Það er stundum áhugavert að sjá samfélagið okkar í gegnum augu utanaðkomandi. Útlendingar sjá fernt. Í fyrsta lagi mikla efnahagslega velmegun hjá örþjóð. Í öðru lagi ótrúlegt magn stórkostlegra listamanna miðað við höfðatölu. Í þriðja lagi mikið óþol fyrir spilltri yfirstétt, sem við mótmælum kröftulega og reglulega, en kjósum svo alltaf aftur yfir okkur. Og í fjórða lagi knattspyrnu.
Í kjölfar þess að íslenska karlalandsliðið tryggði sér farseðil á heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar skapaðist mikil umræða um það í erlendum fjölmiðlum. Margt var týnt til þegar útskýra átti hvernig land með jafn marga íbúa og Wuppertal í Þýskalandi hefði komist á EM í Frakklandi 2016, unnið það mót án þess að lenda í fyrsta sæti, og væri nú komið á HM í Rússlandi eftir að hafa unnið riðilinn sinn í undankeppni.
Klisjurnar sem farið var með eru margtuggnar. Að skömmu fyrir síðustu aldarmót hafði þessi veðurbarna þjóð áttað sig á því að hún myndi líklega ekki ná neinum árangri í knattspyrnu með því að spila á malarvöllum í aftakaveðri og myrkri átta mánuði á ári. Þess vegna var ráðist skipulega í að byggja tíu knattspyrnuhallir og á þriðja tug gervigrasvalla. Samhliða bættri aðstöðu þá hafi menntun þjálfara verið aukin.
En er þessi mikli árangur einungis afleiðing af fyrirmyndarskipulagi og hárnámkvæmri framkvæmd þess? Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði, er ekki alveg sannfærður um það. Hann skrifaði grein í Kjarnann fyrir um mánuði síðan þar sem hann færði rök fyrir því að Ísland hafi gert vel í því að nýta sér þau tækifæri sem eru tilkomin vegna tilvistakreppu margra þaulreyndra knattspyrnuþjóða sem Viðar telur að sé vegna „alþjóðlegrar þróunar sem felur í sér aukna atvinnuvæðingu, markaðsvæðingu og stjörnudýrkun sem hefur myndað kúltúr í íþróttum sem ýtir undir einstaklingshyggju, græðgi, firringu og jafnvel spillingu.“
Hann færir rök fyrir því að slík menning, þar sem einstaklingshyggju er hampað á kostnað heildarhyggju, sé sérstaklega óheppileg í hópíþróttum. Til þess að byggja upp lið þurfi að vinna saman og „nýta sér allar bjargir til að ná árangri í harðri keppni.“
Það er ekki á neinn hallað þegar sagt er að íslensku landsliðsmennirnir í knattspyrnu eru nánast allir langt frá því að vera bestu leikmenn heims. Flestir eru annað hvort að spila utan elítudeilda Evrópuboltans og margir eiga í stökustu vandræðum með að komast að hjá félagsliðunum sínum. En þegar þeir mæta í landsliðsverkefni þá smellur allt. Heild verður til úr brotunum sem mynda hana. Og með slíkri heild, þar sem takmarkið og félagarnir eru settir í fyrsta sæti, en einstaklingsmarkmiðið sett kyrfilega til hliðar, þá myndast tiltrú, jákvæðni og kraftur sem gerir það að verkum að hin nýja eining –liðið – getur flutt fjöll.
Íslendingar eru ekki með betra erfðamengi en aðrar þjóðir. Við erum ekki ofurmenni af náttúrunnar hendi. En þegar við stöndum saman og vinnum að hag heildarinnar þá getum við sem samfélag flutt fjöll. Við njótum góðs að sterkum efnahagsstoðum sem landið færir okkur og höfum öll hráefni til þess að byggja hér upp yfirburðarsamfélag. En þá þurfum við að hafa þessi gildi sem einkenna knattspyrnulandsliðið okkar í hávegum og sem leiðarljós. Gildi eins og samvinnu, heiðarleika, fornfýsi, stolti, vinnusemi, gleði og aga.
Ef okkur ber gæfa til að innleiða heildarhyggjuna, þar sem hagsmunir margra eru teknir fram yfir hagsmuni fárra, í stjórnmálin okkar þá eru okkur allir vegir færir. Ef okkur tekst að sannfæra þá sem hafa gengið menningu einstaklingshyggju á hönd um að snúa til baka, þá gæti það traust sem hefur glatast á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins unnist aftur á skömmum tíma.
Og Ísland blómstrað fyrir alla.