„Mistök hafa átt sér stað, Moonlight, þið félagar unnuð flokkinn besta kvikmyndin,“ sagði Jordan Horowitz, framleiðandi kvikmyndarinnar La La Land upp á sviði, með óskarinn í hendinni, eftir að það kom í ljós að bikarinn tilheyrðu ekki honum heldur einhverjum úr teyminu á bakvið kvikmyndina Moonlight.
Fyrir kvikmyndarfróða menn fer þetta fíaskó eflaust sögubækurnar. En fyrir almennan áhorfanda eins og mig þá breytir þetta litlu: Ég hafði hvorugu myndina séð og þegar ég loksins sá La La Land þá fannst mér hún bara la-la. Og Moonlight, hana á ég ennþá eftir að sjá.
En þetta tilvik, og sú staðreynd að hvorug myndin var í sérstöku uppáhaldi hjá mér, fékk mig til þess að pæla aðeins í því hvort smekkur okkar almennings og Akademíunnar sé með öllu ósambærilegur. Kannski var árið 2017 undantekningin og að öllu jöfnu speglar smekkur Akademíunnar smekk almennings og kvikmyndaunnenda. En kannski ekki. Til þess að svara þessari spurningu tók ég mig til og safnaði upplýsingum um þúsundir mynda af IMDB.com og spurði svo gögnin spjörunum úr.
Akademían elskar langdregið ódýrt drama
Þegar uppáhalds myndir Akademíunnar (það er allar myndir sem Akademían hefur tilnefnt til Óskarsverðlauna frá 1950) eru skoðaðar koma nokkur áhugaverð atriði í ljós. Í fyrsta lagi er Akademían full af dramakóngum – meira en 91% af uppáhaldsmyndunum þeirra eru flokkaðar sem dramatískar kvikmyndir. Í öðru lagi, er Akademían þokkalega þolinmóð og kann því best að meta myndir sem eru hátt í 130 mínútur. Í þriðja lagi, þá snobba þeir niður á við þegar kemur að framleiðslukostnaði, það er að segja, uppáhaldsmyndir Akademíunnar eiga það til að vera talsvert ódýrar.
Kvikmyndaunnendur kunna að meta grínmyndir
Kvikmyndaunnendur eru í þessu tilfelli skilgreindir sem: Fólk með mikinn áhuga á kvikmyndum. Til þess að reyna að meta hvaða myndir þessi hópur heldur mest upp á notaðist ég við stjörnugjöf kvikmyndaunnenda sem eru virkir á IMDB.com.
Smekkur Kvikmyndaunnenda er að öllu jöfnu þokkalega svipaður smekk of Akademíunnar, Þeir eru mest til í drama (u.þ.b. 70% af uppáhalds myndunum þeirra falla í þann flokk). En eru þó tvisvar sinnum líklegri til að kunna að meta hasarmynd en Akademían. Það sem sker þessa hópa en frekar í sundur er það að kvikmyndaunnendur vilja að myndirnar sínar séu aðeins styttri (meðallengd u.þ.b. 125 mínútur) og að öllu jöfnu eru uppáhalds myndirnar þeirra 34% dýrari í framleiðslu en uppáhalds myndir Akademíunnar.
Almenningur vill dýrar og stuttar hasarmyndir
Til þess að reyna að finna út hvað myndir eru í uppáhaldi hjá almenning ár hvert tók ég á það ráð að fylgja veskinu þeirra. Það er að segja, þær myndir sem hvað flestir voru tilbúnir að borga fyrir að sjá (í Bandaríkjunum í þessu tilfelli) voru flokkaðar sem uppáhalds myndir þessa hóps.
Það sem stendur upp úr eftir að hafa skoðað smekk þessa hóps er hversu vel hann lýsir smekk mínum. Almenningur hefur nefnilega gaman af allskonar myndum og hefur sérstakt dálæti á grín- (34% af uppáhalds myndum) og hasarmyndum (32% af uppáhalds myndum). Það sem kannski enn áhugaverðara hvað smekk okkar almennings varðar er að: (1) við viljum helst ekki að kvikmyndir séu mikið lengri en tveir tímar; og (2) peningar skipta okkur máli - uppáhalds myndirnar okkar frá 1950 voru að öllu jöfnu rúmlega helmingi dýrari en uppáhalds myndir akademíunnar. Sem sagt við viljum: fjölbreyttar stuttar stórmyndir sem öðru hverju kitla hláturstaugar okkar. Takk.
Allir elska Guðfaðirinn
Frá því árið 1950 hafa tæplega 400 myndir verið tilnefndar til Óskarsverðlauna í flokki bestu kvikmyndar. Eitt er þó áhugavert, þó svo að almenningur hafi að öllu jöfnu ólíkari smekk Akademíunni en kvikmyndaunnendur, eru þeir jafn oft ósammála Akademíunni hvað einstakar myndir varðar. Það er að segja í minna en 30% tilfella eru þær myndir sem Akademían tilnefnir þær myndir sem annaðhvort almenningur (eða kvikmyndaunnendur) myndu velja. Og þegar kemur að sigurvegurum (myndin vinstra megin hér fyrir neðan), þá eru allir þrír hóparnir sammála um að vera ósammála um allar myndirnar, nema eina – Guðfaðirinn.
Nú má deila um hvað það þýðir og hvort Akademían ætti að spegla skoðanir almennings frekar en skoðanir elítunnar. En ef almenningur fengi að ráða í ár, þá er það víst að Star Wars (The Last Jedi) myndi vinna Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina. Og hefði almenningur einnig fengið að ráða í fyrra, þá hefði Star Wars (Rogue One) líka unnið þá. Og árið þar á undan (The Force Awakens).