Eins og flestir aðrir Íslendingar þá er ég mikill áhugamaður um náttúruhamfarir. Það er líklega afleiðing þess að búa í svona miklu návígi við náttúruöflin. Ég fylgist vandlega með veðurfréttum. Eins og flestir landar mínir er ég með risastórt trampólín í garðinum sem ég bind vandlega niður á veturna eða hreinlega tek saman ef sérlega djúp lægð er á leið yfir landið.
Ég reyni að tileinka mér og skilja helstu hugtök í veðurfræði. Ég veit hvað það þýðir þegar „gert er ráð fyrir stormi”, hvað skafrenningur er og hver munurinn er á kalda og stinningskalda. Ég byggi þetta mikið á persónulegri reynslu af því að vera eða hafa verið í allskonar mismunandi veður aðstæðunum. Þegar það er kaldi út á Granda þá er gjarnan stinningskaldi út í Gróttu. Þetta veit ég alveg. Það er eitt að fara í Byko en allt annað að standa í fjörunni úti á Seltjarnarnesi. Eins hef ég lært að skilja metra á sekúndu eftir að því var breytt úr vindstigum. Ég hef aðallega gert það eftir að hafa staðið úti í roki eða keyrt undir Hafnarfjalli í miklum vindi.
Ég er samt ekki alveg búinn að átta mig á hvað hinar nýju litakóðuðu aðvaranir Veðurstofunnar þýða. Mér sýnist alltaf meira og minna vera „gul aðvörun” sem nær meira og minna yfir allt landið og alltaf að Glettingi. Glettingur er alþekkt kennileiti úr íslenskum veðurfréttum og ég hef heyrt talað um það frá því að ég var barn. Ég veit samt ekkert af hverju miðað er við Gletting frekar en eitthvað annað. Fyrir þá sem ekki vita þá er Glettingur fjall fyrir austan. Ég hef keyrt upp að því á fjórhjóli og það virkar ekkert spes og svipar til flestra annara fjalla á Íslandi, sem mér finnst öll meira og minna líta út eins og Esjan. Kannski eru einstök veður í kringum Gletting. Af hverju nær gula aðvörunin bara að Glettingi en ekki alveg niður að sjó? Kannski getur verið stormur öðru megin við fjallið en blankalogn hinum megin. Ég bara þekki það ekki. En fljótt á litið sýnist mér „gul aðvörun” bara þýða skítaveður sem er alls ekki óalgengt hér á landi; rok, kuldi og snjókoma sem skyndilega getur breyst í haglél eða jafnvel rigningu. Dæmigert íslenskt vetrarveður.
Hamfarahyggja íslenskra fjölmiðla
Og þrátt fyrir örtvaxandi hamfarahyggju íslenskra fjölmiðla, sem virðast oft haldnir einhverri óskhyggju um að hér geti, á hverri stundu, eitthvað eldfjall byrjað að gjósa, þá les ég svoleiðis fréttir og reyni að fylgjast með. Maður veit aldrei. Það er líka mjög sérstakt að búa í svona miklu návígi við mörg af stærstu eldfjöllum í heimi. Ég hef fylgst með Kötlu í gegn um vefmyndavél Mílu og beðið eftir því, með öndina í hálsinum, að sjá fjallið skyndilega springa í loft upp og hraunfljótið streyma fram og fylgst með fréttum á vefnum um leið, sem fullvissa mig um að nákvæmlega þetta gæti hugsanlega gerst á hverri stundu.
En ég var algjörlega sleginn út af laginu nú á dögunum þegar fréttir tóku að berast af hræringum í Öræfajökli. Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er hann ein loppan á Vatnajökli. Og undir honum er agalegt eldfjall sem hefur terroríserað Íslendinga og aðra frá örófi alda og valdið miklum mannskaða og jafnvel lagt blómleg héruð í eyði.
