Fyrir skemmstu birti Kjarninn fréttaskýringu um skiptingu eigin fjár milli hópa samfélagsins. Niðurstaða hennar var skýr, líkt og fyrri ár þegar Kjarninn hefur gert slíkt. Misskipting er að aukast í íslensku samfélagi.
Skömmu síðar birti Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem hann kallaði „Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi“. Niðurstaða greinar hans er sú að það sé ekki ójöfnuður í tekjum né eignum hérlendis. Halldór Benjamín segir reyndar í grein sinni að eignajöfnuður sé „flókið hugtak og einfaldur samanburður erfiður.“ Þar hefur hann rétt fyrir sér.
Það er nefnilega þannig að þótt Halldór Benjamín hafi komist að allt annarri niðurstöðu en sýnd var í fréttaskýringu Kjarnans, með því að skoða nákvæmlega sömu gögn frá Hagstofunni, þá er niðurstaða hans ekki röng. Ekki frekar en niðurstaða Kjarnans.
Munurinn er sá að hann kýs að horfa á eignaskiptingu og ójöfnuð út frá hlutfallstölu en í fréttaskýringu Kjarnans er horft á hana út frá krónutölu.
Hinar súrrealísku sveiflur
Launamunur er almennt mjög lítill hérlendis. Þegar krónan er veik, sem er nú nokkuð algengt þótt við séum í styrkingarsveiflu núna, þá eru laun hérlendis lág í samanburði við önnur svæði í kringum okkur. Það á jafn við um háu og lágu launin. Raunar má færa sterk rök fyrir því að launamunur hér sé of lítill. Menntun er til að mynda ekki metin nægilega mikið til launa til að það felist hvati í því að sækja sér hana. Það getur valdið okkur sem samfélagi miklu tjóni þegar fram í sækir, enda bein fylgni milli aukinnar menntunar og hagsældar.
En misskiptingin sem við búum við, og litar alla samfélagsgerð okkar, snýst ekki um laun. Hún snýst um eignir. Og tekjur sem eigendur þeirra hafa af þeim. Hluti fjármagnstekna eru nefnilega ekki inni í þeim tölum sem reikna út launajöfnuð hérlendis. T.d. tekjur sem myndast vegna sölu hlutabréfa. Á Íslandi er lítill hluti þjóðarinnar sem á mikið af eignum og hefur miklar tekjur af. Svo er stór hluti sem vinnur hjá litla hlutanum.
Það er mjög auðveldlega hægt að komast að þeirri niðurstöðu að misskipting eigna á Íslandi sé ekki að aukast. Það er gert með því að horfa á hana hlutfallslega, líkt og Halldór Benjamín valdi að gera. Með því er hægt að sjá að eignamesta tíund landsmanna, rúmlega 20 þúsund manns, eigi 62 prósent alls eiginfjár nú, og að það sé undir meðaltali síðustu 20 ára, sem er 64 prósent.
Eðlilegra er að horfa á þessar hlutfallstölur með öðrum hætti, í ljósi þess að íslenskt hagkerfi er einn samfelldur rússíbani og niðursveiflurnar ýkja ástandið gríðarlega. Það mætti til að mynda horfa á árið 1997 áttu efsta tíundin 56,3 prósent af öllu eigin fé, eða mun minna en nú. Hlutfall þess sem hún átti jókst síðan jafnt og þétt á næstu árum. Ástæða þess að meðaltalshlutfallið er svona gríðarlega hátt fyrir síðustu 20 ár eru þær súrrealísku aðstæður sem sköpuðust hér eftir hrun, þegar eigið fé „venjulegs“ fólks þurrkaðist nánast út tímabundið vegna verðbólguskots og afleiðingar yfirskuldsetningar vegna húsnæðiskaupa. Árið 2009 fór hlutfall efstu tíundarinnar af öllu eigin fé yfir 77 prósent og árið eftir í heil 86 prósent. Ástæðan þá var einfaldlega sú að vel rúmlega 80 prósent landsmanna var þá samanlagt með neikvætt eigið fé. Ríkustu 20 prósent landsmanna átti árið 2009 103 prósent af öllum eignum.
Bydgoszcz og Varna
En það er líka mjög auðvelt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri sem Halldór Benjamín kemst að. Niðurstöðu sem er réttari í ljósi þess að Ísland er 340 þúsund manna þjóð. Það þýðir að hér búa aðeins færri en í Bydgoszcz í Póllandi eða í Wuppertal í Þýskalandi, en aðeins fleiri en í Varna í Búlgaríu eða Wakefield í Englandi.
