Nú liggur það fyrir að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra braut gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar Íslands. Sú niðurstaða er afgerandi og hún er áfellisdómur yfir valdníðslu ráðherrans.
Rökstuðningur Sigríðar, sem hún færði fyrir því að tilnefna ekki fjóra menn sem dómnefnd hafði metið á meðal þeirra hæfustu, en skipa þess í stað fjóra aðra sem voru ekki jafn hæfir, er að mati Hæstaréttar ekki nálægt því fullnægjandi og uppfyllir ekki lágmarkskröfur sem til slíks eru gerðar.
Hvað þýðir það? Jú, það var einfaldlega aldrei kannað almennilega, né rökstutt með viðeigandi hætti, hvort þeir fjórir sem Sigríður handvaldi til að sitja í réttinum í trássi við niðurstöðu dómnefndar væru hæfari en hinir. Hún sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni heldur tók geðþóttaákvörðun við umfangsmestu nýskipun dómara í Íslandssögunni. Um er að ræða fúsk sem hefur þær alvarlegu afleiðingar að traust á nýjan dómstól er laskað. Þess utan hefur traust á allt dómskerfið beðið hnekki með því að hafa yfir sér dómsmálaráðherra sem viðhefur stjórnsýslu af þessu tagi.
Viðbrögð ráðherrans, sem sett voru fram í frétt á vef dómsmálaráðuneytisins, eru út í hött. Þar talar hún eins og það sé nægjanlegt að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar með „því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taka á því þegar ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi aðrar tillögur en þær sem hæfisnefnd leggur til við skipun dómara.“
Þetta er ekki bara niðurstaða Hæstaréttar. Heldur ákvæði stjórnsýslulaga. Á Sigríði hvíldi skylda til að kynna sér málið almennilega, afla gagna og taka svo réttmæta ákvörðun líkt og rannsóknarregla stjórnsýslulaga kveður á um. Það gerði hún ekki. Þess í stað braut hún lög. Og viðbragð hennar við því er að breyta reglum svo að lögbrotið verði löglegt næst þegar það verður framið.
Ráðherrar mega ekki brjóta lög
Það er mjög mikilvægt að ráðherrar brjóti ekki lög. Og ef þeir gera það þá eiga þeir að axla ábyrgð með viðeigandi hætti. Allir aðrir þurfa að gera það þegar þeir brjóta lög. Mjög nauðsynlegt er að þeir sem fara með valdið sýni skýrt fordæmi.
Það er mun mikilvægara að traust ríki gagnvart framkvæmdarvaldinu en að nákvæmlega þeir einstaklingar sem sitji á ráðherrastólum hverju sinni, geri það. Með því að axla pólitíska ábyrgð á ólögmætum ákvörðunum, og segja af sér embætti, þá taka ráðherrar heildarhagsmuni fram yfir eigin og þá trú að þeir séu þannig yfirburðarfólk að þjóðin geti ekki verið án þeirra á valdastóli. Með því eiga þeir líka frekar afturkvæmt í valdastöður síðar meir ef eftirspurn er eftir þeim.
Ögmundur Jónasson átti að segja af sér þegar hann var innanríkisráðherra og braut jafnréttislög þegar hann skipaði sýslumann á Húsavík. Svandís Svavarsdóttir átti líka að gera það þegar hún braut lög samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar sem umhverfisráðherra þegar hún synjaði aðalskipulagi Flóahrepps staðfestingar.
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, átti meira að segja að segja af sér þegar hún braut gegn ákvæði jafnréttislaga þegar hún skipaði karl í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu og þróunar árið 2011.
Þegar Jóhanna varð uppvís af sínu lögbroti í embætti var hún spurð út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi. Sá sem spurði sagði: „Staðreynd málsins er hins vegar sú að það blasir við allri þjóðinni að forsætisráðherra hlýtur að vera að íhuga afsögn vegna þessa máls.“ Síðar í ræðu viðkomandi sagði hann: „Ábyrgðin er ráðherrans.[...]Hann getur ekki tekið niðurstöðu sérfræðinganna athugasemdalaust án allra fyrirvara og lagt hana til grundvallar niðurstöðu í ráðningarferli eins og þessu og skotið sér síðan á bak við slíka niðurstöðu þegar spurt er um pólitíska ábyrgð.“
Sá sem setti fram þetta mat var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mat hans var rétt. Það breytti því þó ekki að nokkrum árum síðar þegar Bjarni gerðist brotlegur við sama ákvæði jafnréttislaga og Jóhanna þá fannst honum ekkert tilefni til afsagnar.
Og nú nota stuðningsmenn Sigríðar Á. Andersen það sem átyllu fyrir því að hún eigi að sitja áfram að aðrir ráðherrar sem hafi framið lögbrot hafi ekki sagt af sér.
Með sömu rökum þarf aldrei að taka á neinu sem er að, svo lengi sem einhver annar hefur gert það slæma einhverju sinni áður. Og til verður eilífðarvel mistaka og óheilinda.
