Ég hef frá unga aldri velt fyrir mér mögulegri tilvist æðri máttarvalda og hvert sé eðli yfirskilvitlegra afla í alheiminum. Lífið er svo ótrúlega skrítið, umfangsmikið og flókið. Ég hef lesið fjölda bóka, kynnt mér trúarbrögð og heimspekikenningar og rætt við málsmetandi fólk sem hefur þekkingu á allífinu.
Ég hef samt aldrei komist að neinni ákveðinni niðurstöðu um þessi andans mál. Því dýpra sem maður kafar í þessu því flóknara verður allt. Hugtakið „trú” er gott dæmi. Hvað merkir það „að trúa?” Er það ekki fullvissa um eitthvað sem maður veit ekkert um? Ég vil trúa því að það verði gaman á jólunum, ég fái bæði keðjusög og pallbíl í jólagjöf og eigi svo eftir að bæði hlæja mikið og sofa mikið. Ég vil líka trúa því að veðrið næsta sumar verði sögulega gott. Mér finnst við líka eiga það skilið eftir þær vetrarhörkur sem yfir okkur hafa gengið. En ég veit ekkert um það. En ég vel að trúa því. Þannig bý ég mér til eitthvað til að hlakka til. Þetta er ákveðin trú. Vísindamenn á veðurstofu Íslands gætu örugglega útskýrt þetta allt fyrir mér og jafnvel fullvissað mig, með gildum rökum, um að ekkert í veðrinu núna eða hnattstöðu jarðar gefi vísbendingu um að næsta sumar verði eitthvað sérstaklega gott. Mestar líkur eru á því að þau myndu segja eitthvað leiðinlegt eins og að mestar líkur séu á að það verði bara eins og í meðalári. Ég ætla ekkert að ræða við þau. Ég vil frekar trúa því að veðrið verði frábært heldur en vita að það verði það líklega ekki. Ég tek oft mína eigin upplifun fram yfir staðreyndir þegar kemur að veðri. Stundum finnst mér veðrið leika við okkur og sögulegir hitar geisa en les svo viðtal við veðurfræðing sem segir að það sé alls ekki þannig og þetta sé bara eins og í meðalári og það hafi verið miklu betra veður 2005. Mér er bara alveg sama hvað hann segir, mér fannst það öðruvísi og með þeirri tilfinningu ætla ég að standa.
Trú er því að mörgu leyti „aðferð til sjálfssefjunar.” Maður kýs að trúa einhverju vegna þess að það færir manni ákveðna tilfinningu eða líðan og hefur svo mótandi áhrif á samskipti manns við annað fólk. Þegar annað fólk er að barma sér og kvarta yfir tíðarfarinu núna þá get ég deilt með þeim fullvissu minni um hvað næsta sumar verður frábært. Það getur svo verið ákveðin gulrót fyrir fólk til að sækja sér kraftinn sem þarf í að skrölta út eldsnemma um morgun til að skafa gadd frosið rigningarvatn af bílrúðunum.
Mér er að mestu leyti slétt sama hverju fólk vill trúa og hverju ekki. Ég reyni að virða þennan rétt fólks, nema helst þegar fólk fer að halda að þeirra trú sé á einhvern hátt merkilegri en trú annarra og fer jafnvel að reyna að troða henni óboðið upp á mig. Verst er þegar að fólk er farið að trúa því að með því að fylga einhverjum sérstökum lífsreglum eða hugmyndafræði þá svífi það einhvern veginn upp fyrir annað fólk og verði bæði betra og merkilegra en aðrir og er ófeimið við að láta aðra vita af því. Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Skiptir þá engu máli hvort fólk telur sig eiga í sérstaklega nánu sambandi við Jesú frá Nasaret, fylgir ströngu og kjötlausu mataræði, hefur ákveðna menntun, vald eða á meiri peninga en flestir aðrir. Fyrir mér eru þeir einu sem eiga rétt á því að vera settir á stall ofar öðrum, þeir sem hafa unni fyrir því með óeigingjörnu starfi í þágu annarra. Og það eru þá yfirleitt aðrir en þeir sjálfir sem setja sig á stallinn. Ég hef lært það að ást er ekki tilfinning eða hugarástand heldur fyrst og fremst gjörningur. Ást verður ekki raunveruleg fyrr en maður gerir eitthvað gott fyrir einhvern annan. Ég hef líka lært að merkilegustu störf í heimi eru þjónustustörf. Þeir sem gera þjónustu að inntaki allra sinna verka geta unnið við hvað sem er og mun yfirleitt farnast vel.
Jólin eru hátíð ljóssins, kærleikans og vonarinnar. Frá örófi alda hefur fólk fagnað þessum tíma. Eftir myrka vetrarmánuði og kulda fer sólin aftur að hækka á lofti og daginn að lengja. Um jólin tilbiðjum við hið yfirskilvitlega. Þá ljúgum við því að börnunum okkar að hópur eldri karla finnist vænt um þau og sé umhugað um þau, svo mikið að þeir læðist að svefnherbergisglugganum þeirra í skjóli nætur til að gefa þeim sælgæti eða leikföng. Þessir menn eru annars svo vafasamir náungar að við myndum aldrei undir neinum öðrum kringumstæðum láta þá koma nálægt börnunum okkar. En það er í lagi á jólunum. Þau eru líka tími kraftaverka og hugsanalesturs. Það er engin tilviljun að vinsælustu jólamyndirnar fjalla um kærleika, réttlæti og þegar einhver fær eitthvað sem hann hafði óskað sér í leyni og enginn gat vitað neitt um. Og yfirskilvitleg kraftaverk.
Jólin eru hafin yfir öll trúarbrögð þótt sumir hópar hafi reynt að eigna sér þau. Meira að segja orðið sjálft er aftan úr grárri forneskju, svo gamalt að enginn veit einu sinni hvað það þýðir.
Lífið er kraftaverk. Við höfum ekki minnstu hugmynd um hver við erum og af hverju við erum til. En við vitum að það er gott að gleðja og gefa. Það er satt sem Jesú sagði um að það væri sælla að gefa en þiggja. Og það er líka satt, sem Óðinn sagði að allt deyr og hverfur en orðstír þess sem er öðrum góður og hjálpsamur lifir og deyr aldrei.
Ég óska þér þess, lesandi góður, að þú megir lifa þínu lífi öðrum til góðs og skapir þér góðan orðstír. Megi allar góðar vættir vera með þér en illar fjarri. Ég vona að þú þraukir veturinn þótt hann sé bæði kaldur og dimmur. Ég hef staðfestar heimildir fyrir því að næsta sumar eigi eftir að vera geðveikt næs.
Megi þinn guð vera með þér.