gagn af því að fjármagna taprekstur fjölmiðla. Eigendum Morgunblaðsins hefur tekist, í gegnum fjölmiðlarekstur, pólitískan þrýsting og stuðning við rétta stjórnmálaflokka, að ná í gegn helstu áherslumálum sínum. Þeim tókst að koma umsókn að Evrópusambandinu frá, koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskrá, hafa gríðarleg áhrif á Icesave-deiluna, knésetja vinstri stjórnina og hindra breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Á undanförnum mánuðum hefur Kaupfélag Skagfirðinga síðan verið að taka við af útgerðarmönnunum sem helsti styrktaraðili Morgunblaðsins. Það er kannski tilviljun að á sama tíma hefur áhersla blaðsins á einhliða umfjöllun um landbúnaðarmál aukist til muna. En líklega ekki.
Hjá 365 var frægt þegar fjölmiðlarnir tóku við. Og herjuðu, með prýðilegum árangri, á dómstóla og ákæruvald í landinu til að draga úr trúverðugleika þeirra, á sama tíma og skuggaeigandi fyrirtækisins sat á sakamannabekk. Það er erfitt að setja verðmiða á frelsið.
Vanvirðing og skilningsleysi
Skipuð var nefnd í lok síðasta árs til að fjalla um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Hún hefur enn ekki skilað af sér. Miðað við það virðist staðan ekki vera tekin mjög alvarlega. Að minnsta kosti er vandséð að brugðist verði við henni í tíma. Og réttmætt að hafa áhyggjur af því að allar sértækar aðgerðir sem ráðist verði í muni fyrst og síðast gagnast stærstu einkareknu fjölmiðlunum með löskuðu viðskiptamódelin. Þeim sem haldið er á floti með milljarða meðgjöf. Afleiðingin verður litlausari og einsleitari fjölmiðlaflóra.
Núverandi forsætisráðherra þjóðarinnar tjáði sig um stöðu fjölmiðla hérlendis fyrir nákvæmlega ári síðan. Þá sagði hann: „Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“ Hann bætti síðar á Alþingi að hann upplifi fjölmiðla af þessu tagi ekki markverða og að ekki væri mark á þeim takandi. Það var í fyrsta sinn á frá því í umræðum um breytingar á fjölmiðlalögunum árið 2005 sem Bjarni Benediktsson tjáði sig um fjölmiðla úr ræðustól Alþingis.
Ummælin sýndu algjöra vanvirðingu gagnvart íslenskum fjölmiðlum og skilningsleysi á eðli þeirra. Með þeim réðst hann að heilli starfsstétt sem vinnur m.a. við að veita honum og öðrum ráðamönnum aðhald.
Skortur á pólitískum vilja
Þrátt fyrir að forsætisráðherrann telji flesta fjölmiðla vera „lítið annað en skel“ hefur hann ekki lyft litlafingri til að beita sér fyrir bættu rekstrarumhverfi þeirra. Svo virðist sem að ráðamenn líti ekki á fjölmiðla sem mikilvæga stoð í lýðræðisríki. Að tilurð fjölbreyttrar flóru fjölmiðlunar skipti máli fyrir heilbrigða og sanngjarna umræðu sem byggist á staðreyndum. Frekar örlar á eftirsjá eftir þeim tíma þegar flokksblöðin lifðu góðu lífi og gátu miðlað upplýsingum í gegnum pólitískar síur, í stað þess að réttur lesenda til að fá réttar upplýsingar og rétt samhengi væri settur í öndvegi.
Það virðist einfaldlega enginn pólitískur vilji vera til þess að breyta þessari stöðu. Og eðlilegt er að velta því af mikilli alvöru fyrir sér hvort að það sé meðvituð ákvörðun að hunsa aðvörunarljósin sem hafa blikkað árum saman fyrir augum stjórnmálamanna. Hvort um sé að ræða skipulega eyðileggingu íslenskra fjölmiðla.
Það er pólitísk ákvörðun að skikka ekki viðeigandi stofnanir til að fylgja lögum þegar fyrirtæki brjóta þau stórkostlega með því að skila ekki opinberum gjöldum til að verða sér úti um rekstrarfé. Slíkt er á kostnað samkeppnisaðila sem reka sig í samræmi við lög. Það er pólitísk ákvörðun að taka ekkert á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði sem er stór breyta í því að drepa nýsköpun í fjölmiðlun. Það er pólitísk ákvörðun að niðurgreiða dreifingu sumra fjölmiðla með opinberu fé. Og það er pólitísk ákvörðun að grípa ekkert inn í þegar stærstu einkareknu fjölmiðlarnir eru að uppistöðu reknir í stórkostlegu tapi fyrir fé sérhagsmunaaðila sem augljóslega beita þeim fyrir sig í völdum málum.
Það borgar nefnilega alltaf einhver fyrir fréttir.
Hægt er að ganga í Kjarnansamfélagið og styrkja áframhaldandi starf Kjarnans með því að smella hér.