Gengið verður til kosninga á laugardaginn og óhætt að segja að þessi mánaðarlanga kosningabarátta hafi einkennst af loforðaflaumi sem fæstir ná líklega að fylgja eftir.
Ég hef þá trú að upp úr kössunum komi stjórnarkreppa. Í ljósi þess hvernig stjórnmálin hafa verið undanfarið, í hálfgerðu upplausnarástandi, þá gæti utanþingsstjórn komið til greina, en líklegast þykir manni að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái góðan möguleika á því að mynda ríkisstjórn.
En það eru ennþá þrír daga til stefnu og fylgið getur skolast rækilega til á þeim tíma.
Staðan á Alþingi hefur ekki verið til að auðvelda lífið fyrir Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, svo mikið er víst, og staðan við stjórnarmyndun núna, gæti jafnvel verið enn snúnari en hún var í fyrra.
Eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni hefur verið ný sýn á fjármálakerfið og ríkisreksturinn í leiðinni, þar sem horft er til þess mikla eigin fjár sem er í endurreistu bönkunum.
Samkvæmt minnisblaði Bankasýslu ríkisins þá er talið að svigrúmið til að greiða arð úr bönkunum til ríkisins, án þess að raska stoðum bankanna, sé um 120 milljarðar króna, miðað við eignarhlutföllin sem tilheyra ríkinu.
Íslenska ríkið á ríflega 70 prósent hlut af eigin fé Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, og því miklir hagsmunir í húfi fyrir skattgreiðendur.
Samanlögð hlutdeild ríkisins í eigin fé endurreistu bankanna nemur 456,4 milljörðum króna, miðað við stöðuna eins og hún var um síðustu áramót. Landsbankinn er 98 prósent í eigu ríkisins, Íslandsbanki 100 prósent og Arion banki 13 prósent.
Því miður óttast maður að vinsældarbrölt taki völdin hjá stjórnmálamönnum og þeir fari að hugsa hvernig best sé að eyða peningunum sem koma úr opinberum fyrirtækjum á næstu árum í formi arðgreiðslna.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í vikunni þá er umfang verðmæta hins opinbera í tíu stærstu fyrirtækjum landsins með nokkrum ólíkindum. Af 1.260,8 milljarða samanlögðu eigin fé fyrirtækjanna þá tilheyra ríflega 790 milljarðar hinu opinbera, og 666,2 milljarðar ríkinu beint. Reykjavíkurborg á 95 prósent hlut í Orkuveitu Reykjavíkur en mikið eigið fé hefur byggst þar upp á undanförnum árum og nam það 128 milljörðum um síðustu áramót.
Útlit er fyrir það að arðgreiðslur til ríkisins úr bankakerfinu og frá Landsvirkjun muni skipta tugum milljarða á næstu árum. Eigið fé Landsvirkjunar nam ríflega 205 milljörðum um síðustu áramót, en fjárhagur fyrirtækisins hefur verið að styrkjast jafnt og þétt á síðustu árum.
Ný ríkisstjórn mun vafalítið standa frammi fyrir freistnivanda um hvað sé best að gera við þessa peninga.
Stærsti parturinn mætti fara beint í greiðslu til komandi kynslóða með því að greiða niður skuldir, en einhver hluti gæti einnig farið í tímabærar innviðafjárfestingar í mennta-, heilbrigðis-, löggæslu-, og samgöngumálum. Þær þola ekki mikla bið, sé mið tekið af upplýsingum sem komið hafa fram um það frá okkar færustu sérfræðingum. Undirfjármagnaðir innviðir eru alvarlegt mál fyrir hagkerfið og við þeirri stöðu þarf að bregðast.
Sé mið tekið af stöðunni eins og hún er núna þá gætu komið til ríkisins 30 til 40 milljarðar árlega í formi arðgreiðslna á næstu árum. Full ástæða er til þess að fara vel með það fjármagn, og er hugmyndin um stöðugleikasjóð mikilvæg og góð í því samhengi.