Í dag féll dómur í staðfestingarmáli Glitnis Holdco, eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir Glitnis banka, gegn Stundinni og Reykjavík Media. Glitnir höfðaði málið og vildi fá staðfest lögbann á umfjöllun miðlanna sem byggir á gögnum sem lekið var frá hinum gjaldþrota banka og hann telur að séu varin með bankaleynd.
Héraðsdómur hafnaði þessari kröfu með augljósum rökum: umfjöllun um viðskiptaleg umsvif Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, og annarra sem honum tengjast eru „þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór.“ Skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um slík mál getur „ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.“
Engu máli skiptir þótt þau gögn sem umfjöllunin byggi á séu trúnaðargögn.
Niðurstaðan er stórsigur fyrir lýðræðið á Íslandi. Og rétt íslensks almennings til að fá að vita.
Fjölmiðlafrelsi tekið tímabundið úr sambandi
Það breytir því þó ekki að lögbannsmálið er smánarblettur. Í lögbannsbeiðninni sem sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti 16. október 2017 sagði að erfitt væri að „mæla það tjón á ímynd og orðspori gerðarbeiðanda sem af háttsemi gerðarþola hlýst. Af þeim sökum leiðir ólögmæt háttsemi gerðarþola til skerðingar á réttindum gerðarbeiðanda þannig að ekki verði úr bætt síðar.“
Glitnir Holdco hefur, samkvæmt frétt í Markaðnum í vikunni, selt nánast allar eignir og daglegum rekstri félagsins var hætt um liðin mánaðarmót. Lögbannið var því sett á til að verja gjaldþrota banka, sem hafði umfangsmikil neikvæð samfélagsleg áhrif á Íslandi með athæfi sínu fyrir hrun, frá frekara tjóni á ímynd og orðspori sínu, þrátt fyrir að daglegri starfsemi hans hafi nú verið hætt.
Á grundvelli þessara raka hefur nú ekki ríkt fjölmiðlafrelsi á Íslandi í 110 daga.
Lögbann á löglegar fréttir
Umfjöllun Stundarinnar var um Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra þjóðarinnar. Hann er nú fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Fréttirnar átta sem Stundin birti áður en að lögbannið var sett voru um að Bjarni hafi selt allar eignir sínar í Sjóði 9 dagana fyrir bankahrun og að þær eignir hafi verið 50 milljóna króna virði. Í desember 2016 hafði Bjarni verið spurður út í eign sína í Sjóði 9 og hvort hann hefði selt. Þá svaraði hann því til að hann hefði ekki átt neitt sem skipti máli í sjóðnum.
Í umfjöllun Stundarinnar var fjallað um tveggja milljarða króna kúlulán sem eignarhaldsfélag Bjarna og náinna fjölskyldumeðlima hans fengu til að kaupa allt hlutafé í N1, stærsta eldsneytissala landsins, 50 milljón króna kúlulánaskuld hans sem var færð yfir á skuldsett eignarhaldsfélag Bjarna sem var síðan slitið og um að vitnisburður Bjarna í Vafningsmálinu svokallaða stangist á við þau gögn sem Stundin hafði undir höndum.
Þá hefur Stundin einnig greint frá því að gögnin sem miðillinn hafi undir höndum sýni að Bjarni hafi verið virkur þátttakandi í viðskiptum aflandsfélagsins Falson. Í þeim gögnum kemur líka skýrt fram að félagið var skráð á Seychelles-eyjum. Bjarni sagði vorið 2016 að hann hefði ekki vitað að félagið var skráð á þeim stað. Áður hafði hann sagt í viðtali við Kastljós að hann hefði hvorki átt eignir né átt viðskipti í skattaskjólum.
Umfjöllunin sem lögbannið var sett á fjallaði því um samspil stjórnmála og viðskipta. Um fyrirgreiðslu sem sumum býðst í bankakerfinu en öðrum ekki. Um að ýmislegt sem Bjarni Benediktsson sagði opinberlega stangist á við það sem fram kemur í umræddum gögnum. Á þessa umfjöllun, sem er lögleg, byggði á gögnum og á erindi við almenning, var sett lögbann. Sýslumaður ákvað að um þetta mætti ekki fjalla. Nú er ljóst að sú ákvörðun var ekki lögleg.
