Eins og flestir aðrir þá hef ég fylgst með þeim fjölda kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá þeim órétti og áreitni sem þær hafa orðið fyrir undir myllumerkinu #metoo. Eins og mér finnst ömurlegt að heyra þessar átakanlegu sögur þá finnst mér líka svo gott að þetta sé að koma upp á yfirborðið og vona að þetta verði til að eyða þöggun og efla umræðu um þetta hlutskipti margra kvenna að verða fórnarlömb karla sem þær vinna með eða þurfa að umgangast á einhvern hátt.
Virðing til allra þeirra sem hafa stigið fram og sagt sína sögu. Mest af öllu vonast ég til að afgerandi breyting verði á þessu og samfélag okkar færist þá hreinlega upp um nokkur siðmenningarstig og í framtíðinni verði það að klappa konu á rassinn, pota í brjóstin á henni eða segja eitthvað aulagrín um kvenleika hennar eða líkamsvöxt álitin álíka kjánaleg hegðun og að taka út á sér typpið á almannafæri og prumpa hátt, hvorki fyndið né sérstaklega ögrandi heldur fyrst og fremst vandræðalegt fyrir þann sem gerir það.
Í góðu gríni!
Ég get vel skilið að mörgum kynbræðrum mínum finnist þetta óþægileg umræða. Margir þurfa að endurskoða allan orðaforða sinn, framkomu sem þeir hafa tileinkað sér og ekki síst húmorinn. Grín á kostnað kvenna hefur verið drjúgur hluti af skopskyni og félagslífi margra karlmanna.
Ég veit ekki hvað ég hef verið á mörgum árshátíðum og karlakvöldum þar sem svokallaðir klámbrandarar hafa verið sagðir. Þeir eru náttúrlega ekki allir eins. Það eru alveg til klámbrandarar sem eru ágætir brandarar, þar sem gert er grín að kynlífi. En þeir eru þó fleiri sem eru ekkert sniðugir heldur hafa það aðallega að markmiði að gera lítið úr konum og líkama þeirra og líffærum. Mig grunar að þeirra sé aðallega notið af mönnum sem eru óöruggir gagnvart konum eða hreinlega hræddir við þær.
Það er nú oft þannig að við gerum grín að því sem við ekki skiljum eða óttumst, gerum lítið úr því og reynum með því að yfirstíga ótta okkar. Þessir brandarar minna mig á hommabrandarana sem ég heyrði svo oft í æsku og þóttu sjálfsagðir en heyrast ekki lengur. Sem ég held að sé einfaldlega vegna þess að fólk, og þá aðallega karlmenn, er ekki eins hrætt við homma og það var hér áður. Stórir og kraftalegir menn fóru alveg í hnút ef þá grunaði að hommi væri að horfa á þá og muldruðu jafnvel að ef viðkomandi myndi segja eitthvað við þá eða snerta þá myndu þeir hiklaust kýla hann á kjaftinn. En sömu mönnum fannst ekkert að því að stara blygðunarlaust á ókunnar konur, virða fyrir sér ákveðna líkamsparta þeirra og reyna að ná augnsambandi við þær, hrósa þeim fyrir líkamsvöxtinn og jafnvel koma við þær án leyfis.
Ég varð einu sinni vitni að því að maður kom aftan að vinkonu minni í þvögu við barborð og lagðist upp að henni, svo þétt að hún fann fyrir typpinu á honum. Hún þekkti hann ekki neitt. Þegar hún benti honum á þetta og bað hann að hætta þessu þá brosti hann sínu breiðasta og fannst hann bæði flottur og sniðugur. Ég er alveg viss um að ef annar karlmaður hefði gert það sama við hann hefðu viðbrögðin orðið allt önnur.
Hvað með feita kallinn?
Margir reyna nú að gera lítið úr þeim sögum sem fram hafa komið, benda á að margar þessara frásagna segi ekki frá stórvægilegum málum og jafnvel algjörlega saklausum uppákomum og fæstar verði sannaðar enda gerendurnir sjaldnast nafngreindir, það sé rangt að gera það því með því liggi þar með allir karlmenn undir grun. Bar-sagan mín er ekkert sérstaklega átakanleg og vinkona mín varð ekki fyrir miklu áfalli af þessu. Hún er líka bara vön svona uppákomum. Það sem er sorglegast og verst er að hún skuli lifa í samfélagi þar sem svona hegðun þykir eðlileg.
Sumir vara við því að verið sé að gengisfella hugtök um kynferðislega áreitni. Þetta er mjög svipað viðhorf og skýtur upp kollinum þegar umræða er um einelti. Einn pistlahöfundurinn jafnar þessari bylgju við fitufordóma og gefur í skyn að fordómar gegn konum séu ekkert meiri eða alvarlegri en það. Staðreyndin er samt sú að því fleiri sem stíga fram og segja frá, hversu smávægilegt sem það kann að þykja, eykur það líkurnar á því að fleiri fái hugrekki til að stíga fram. Brunalykt og reykur er vísbending um eld.
