„Klisjan um vaxandi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræðunni. Staðreyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt árlegri úttekt OECD á jöfnuði meðal þjóða. En því er engu að síður haldið fram að launaójöfnuður sé sjálfstætt vandamál og vaxandi. Sá málflutningur stenst enga skoðun eins og niðurstöður OECD bera skýrt með sér.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á miðvikudag. Og endurtók þar með þann leik enn og aftur að láta sem munur á launum væri eini mælikvarði á jöfnuð á pínulitla landinu okkar. Enn og aftur er því tilefni til að benda forsætisráðherra og öllum hinum sem endurtaka þessa möntru brauðmolakenningarinnar að svo er ekki.
Eignir, ekki laun
Ójöfnuður á Íslandi birtist fyrst og fremst í ójafnri skiptingu eigna. Hann felst í því að eigið fé landsmanna jókst um 370 milljarða króna á árinu 2015. Þar af fór 123,4 milljarðar króna til þeirra fimm prósent landsmanna sem áttu mest, eða þriðjungur af öllu nýju eigin fé. Alls áttu ríkasta fimm prósent landsmanna 44,4 prósent af öllu eigin fé landsmanna þegar árið 2016 byrjaði.
Hann birtist í því að ríkasta eitt prósent landsmanna átti fimmtu hverju krónu sem landsmenn áttu í eigin fé í lok árs 2015. Hann birtist í því að á þeim tíma hafi 0,1 prósent landsmanna átt 187 milljarða króna í eigin fé og að sú eign þess hóps, sem telur nokkur hundruð manns, hafi aukist um 20 milljarða króna á því ári einu saman.
Ójöfnuðurinn birtist í því að frá árinu 1997 og fram til loka árs 2015 jókst eigið fé 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar úr 25,3 milljörðum króna í 187,3 milljarða króna. Eigið fé ríkasta eins prósents landsmanna jókst úr 89,1 milljarði króna í 559,5 milljarða króna. Og eigið fé ríkustu fimm prósenta landsmanna jókst úr 207,3 milljörðum króna í 1.249 milljarða króna. Það efsta lag jók auð sinn um 1.042 milljarða króna á 18 árum og áttu í lok árs 2015 44,4 prósent alls eiginfjár í landinu. Hvernig vitum við þetta? Jú, Bjarni Benediktsson sagði okkur það í svari við fyrirspurn fyrir rétt tæpu ári síðan.
Þau 70 prósent landsmanna sem áttu minnstar eignir áttu 27,2 milljarða króna árið 1997. Þau átti 16,2 milljarða króna samanlagt í eigið fé í árslok 2015.
Lítill hópur á fjármagnið
Íslenska kerfið virkar þannig að mjög lítill hópur landsmanna á fjármagnið. Hagtölur sýna t.d. að 86 prósent verðbréfa sem eru í eigu einstaklinga eru í eigu tíu prósent ríkustu Íslendinganna. Hin 90 prósentin, sem eru að mestu launafólk eða bótaþegar, eiga nánast engar fjármálalegar eignir, væntanlega vegna þess að þau hafa ekki fjárhagslegt svigrúm til að eignast slíkar. Þótt hagtölur sýni að þessi hópur sé sífellt að eignast meira þá er sú eign nánast einvörðungu bundin í eigin fé í húsnæði sem er erfitt að leysa út ef viðkomandi vill áfram búa einhversstaðar.
Þegar horft er á þær tölur sem birtar hafa verið vegna ársins 2016 þá er lítið í þeim sem bendir til annars en að þeir ríku séu einfaldlega stanslaust að verða ríkari hérlendis. Samkvæmt álagningu opinbera gjalda einstaklinga vegna síðasta árs fengu 3.682 fjölskyldur, tæplega tvö prósent allra fjölskyldna landsins, hagnað vegna hlutabréfasölu upp á 28,7 milljarða króna. Söluhagnaður jókst um 39,1 prósent milli ára þrátt fyrir að fjölskyldum sem töldu fram söluhagnað hafi einungis fjölgað um 5,4 prósent.
