Ásmundur Friðriksson fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi á síðasta ári vegna aksturs, eða 385 þúsund krónur skattfrjálst á mánuði. Hann hefur sjálfur sagt að líklega sé hann með hæstar endurgreiðslur flest þau ár sem hann hefur setið á þingi. Sé það rétt hefur Ásmundur fengið 24,3 milljónir króna endurgreiddar frá árinu 2013, skattfrjálst.
Eftir að þessar tölur voru opinberaðar hefur meðal annars komið fram að FÍB hafi reiknað út að það kosti einungis um tvær milljónir króna að reka bíl eins og Ásmundar miðað við þá keyrslu sem hann hefur gefið upp. Keyrslan er á við það sem meðalleigubílstjóri, sem vinnur við akstur, keyrir atvinnubifreið sína á ári. Ásmundur er ekki leigubílstjóri. Hann er þingmaður.
Einelti
Í viðtali við Kastljósi í síðustu viku, þar sem þessi akstur var til umræðu, sá Ásmundur hins vegar lítið athugavert við atferli sitt. Hann stillti málinu upp sem aðför borgarbúa (sem hann kallaði 101 rottur) gegn landsbyggðinni. Það væri lýðræðislega mikilvægt að þingmenn eins og hann gætu farið í heimsókn til kjósenda sinna. „Ég verð bara að segja eins og er að þið eruð alltaf að fara í þennan leik. Þið eruð búin að vera í heila viku að fjalla um þetta hérna, hérna á Ríkisútvarpinu, og hérna ég verð nú að segja það eins og er að það er nú gengið nokkuð nærri manni með þetta. Fólk hefur sagt við mig að þetta er miklu líkara einelti heldur en fréttaflutningi,“ sagði Ásmundur.
Hann bætti við, í samtali við Mbl.is, að fólk hefði komið að máli við sig og velt því upp hvort hann og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fái verri útreið en aðrir í fjölmiðlum eins og RÚV og Kjarnanum sökum skoðana sinna tengda útlendingamálum. Þau vilji bæði „taka til“ í útlendingamálum og sökum þess sé lagt harðar að þeim en öðrum stjórnmálamönnum.
Ásmundur telur sig því í raun fórnarlamb í málinu, ekki geranda.
Tiltekt
Það er nánast allt í þeirri upplifun fjarstæðukennt. Í fyrsta lagi er eðlilegt aðhald fjölmiðla að kjörnum fulltrúum sem hafa orðið uppvísir af mögulegri sjálftöku opinberra fjármuna ekki einelti og það er vanvirðing við þá sem verða raunverulega fyrir slíku böli að halda því fram. Það er beinlínis hlutverk fjölmiðla að fjalla um slík tilvik og þeir væru að bregðast algjörlega ef þeir gerðu það ekki.
Í öðru lagi þá hefur Ásmundur Friðriksson ekki orðið uppvís að því að vilja „taka til“ í útlendingamálum. Hann hefur hins vegar haldið uppi málflutningi, og skrifað greinar, um útlendinga sem byggja á upplognum staðhæfingum og hafa þann eina tilgang að næra hræðslu sem er sprottin af fullkominni vanþekkingu á raunveruleikanum. Málflutningur Ásmundar í þessum málaflokki hefur verið hlaðborð af útlendingaandúð og mannvonsku sem sett er fram til að reyna að skapa sér pólitíska stöðu. Þetta er ekki skoðun, heldur staðreynd. Og hefur allt verið hrakið ítarlega áður.
Auk þess gerir hann Sigríði Á. Andersen enga greiða með því að setja þau í sama hólf í þessum málum. Hún er ráðherra málaflokksins og hefur tekið ýmsar ákvarðanir honum tengdum sem skiptar skoðanir hafa verið um. En Sigríður hefur aldrei borið á torg falskar staðhæfingar um útlendinga til að kveikja útlendingaandúðarbál, líkt og Ásmundur gerir reglulega. Ástæða þess að Sigríður er mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum eru þær að hún braut gegn stjórnsýslulögum við skipun dómara og afleiðingar þess virðast engan enda ætla að taka. Sú gjörð tengist ekki með nokkrum hætti útlendingum.
Sjálftaka og/eða fjársvik
Fréttablaðið ræddi akstursmál þingmanna við Jón Þór Ólason, sérfræðing í refsirétti, í vikunni. Þar sagði hann: „Ef maður framvísar tilhæfulausum reikningum og er að búa eitthvað til í því skyni að auðgast sjálfur, þá er maður að blekkja þann sem á að greiða reikninginn. Leiði slíkur reikningur til greiðslu er blekkingin búin að ná árangri og sá sem sér um útgreiðsluna er í villu. Það eru fjársvik.”
Samkvæmt reglum um akstursgreiðslur til þingmanna á að endurgreiða kostnaðinn þegar þeir eru að sinna starfi sínu sem þingmenn. Sérstaklega er tilgreint í reglunum að greiðslurnar séu vegna funda sem þingmennirnir eru boðaðir.
Það er uppi rökstuddur grunur um að Ásmundur hafi látið skattgreiðendur greiða fyrir mun meiri keyrslu en þeim er ætlað að standa kostnað af fyrir þingmenn. Raunar er það meiri en grunur. Ásmundur gekkst nefnilega við því í síðustu viku að nota bifreið sína í prófkjörsbaráttu sinni. Hann viðurkenndi líka að ríkið hefði greitt fyrir akstur á starfsmönnum ÍNN þegar þeir tóku upp sjónvarpsþáttinn Auðlindakistan, með Ásmund í aðalhlutverki.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í Vikulokunum um helgina að hann væri tilbúinn að fullyrða að þingmenn væru að toga og teygja reglur um endurgreiðslur.