Það sem er algjörlega einstakt við það ónæði og aðkast sem konur verða fyrir er að það skapar jarðveg fyrir ofbeldi, byrjar á hugmynd, verður að orðum og loks að verknaði. Sú vakning sem er í gangi núna er ekki bara að ráðast að verknaðinum heldur og líka hugsuninni og orðunum sem liggja að baki. Þetta er menningarbylting. (Ég er reyndar einn þeirra sem finnst orðið “menning” lélegt og reyni að notast við orðið “kúltúr” en það er efni í aðra grein).
Svo eru þeir sem finnst þetta bara eðlilegur hluti af samskiptum kynjanna og finnst það réttur sinn að horfa á konur eins og þeir vilja og tjá sig um útlit þeirra og líkamsvöxt. Þeir gefa jafnvel í skyn að það sé hluti af kvenlegu eðli að sækjast eftir slíku og ef kona sé með flottar brjóst þá sé ekkert að því að segja henni það. Fæstir þessara manna myndu samt nota þessa hugmyndafræði til að gleðja mömmu sína.
Sumir hafa bent á að karlar verði líka fyrir kynferðislegri áreitni. Það er alveg rétt og ekkert sem afsakar það en það er samt ekki sambærilegt við þann líffræðilega og menningarlega ójöfnuð sem konur búa við í okkar samfélagi.
Reiði úlpukallinn
Eins og margir aðrir þá horfði ég á viðtalið við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrrverandi borgarstjóra í sjónvarpinu segja frá því ömurlega ofbeldi sem hún og fjölskylda hennar varð fyrir. Og eins og margir aðrir þá táraðist ég. Ég vann með manninum hennar á þessum tíma og man eftir þessu. Ekki mundi ég vilja hafa svona skuggalegt lið fyrir utan hús hjá mér. Það er auðsjáanlegt að þetta hefur haft mikil og vond áhrif á hana. Þegar hópur feitlaginna og brúnaþungra karlmanna safnast saman fyrir utan heimili konu að kvöldlagi þá er það ekkert nema ógnandi ofbeldi.
Það felst ekki bara í því sem gerðist heldur líka ógninni í því sem hefði getað gerst. Hvað ef einhver af þessum skuggalegu verum hefði hent einhverju í gegnum glugga? Hvað ef einhver af þessum reiðu mönnum hefði ráðist á Steinunni þegar hún fór út að reyna að tala við þá? Flestir fordæma svona hegðun en svo eru aðrir sem reyna að afsaka hana eða jafnvel réttlæta, benda á að hún hafi þegið styrki og átt að segja af sér. Það er bara engin afsökun fyrir svona skrílslátum. Þetta er bara frekja, reiði og dólgsháttur. Það þyrfti að vera eitthvað verulega mikið að í kollinum á mér svo ég færi út að kvöldlagi í ljótustu úlpunni minni til að hanga með fýlusvip fyrir utan hjá einhverjum.
Og alltaf þegar talið berst að þeim ruddaskap sem gjarnan einkennir stjórnmál þá koma þeir reglulega fram sem finnst að fólk sem vill starfa í stjórnmálum eigi að sætta sig við þetta sem eðlilegan hlut, það sé ekki málið að uppræta þetta heldur eigi fólk bara að læra að lifa með þessu og sætta sig við næstum hvað eina sem vitlausu, freku og reiðu fólki dettur í hug að bjóða því upp á. Það er bara algjörlega fáránlegur málflutningur og alveg stórhættulegt að réttlæta og normalisera ofbeldi og ofbeldiskúltúr á þennan hátt. Við gætum, með sömu rökum, sagt að allir sem starfa á veitingastöðum, leigubílstjórar og lögreglufólk eigi að sætta sig við dónaskap og ofbeldi og bara taka því sem eðlilegum hluta af sinni vinnu og allar umkvartanir séu barasta væl.
Stjórnmál eru í eðli sínu andsvar gegn ofbeldi. Þar er fólk að reyna að leysa verkefni og vandamál af yfirvegun, með samtali og án handalögmála. Við mannfólk höfum langa reynslu af því að leysa okkar mál með ógnunum og ofbeldi. Reynslan af því hefur ekki verið góð. Ef við ætlum að sætta okkur við samfélag sem hefur ákveðið magn af ásættanlegu ofbeldi þá fælum við gáfað og vel gert fólk frá þeim stöðum og þar sem við þurfum mest á því að halda og munum enda upp með alþingi sem samanstendur af síkópötum sem ekkert bítur á, og er slétt sama hvað okkur almenningi finnst, vörðum af vopnuðum hrottum sem hafa lært að skjóta fyrst og spyrja svo.
Ofbeldi er meinsemd á Íslandi. Það splundrar einstaklingum, fjölskyldum, félagasamtökum, fyrirtækjum, bæjarfélögum og jafnvel heilum samfélögum. Frá því að ég var lítill hefur ofbeldi minnkað mjög mikið á Íslandi. Sumt sem þótti sjálfsagt í gamla daga þykir það ekki lengur. 1980 þótti ekki tiltökumál ef maður kýldi annan mann á kjaftinn niðri í bæ. Það var jafnvel álitið svolítið töff. Það er það ekki lengur. Baráttan gegn ofbeldi heldur áfram og hættir ekki fyrr en ofbeldið hættir alveg. Áfram #metoo!