Nettóeign heimila landsins jókst um 415,2 milljarða króna í fyrra. Enn á eftir að birta hagtölur um hvernig það viðbótar fé skiptist á milli laga samfélagsins. En ef hlutfallsskiptingin verður eins og hún var á árinu 2015 þá munu ríkustu tíu prósent landsmanna hafa fengið í sinn hlut 179 milljarða króna af nýjum peningum á síðasta ári, eða 43 prósent af allri nýrri hreinni eign.
Það sem hrynur af veisluborðinu er skattlagt meira
Á sama tíma hafa laun þorra landsmanna, sem vinna hjá fjármagnseigendunum, þó vissulega hækkað. Ráðstöfunartekjur þeirra hafa aukist enda Ísland orðið miklu ríkara, fyrst og fremst með nýtingu náttúruauðlinda sem eiga að heita í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Sú hækkun er þó ekki í neinu hlutfalli við það sem auður efsta lagsins hefur vaxið. Brauðmolar hafa hrunið af borðinu en það er enginn vafi á því að lítill hópur innan samfélagsins borðar þjóðarkökuna án þess að gefa neitt sem máli skiptir með sér.
Á sama tíma og ráðstöfunartekjur lægstu hópanna hafa aukist hefur skattbyrði þeirra líka þyngst umfram það sem er lagt á efstu lögin í samfélaginu. Árið 1998 var skattbyrði hinna lægst launuðustu í íslensku samfélagi fjögur prósent. Nú er hún 16 prósent. Samhliða hefur munurinn á skattbyrði þeirra fátækustu og þeirra ríkustu minnkað og tekjujöfnunarhlutverk ríkisins hefur dregist saman. Þ.e. skattbyrðinni hefur verið dreift þannig að þeir lægst launuðustu borga meira af ráðstöfunartekjum sínum í skatta en þeir sem eru ríkari.
Og þrátt fyrir hina ægilegu efnahagslegu velsæld þá fyrirfinnst umtalsverð fátækt í 340 þúsund manna samfélaginu okkar. Í árslok 2014, sem eru nýjustu tölur sem til eru, sögðust 11,9 prósent landsmanna að þeir ættu mjög erfitt með að láta enda ná saman. Í skýrslu Unicef á Íslandi, sem birt var í byrjun árs 2016, kom fram að 9,1 prósent barna á Íslandi hafi liðið efnislegan skort þegar árið 2015 rann í garð. Það voru 6.100 börn. Rúmur fjórðungur þeirra leið verulegan efnislegan skort. Árið 2009, einu ári eftir bankahrunið, var það hlutfall fjögur prósent. Fjöldi barna sem líður efnislegan skort hefur því margfaldast.
Rofin sáttmáli
Klisja þýðir eitthvað sem er endurtekið oft. Og það er ástæða fyrir því að það er endurtekið oft að ójöfnuður ríki á Íslandi. Að gæðunum sem verða til í þessu auðlindrifna fákeppnisamfélagi, þar sem aðgengi að upplýsingum, tækifærum og peningum annarra skiptir öllu þegar menn vilja komast í álnir, sé verulega misskipt. Ástæðan fyrir því að þetta er endurtekið í sífellu er vegna þess að þetta er satt. Það er einfaldlega staðreynd að hinir ríku eru sífellt að verða miklu ríkari hérlendis.
Eðli íslensks samfélags breyttist á árunum fyrir hrun. Hér var rofinn samfélagssáttmáli. Það rof varð vegna þess að hópur fjármagnseigenda sagði sig úr samfélagi við þjóðina sem hann tilheyrði. Hann taldi sig betri og eiga meira skilið. Og telur enn. Afleiðingin var aukin lagskipting og aukið vantraust. Aukin reiði, vanlíðan og árekstrar manna á milli.
Íslendingar eru þrátt fyrir ægilegan efnahagsuppgang, þunglyndasta Evrópuþjóðin samkvæmt nýrri könnun OECD. Hér eru 14 prósent allra á aldrinum 24-64 ára þunglyndir á meðan að meðaltalið í OECD-ríkjunum er átta prósent. Verst er staðan hjá ungu fólki. Árið 2007 mátu 16,8 prósent Íslendinga á aldrinum 18-24 ára andlega heilsu sína sæmilega eða lélega. Í fyrra var það hlutfall komið í 36,2 prósent. Og Íslendingar eru ekki ánægðir með þá sem ráða hér. Einungis 27 prósent styðja ríkisstjórnina og um fimmtungur treystir Alþingi.