Við erum líka auðlindadrifið fákeppnissamfélag. Þ.e. grunnur að stórum hluta auðs er annað hvort til kominn vegna þess að viðkomandi hefur hagnast á nýtingu auðlinda sem eiga að heita í sameign þjóðar eða vegna aðgengis að tækifærum, upplýsingum eða fjármunum annarra sem einhver í áhrifastöðu hefur veitt honum.
Þrátt fyrir að Íslendingar geri margt vel þá eru þeir nefnilega ekki mikið að búa til alþjóðleg hugvitsfyrirtæki. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, sagði til að mynda í viðtali við Kjarnann fyrir um ári síðan að síðan CCP var stofnað fyrir um 20 árum hafi ekki mörg slík fyrirtæki náð yfir tíu milljónir dali á ári í tekjum. „Meniga og Nox Medical eru líklega komin yfir, og ORF líftækni komið nálægt. Á 20 árum hefði maður haldið að þetta væru fleiri. Staðan er því þannig að við erum með tvö alþjóðafyrirtæki á tæknigeiranum með veltu á bilinu 500-1000 milljónir dala, sem eru Össur stofnað fyrir rúmum 40 árum og Marel stofnað fyrir rúmum 30 árum. Svo erum við hjá CCP um 20 ára með um 100 milljónir dala veltu og Meniga og Nox Medical, að fara yfir tíu milljónir dali. Þetta er kannski ágætur árangur miðað við höfðatölu, en hann er samt ekkert rosalegur.“
Um helmingur þess auðs sem verður til fer til efsta lagsins
Í úttektum Kjarnans á skiptingu gæðanna hérlendis hefur því alltaf verið horft á krónutölur þegar verið er að horfa á eignaskiptingu eða skiptingu á eigin fé. Það sé til að mynda ekki réttmætt að segja að ef einstaklingur í lægri millistétt ávaxti eigið fé sitt upp á 100 þúsund krónur um tíu prósent og að mjög efnaður fjármagnseigandi sem á einn milljarð króna ávaxti sitt fé um sömu hlutfallstölu, að þá sé ójöfnuður milli þeirra ekki að aukast. Annar fær tíu þúsund krónur út úr slíkri hlutfallslegri ávöxtun en hinn 100 milljónir króna. Munurinn er 99.990 þúsund krónur.
Í þeim tölum sem hafa verið birtar sem sýna meira niðurbrot á því hvar þessi auður lendir þá kemur líka skýrt fram að efsta lagið í þessari efstu tíund tekur mest til sín.
Hrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst til að mynda um 20 milljarða króna á árinu 2015. Hún hafði ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð manns, 187 milljarða króna í eigin fé í lok árs 2015. Hlutfallsleg eign hópsins af heildar eigin fé landsmanna lækkaði á milli ára en þessi hópur fjölgaði hins vegar krónunum í vasa sínum mun meira en nokkur annar. Þannig átti 0,1 prósenta hópurinn þriðjung af allri hreinni eign ríkasta prósent landsmanna, sem á móti átti fimmtung af öllu eigin fé í landinu í lok árs 2015. Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, þá fjármála- og efnahagsráðherra en nú forsætisráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna á árinu 2015 sem birt var á vef Alþingis fyrir um ári síðan.
Efsta lagið á nær öll verðbréfin
Þótt að tölur Hagstofunnar um eigið fé landsmanna séu bestu fáanlegu hagtölur sem við eigum til að átta okkur á misskiptingu gæðanna hérlendis þá eru þær þó fjarri því fullkomnar. Þær vanmeta nefnilega auð fjármagnseigendanna í efsta laginu mjög.
Það sést til að mynda af því að þorra aukningar eigin fjár á undanförnum árum hjá öllum hópum má rekja til gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. „Venjulegt“ fólk, sem á ekki fjármagnseignir, á nær allt sitt eigið fé bundið í steinsteypu, ekki laust fjármagn sem skilar því ávöxtun. Það er erfitt að losa þetta fé. Viðkomandi losar það fyrst og síðast ef hann flytur erlendis og inn á nýjan markað eða ef einhver deyr og hann erfir eignina. Annars nýtist hún fyrst og síðast í að kaupa sér aðra fasteign, sem hefur líka hækkað í verði.