Fyrstu fréttirnar sem bárust af þessu voru um „rafleiðni” og að rafleiðnin í einhverri Múlakvísl væri að aukast og það væri áhyggjuefni. Ég veit ekkert hvað Múlakvísl er en ég geri ráð fyrir að það sé einhver á. Samkvæmt fréttum var rafleiðnin orðin 560 míkrómens/cm. Það var ekkert skýrt neitt frekar. Míkrómens sentimetrar. Ég veit ekki hvað það er en það virkar ekki mikið. Ég geri ráð fyrir að rafleiðni sé rafmagnsstraumur. Er Múlakvísl kannski einhvers konar rafmagnsá? Vatn leiðir rafmagn. Ég hef persónulega reynslu af því eftir að hafa pissað á rafmagnsgirðingu þegar ég var unglingur.
Er ketill kanadískur leikari?
Í einni af fyrstu fréttunum sagði: „Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, segja sigkatlarnir lítið um rafleiðnina. Upptökin koma hins vegar frá jöklinum. „Þetta er þekkt jarðhitasvæði og það bendir ekki til annars en að upptökin séu frá jöklinum.“
Líklegt er að hærri gildi mælist nær ánni en þau geta valdið óþægindum. Fólki er því ráðlagt að vera ekki í nágrenni við ána að óþörfu og varast lægðir í landslagi.”
Bryndís þessi er sérfræðingur á veðurstofunni. Þarna heyrði ég fyrst um „sigkatlana”. Það var heldur ekki útskýrt neitt frekar hvað það væri. En þegar sérfræðingur í náttúruvá ráðleggur manni að „varast lægðir í landslagi” þá reynir maður helst að ganga á milli hóla. Og eftir óþægindin sem ég upplifði þegar ég pissaði á rafmagnsgirðingu þá væri ég síðasti maður til að láta mér detta í hug að svamla í þessari Múlakvísl þótt hún gæti virst heit og notaleg.
Eftir þetta var algjörlega hætt að flytja fréttir af rafleiðninni í Múlakvísl. Sigkatlarnir eða sigketillinn, eftir því við hvern var talað, voru nú málið. Það kom í ljós að nýr ketill hafði myndast í Öræfajökli. Ég reyndi að halda mig við RÚV til að fá ábyrgustu upplýsingarnar en fór líka á Vísi og MBL til að reyna að skilja þetta eitthvað betur. Ég gúgglaði orðið „ketill” en fékk bara upplýsingar um tekatla og kanadíska leikarann Adam Copeland sem leikur Ketil flatnef í nýjustu þáttaröðinni af Vikings. Fréttirnar voru frekar misvísandi, sögðu ýmist að engin hætta væri á eldgosi eða að eldgos væri líklegt.
Þarf að skilja ef landið er að springa
Eftir að hafa lesið frétt fyrir fjölskylduna við matarborðið var ég spurður hvað þetta þýddi. Þar sem þeir sem spurðu mig voru bæði kona og barn fannst mér að mér bæri skylda til að svara þeim, útskýra þetta á mannamáli og fullvissa þau um að hvorki okkur eða ættingja okkar og vini fyrir austan stafaði nein hætta af þessu brölti. Ég sagði þeim að rafleiðni væri nú bara allskonar og þyrfti ekki að vera merki um neitt hættulegt og það væri nú bara oft allskonar rafleiðni út um allt. Tólf ára sonur minn skildi ekki setninguna „sigketill í öskju”. Þegar ég var að reyna að útskýra það fyrir honum komst ég að því að ég skildi það ekki heldur. En ég gat huggað þau bæði með því að Veðurstofan hefði bara sett „gula aðvörun“ og við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur fyrr en hún yrði rauð.
-Sigkatlarnir segja náttúrlega ekkert um rafleiðnina, sagði ég og reyndi að hljóma uppörvandi.
Svo héldum við bara áfram að borða og reyndum að tala um eitthvað annað. Ég hugsaði um það hvað vantar mikið góða fræðsluþætti í íslensku sjónvarpi um jarvirkni og öll eldfjöllin okkar, þar sem helstu hugtök eru útskýrð og sýnt er á myndrænan hátt hvernig sigketill myndast í öskju, þannig að þegar það er sagt þá viti maður nákvæmlega hvað er átt við. Maður á eiginlega ekki að þurfa að vera með próf í jarðfræði eða hafa fengið yfir 8.5 í Íslensku 503 til að skilja það ef landið sem maður stendur á er um það bil að fara að springa í loft upp.