Í stað þess að takast á við þessa stöðu með breytingum er hún afgreidd sem geðveiki í fólki sem sjái ekki hversu ástandið sé gott á Íslandi. Einn helsti stuðningsmaður samfélagssáttmálarofsins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, afgreiðir alla óánægju í samfélaginu sem leiðindi í vinstri mönnum. Í stöðuuppfærslu í gær sagði hann að þeir þurfi að „vera sínöldrandi út af smámunum, mega ekki græða á daginn og hafa ekki efni á því að grilla á kvöldin.“ Þetta kemur frá hugmyndafræðilega gjaldþrota manni sem þurfti að horfa á ríkið og almenning grípa nýfrjálshyggjutilraunina hans í fangið þegar fordæmalaus græðgi, vanhæfni, siðrof og glæpir höfðu siglt henni í strand haustið 2008. Það var ekki mikið „hægri“ í því.
Sumir eru jafnari en aðrir
Sannleikurinn er sá að fyrirmyndarsamfélagsgerð manna eins og Hannesar snýst fyrst og síðast um að sumir séu jafnari en aðrir. Alveg eins og ömurlegustu útfærslur á sósíalisma. Hún snýst um algjöran skort á samkennd og samfélagslegri vitund. Þar sem samfélagið er til fyrir hina fáu í stað þess að þeir séu hluti af samfélaginu. Menn eins og Hannes eru orðnir að nákvæmlega því sem þeir segjast fyrirlíta mest.
Staðan á íslensku samfélagi snýst ekki um hægri eða vinstri. Það er smjörklípa að reyna að stilla fólki upp í þannig andstæður, og með vilja gert til að láta fólk takast á um aukaatriði.
Kapítalismi snýst nefnilega ekki bara um peninga og völd heldur líka um frelsi, sanngirni, jafnræði og tækifæri. Og margt í grundvallar hugmyndafræði hans er samfélaginu mjög til framdráttar. Tryggir að menn geta með elju og hugmyndaauðgi bætt samfélagið sitt og eigin stöðu á sama tíma. Á sama hátt snýst sósíalismi ekki bara um forræðishyggju og öfund heldur um samkennd og jöfnuð.
Því sem var troðið upp á okkur að óþörfu
Það kerfi sem við rekum hér á Íslandi á því ekkert skylt hægrimennsku og þær eðlilegu kröfur sem uppi eru um jafnara og sanngjarnara samfélag eru fjarri því að vera einhvers konar öfgakennd vinstrimennska. Þorri Íslendinga er enda þeirrar skoðunar að hér eigi að reka sterkt velferðarkerfi, sem grípur þá sem minnst mega sín í samfélaginu, en bjóði á sama tíma upp á tilveru þar sem hver sé sinnar gæfu smiður.
Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og Sjálfstæðismaður í hartnær hálfa öld, orðaði þetta vel í grein sem birtist nýverið á Kjarnanum: „Nýfrjálshyggjunni var troðið upp á okkar litla, norræna velferðarsamfélag, sem hafði reyndar slegið öll met meðal vestrænna þjóða í hagvexti og velmegun og þurfti ekki á henni að halda. Hvergi á byggðu bóli var jöfnuður meiri: Læknar, flugstjórar og forstjórar létu sér nægja fimmföld lægstu laun.[...]Forstjórarnir brutust úr samflotinu við lækna og flugstjóra, enda ráða þeir launum sínum sjálfir.[...]Það segir svo sína sögu að engin mistök voru viðurkennd opinberlega, það má ekki gera í íslenskri pólitík, engri stefnu var því breytt.“
Það má taka undir þetta. Vonast til þess að mistök verði viðurkennd. Og að stefnunni verði breytt. Að okkur beri gæfa til að finna samkenndina að nýju. Því annars verður engin friður. Og sannarlega ekki skrifað undir nýjan samfélagssáttmála.