Kjarninn fjallaði líka um gögnin
Nokkrum dögum eftir að lögbannið var sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media þá birti Kjarninn fréttaskýringu sem byggði á gögnum innan úr Glitni sem voru merkt trúnaðarmál. Um er að ræða sama gagnaleka og umfjöllun Stundarinnar um Bjarna Benediktsson byggði á.
Í þeirri fréttaskýringu var m.a. greint frá því í fyrsta skipti að hópur stjórnenda og starfsmanna Glitnis, sem hafði vitneskju um það að stjórnarformaður hans var að fara á fund Seðlabankans 25. september 2008 til að óska eftir fyrirgreiðslu þar sem Glitnir átti ekki fyrir gjalddaga láns sem var fram undan, hefðu selt eignir sínar í peningamarkaðssjóðnum Sjóði 9 daganna 24-26. september 2008.
Þar er líka greint frá því að félög tengd Baugsfjölskyldunni, sem var ráðandi eigandi í Glitni, hefði innleyst samtals 766 milljónir króna úr sjóðnum 25-26. september. Í gögnunum kemur fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, höfuð þeirrar fjölskyldu, hafi verið beinn þátttakandi í öllu ferlinu í kringum ofangreindan fund með Seðlabankanum.
Á þessu tímabili lá ekkert fyrir um að Glitnir væri að falla. Bankastjóri bankans kom þvert á móti tvívegis fram í fjölmiðlum, daganna 21. og 22. september 2008 og sagði að bankinn væri traustur. Á sama tíma var hann reyndar að láta millifæra hundruð milljónir króna, sem hann hafði tekið út úr Glitni, inn á bankareikning í Bretlandi.
Þeir aðilar sem framkvæmdu ofangreinda fjármagnsflutninga, og björguðu þar með eigin fjármunum frá því að rýrna, Og þeir bjuggu yfir upplýsingum sem almenningur hafði sannarlega ekki á þessum tíma.
Fjölmargir Íslendingar, sem unnu ekki í banka né áttu slíkan, en áttu í sama sjóði töpuðu peningum. Þeir höfðu ekki sömu upplýsingar og stjórnendurnir, starfsmennirnir og eigendurnir sem færðu sína peninga í öruggt skjól.
Líkt og flestir vita var síðan tilkynnt um þjóðnýtingu Glitnis 29. september, neyðarlögsett þann 6. október og Glitnir var síðan tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008.
Bara lögbann á umfjöllun um Bjarna
Lögmaður Glitnis brást við birtingu fréttaskýringarinnar með því að senda bréf á Kjarnann. Í bréfinu sagði lögmaðurinn að umbjóðandi hans teldi birtingu fréttaskýringarinnar vera ólögmæta og brjóta í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Óheimilt væri að birta gögn eða upplýsingar úr gögnunum sem Kjarninn byggði fréttaskýringuna á. Lögmaðurinn óskaði eftir því að Kjarninn veiti „Í fyrsta lagi upplýsingar um hvort frekari birting úr umræddum gögnum sé fyrirhuguð. Hér átt við allar fréttir sem byggja á upplýsingum og/eða gögnum frá Glitni eða úr kerfum þess.[...] Í öðru lagi er þess farið á leit við Kjarnann að ef frekari birting úr framangreindum gögnum er fyrirhuguð að umbjóðanda okkar, Glitni, verði tilkynnt fyrir fram með tveggja sólarhringa fyrirvara að slík birting standi til.“
Kjarninn hafnaði þessum kröfum, enda eru þær fjarstæðukenndar. Lögmanninum var gert það ljóst að upplýsingar um hvort, og þá hvaða, viðbótarfréttir eða fréttaskýringar yrðu skrifaðar upp úr þeim gögnum tengdum Glitni sem Kjarninn hefur undir höndum eru, og verða áfram, einungis á vitorði ritstjórnar Kjarnans. Þetta væru ritskoðunartilburðir sem ættu ekkert erindi í lýðræðissamfélagi. Glitnir væri með þessu að reyna að taka sér ritstjórnvald yfir frjálsum og óháðum fjölmiðli.