Hin breytan er sú að hlutabréf eru metin á nafnvirði í tölum Hagstofunnar, ekki markaðsvirði. Og eignarmestu tíu prósent landsmanna eiga nánast öll hlutabréfin (86 prósent) sem einstaklingar eiga hérlendis. Reyndar liggur fyrir að efsta lagið í þeim hópi á þorra þessara bréfa. Í fyrra greiddu tvö prósent fjölskyldna landsins til að mynda fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum. Söluhagnaðurinn var 28,7 milljarðar króna og hækkaði um 38,3 prósent milli ára.
Hlutabréfaeign er því verulega vanmetin í tölum Hagstofunnar.
Verulega vanmetnar eignir þeirra ríkustu
Til viðbótar má bæta að margir, sem mestar líkur eru á að tilheyri efri eignatíundum, geyma eignir sínar, þar með talið innistæður og skuldabréf, í eignarhaldsfélögum með litlu útgefnu hlutafé. Þetta er breyta sem bæði skattyfirvöld og Hagstofan eru meðvituð um, enda 35 þúsund einkahlutafélög skráð í landinu. Efnaður einstaklingur gæti þar af leiðandi geymt allskyns eignir inni í einkahlutafélagi sem væri mögulega hundruð milljóna, eða jafnvel milljarða króna virði, en á skattframtali er eign viðkomandi einungis skráð sem 500 þúsund króna hlutafé sem greitt var inn í eignarhaldsfélagið við stofnun.
Inn í ofangreindar tölur vantar svo allar þær eignir sem Íslendingar eiga erlendis, en hafa ekki verið taldar fram hérlendis. Þ.e. þær eignir sem eru geymdar, eða faldar, í skattaskjólum. Vísbendingar um umfang þeirrar eignar komu fram í skýrslu um aflandseignir Íslendinga og skattaundanskot vegna þeirra, sem var birt snemma í janúar eftir ítrekaðar fyrirspurnir Kjarnans um birtingu á skýrslunni. Hún hafði þá verið tilbúin í rúma þrjá mánuði, eða frá því fyrir kosningarnar 29. október 2016.
Í skýrslunni kom fram að aflandsfélagavæðingin hafi haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vangoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum þegar illa árar í íslensku efnahagslífi en stýrt fé aftur heim til að kaupa eignir á brunaútsölu í niðursveiflum.
Það eru fyrst og síðast fjármagnseigendur sem tilheyra eignarmesta hluta landsmanna og voru í virðismesta hluta viðskiptavina gömlu bankanna sem bauðst að stofna aflandsfélög í „skattahagræðingarskyni“.
Það er því nær öruggt að tölur Hagstofunnar vanmeta mjög eignir efstu tekjuhópanna.
Það er allt hægt þegar viljinn er fyrir hendi
Samandregið er oft hægt að fá út þá niðurstöðu sem menn vilja út hagtölum. Þegar kemur að skiptingu nýs auðs þá velur framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að notast við hlutfallstölur og fær út niðurstöðu sem er ekki röng. En að mínu mati sýnir hún mjög skakka mynd af raunveruleikanum líkt og rakið er hér að ofan. Það að sýna þá mynd eftir því hvernig krónur skiptast er nefnilega líka rétt og sýnir að mínu mati mun skýra mynd af stöðunni.
Halldór Benjamín skipti raunar yfir í krónutölur hann ræddi tryggingagjaldið við Fréttablaðið í síðustu viku. Þar sagði hann frá því að það væri áætlað að það skili um 90 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári en að það hafi skilað 70 milljörðum króna árið 2013 þegar atvinnuleysi var mun meira en það er í dag. Þetta er réttmæt gagnrýni hjá honum og það er óskiljanlegt að tryggingagjaldið hafi ekki verið lækkað. Umfang þess bitnar ekki síst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. En þrátt fyrir að tryggingagjald eigi að skila um 20 milljörðum króna meira í ríkiskassann á næsta ári en árið 2013 er hlutfall þess af tekjum ríkissjóðs nánast það sama.
Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning og það reynum við ávallt að gera með því að notast við staðreyndir, setja þær í samhengi og sýna fram á raunsanna mynd af ástandi. Það er síðan stjórnmálamanna að ákveðna hvort sú raunsanna mynd sé boðleg eða ekki. Og almennings að kjósa þá stjórnmálamenn og -flokka sem þeim finnst boða þær lausnir sem honum líst best á.
Við erum ekki í neinum vafa um að sú leið sem farin hefur verið í Kjarnanum til að sýna fram á skiptingu gæðanna á Íslandi er sú réttasta. Og að misskiptingin sé auk þess verulega vanmetin í þeim tölum sem Hagstofan birtir.
Það borðar engin hlutfallstölur. Og þær borga ekki fyrir húsaskjól.