Viðreisn og Björt framtíð kolféllu á prófinu
Þegar Landsréttarmálið kom upp í fyrravor var það prófsteinn fyrir þá tvo flokka sem mynduðu þá ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þeir kolféllu á því prófi. Ekki endilega bara vegna þess að þeir hafi ákveðið að standa með ólöglegri málsmeðferð Sigríðar Á. Andersen við val á dómurum, heldur vegna þeirra raka sem þeir beittu fyrir sig við afgreiðslu málsins. Einn þingmaður Viðreisnar ætlaði ekki að gera athugasemd vegna þess að honum fannst að lögin ættu að vera öðruvísi en þau væru. Þáverandi formaður Bjartrar framtíðar sagði að hann væri ánægður með rökstuðning ráðherrans, sem Hæstiréttur hefur nú hafnað og sagt að hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur.
Þá gripu fjölmargir þingmenn beggja flokka til kynjasjónarmiða sem rökstuðnings, þrátt fyrir að slík hafi ekki einu sinni verið hluti af rökstuðningi Sigríðar Á. Andersen fyrir breyttum lista. Þess utan fjallar Hæstiréttur efnislega um slík sjónarmið í dómi sínum og vísar út í hafsauga. Í dómi hans segir að sjónarmið um jafna stöðu karla og kvenna hafi ekki getað komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Ekki hafi verið um það að ræða í málinu.
Við blasti því að þorri þingmanna þáverandi stjórnarflokka sem ákváðu að taka afstöðu í málinu höfðu ekkert kynnt sér það. Eða töluðu gegn betri sannfæringu. Erfitt er að sjá hvort sé verra.
Grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi
Sex dögum eftir að Alþingi samþykkti tillögu Sigríðar Á. Andersen um skipan dómara í Landsrétt skrifuðu tveir þingmenn Vinstri grænna grein á á vef flokksins.
Þar sögðu þeir að Sigríður hefði þverbrotið það ferli sáttar sem Ólöf Nordal, fyrirrennari hennar í starfi, hafði leitt fram varðandi lagaumgjörð og inntak nýs millidómstigs. Hún hefði gengið á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endan á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“
Þessir tveir þingmenn sögðu það grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi að svo naumur meirihluti skuli fara fram með slíkum hætti þegar um er að ræða eina grein hins opinbera valds, dómsvaldið, og skipan þess.
Þessir þingmenn voru Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður flokksins. Þær sitja nú báðar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Sigríði Á. Andersen.
Þess utan hafa margir liðsmenn/stuðningsmenn Vinstri grænna nú tekið upp sömu röksemdarfærslur og liðsmenn/stuðningsmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar beittu í vor. Nú, líkt og þá, ber málflutningurinn öll þess merki að viðkomandi hafi ekki kynnt sér málið efnislega. Að verki sé fyrst og síðast viljinn til að halda saman ríkisstjórn í stað þess að takast á við þá nú ófrávíkjanlegu, og tiltölulega einföldu, staðreynd að dómsmálaráðherra braut lög og misbeitti valdi sínu.
Ekki hluti af menningunni að segja af sér
Dómsmálaráðherra braut lög. Það er nú staðfest með dómi Hæstaréttar. Fjórir dómarar sem munu setjast í Landsrétt um áramót gera það ekki vegna löglegrar og eðlilegrar málsmeðferðar, heldur vegna órökstuddrar geðþóttaákvörðunar Sigríðar Á. Andersen. Vert er að taka fram að nær allir lögfróðir menn sem rætt var við á þeim tíma sem hin ólöglega ákvörðun var tekin voru sannfærðir um að hún stæðist ekki lög.
Hvernig tekið verður á þessari stöðu verður prófsteinn á það hvernig Vinstri græn ætla að haga sér nú þegar flokkurinn er sestur við völd. Forsætisráðherra sagði í sjónvarpsþætti Kjarnans fyrir skemmstu að á Íslandi hafi „auðvitað ekki verið mikil hefð fyrir því til að mynda að ráðherrar segi af sér eða eitthvað slíkt. Það hefur ekki verið hluti af menningunni. Ég held að það sé mjög erfitt að breyta því yfir nótt. Svo maður segi það alveg hreint út.“
Það verður því að teljast ólíklegt að ólöglegt athæfi dómsmálaráðherra muni leiða til þess að hún þurfi að axla eðlilega pólitíska ábyrgð. Hún hefur að minnsta kosti sjálf sagt að ekki komi til greina að segja af sér. Hún sé bara efnislega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. Og þar með stjórnsýslulögum.
Í aðdraganda síðustu tveggja kosninga hafa framámenn í Vinstri grænum talað hver ofan í annan um spillingu, siðferði, pólitíska ábyrgð, afnám leyndarhyggju og nauðsyn þess að útrýma eigi frændhygli. Þáverandi varaformaður flokksins sagði í pistli 31. maí að með athæfi sínu í Landsréttarmálinu hafi Sigríður Á. Andersen vegið að sjálfstæði dómstóla og um væri að ræða aðför Sjálfstæðisflokks að þeim.
Allt það tal virðist nú hljóm eitt.