Glitnir gerði ekkert frekar í málinu. Glitnir reyndi ekki að fá sett lögbann á umfjöllun Kjarnans þótt að hún byggði á sömu gögnum og umfjöllun Stundarinnar, Reykjavík Media og breska stórblaðsins The Guardian, sem greindi einnig frá málinu.
Það gerði Glitnir heldur ekki þegar bæði miðlar 365 og RÚV fjölluðu um fjármál hæstaréttardómara, sem er að finna í sömu gögnum, í desember 2016.
Lögbannskrafa var bara sett fram gegn þeim miðlum sem fjölluðu um fjármál og viðskipti Bjarna Benediktssonar.
Af hverju hefur ekki komið fram. Bjarni sjálfur fór ekki fram á þetta lögbann og hefur sagt opinberlega að hann sé mótfallinn því. Raunar má halda því fram að lögbannið skaði hann pólitískt meira en frekari fréttaflutningur hefði gert.
Alvarlegasta árásin á fjölmiðlafrelsið
Ímyndum okkur eftirfarandi aðstæður: Lögbann hefur verið lagt á umfjöllun Morgunblaðsins um fjármál formanns Vinstri grænna, sem er líka forsætisráðherra. Umfjöllunin byggir á gögnum frá föllnum banka og sýnir að ýmislegt sem formaðurinn hefur sagt í opinberri umræðu um viðskipti sín og fjármál stangast á við þær upplýsingar sem koma fram í gögnunum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur verið virkur í flokksstarfi Vinstri grænna, samþykkti lögbannsbeiðnina og féllst á að Morgunblaðinu yrði meinað að skrifa frekari fréttir upp úr gögnunum.
Lögbannið hafði þau áhrif að Morgunblaðið gat ekki haldið áfram umfjöllun sinni í aðdraganda kosninga, sem haldnar voru tveimur vikum eftir að það var samþykkt. Málið rataði á endanum fyrir dómstóla. Í þrjá og hálfan mánuð mátti fjölmiðill ekki fjalla um mál sem hann taldi fréttnæmt, byggði á staðreyndum og átti fullt erindi við almenning.
Myndi þessi staða, ef fjölmiðillinn sem flutti fréttir upp úr Glitnis-gögnum væri Morgunblaðið og sá sem fréttirnar fjölluðu um væri vinstrimaður, breyta einhverju um hversu alvarlegt það er að beita þöggunartilburðum á fjölmiðla? Nei, það myndi ekki gera það.
Hlutverk fjölmiðla er að miðla upplýsingum til almennings sem eiga erindi við hann. Það skiptir ekki máli hvað fjölmiðillinn heitir eða hvert andlag fréttanna er. Lesendur geta gert athugasemdir við framsetningu frétta, val á nálgun í umfjöllun, myndræna framsetningu og annað sem truflar þá við umfjöllunina. Og þá valið hvort þeir treysti viðkomandi miðli eða ekki til að sinna því hlutverki sem hann segist sinna. Án fjölmiðla þá eru gerendurnir einir eftir til að útskýra hvað átti sér stað. Það getur ekki verið eftirsóknarvert samfélag.
Lögbannið á Stundina og Reykjavík Media er alvarlegasta aðför að fjölmiðlafrelsi sem framin hefur verið á Íslandi. Fjölmiðlafrelsið var tekið úr sambandi í 110 daga í aðdraganda Alþingiskosninganna 2017.
Öllum sem er umhugað um frjálsa lýðræðislega umræðu, eru andsnúnir ritskoðun og trúa á tjáningarfrelsið hljóta að vera þeirrar skoðunar.