Kjarninn sendi fyrirspurn á alla landsbyggðarþingmenn sem enn sitja á þingi og sátu einnig á því í fyrra. Þar var spurt um aksturskostnað þeirra. Eftir að þau svör bárust liggja fyrir nöfn fimm þeirra sem sitja í efstu tíu sætunum yfir endurgreiddan kostnað. Í öðru sæti á listanum er Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann fékk um þrjár og hálfa milljón króna endurgreiddar í fyrra, eða 288 þúsund krónur á mánuði skattfrjáls. Hinir þrír á topp tíu listanum sem hafa opinberað keyrslu sína eru Oddný Harðardóttir, Páll Magnússon og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þau eru öll með endurgreiðslur sem eru undir 2,5 milljónum króna á ári og í neðri hluta topp tíu listans.
Rannsókn
Fyrir rúmum tveimur áratugum var ráðherra í Svíþjóð staðin að því að kaupa Toblerone, bleyjur og fleiri smámuni með kreditkorti frá ríkinu. Hún var semsagt að fjármagna einkaneyslu sína með opinberu fé. Ráðherrann greiddi þetta allt til baka og sagðist hafa litið á notkun á kortinu sem fyrirfram greidd laun. Hún þurfti samt sem áður að segja af sér. Í fríðindahneykslinu í Bretlandi fyrir tæpum áratug þurfti hópur ráðherra og þingmanna að segja af sér í kjölfar þess að þeir hagnýttu sér endurgreiðslur vegna kostnaðar frá þinginu langt umfram það sem eðlilegt þótti. Hluti þeirra var sóttur til saka og dæmdir til fangelsisvistar. Upphæðirnar voru í flestum tilfellum mun lægri en þær sem um ræðir í akstursmáli íslensku þingmannanna.
Þessi staða sem upp er komin hérlendis gerir það að verkum að algjörlega nauðsynlegt er að ráðast í tæmandi rannsókn á því hvort Ásmundur, og allir hinir þingmennirnir sem þegið hafa umtalsverðar greiðslur vegna aksturs, hafi misfarið með opinbert fé og þar með framið fjársvik. Slíkt brot er svo alvarlegt að við því liggur allt að tólf ára fangelsi. Ef einhver þeirra sem hlotið hafa endurgreiðslur verða uppvís af því að hafa rukkað fyrir notkun sem ekki fellur undir starf þingmanns, eða opinberað verður að þau hafi gefið út falska reikninga, þá eiga þau samstundis að segja af sér og sækja ætti þau til saka. Engu máli skiptir hvort viðkomandi heiti Ásmundur, Oddný, Vilhjálmur, Silja eða eitthvað annað, og engu máli skiptir í hvaða flokki viðkomandi er. Fjársvik eiga hvergi að líðast í samfélaginu. Alþingi er þar engin undantekning.
Ástæða þess að Ásmundur er í forgrunni umfjöllunarinnar er að meint sjálftaka hans er umfangsmest allra. Hún byggir á vali hans um að rukka Alþingi með þeim hætti sem hann hefur gert í gegnum árin. Þess vegna er hann holdgervingur málsins. Og það er engum nema Ásmundi sjálfum að kenna.
Lýðræðið
Margir samflokksmenn Ásmundar hafa varið hann opinberlega. Sagt að gagnrýnendur skilji ekki hlutverk landsbyggðarþingmanna og hvað felist í því. Það sé verið að refsa honum fyrir að vera duglegur.
En Ásmundur, sem setið hefur á Alþingi frá árinu 2013, virðist ekki vera sérlega duglegur þingmaður á alla mælikvarða. Hann sagði í áðurnefndu Kastljósviðtali að hann væri með með aðra eða þriðju bestu mætingu á nefndarfundi af öllum þingmönnum. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, leiðrétti það snarlega og benti á að hann hafi verið í 24-38 sæti yfir mætingu aðalmanna á nefndarfundi á síðustu fjórum þingum.
Ásmundur hefur verið fyrsti flutningsmaður eins frumvarps þann tíma sem hann hefur setið á þingi, sem varð ekki að lögum. Það lagði hann fram í september 2015. Hann hefur lagt fram fjórar þingsályktunartillögur sem fyrsti flutningsmaður. Þar af eina frá því haustið 2015. Sú snerist um að fela ætti samgönguráðherra að skipa starfshóp sem ætti að kanna hvort það væri ekki góð hugmynd að grafa göng milli meginlands og Vestmannaeyja. Hann hefur lagt fram fimm fyrirspurnir á þessum árum. Tvær snérust um Herjólf og ein um lögfræðikostnað og málsmeðferðarhraða hælisleitenda. Pólitískar hugsjónir hans virðast fyrst og síðast snúast um útlendingaandúð og sértæk samgöngumál á Suðurlandi, aðallega tengd fæðingarbæ hans Vestmannaeyjum.
Hinn meinti dugnaður Ásmundar virðist helst felast í því að hann er í kosningabaráttu allt kjörtímabilið. Megintilgangur Ásmundar í stjórnmálum virðist ekki vera málefnalegur eða einhver hugsjón, heldur sá að viðhalda stöðu sinni sem þingmaður. Hann keyrir um á kostnað skattgreiðenda til að hitta fólk og sannfæra það um að kjósa sig, bæði í prófkjörum og siðan í kosningum. Flestir ættu að vera sammála um að kostnaður vegna þessa ætti að lenda á Ásmundi sjálfum eða flokki hans, ekki skattgreiðendum. Prófkjörsbarátta og kaffispjall flokkast ekki undir starfsskyldur þingmanna. Þess utan er það feikilega ólýðræðislegt að sitjandi þingmaður hafi það forskot á aðra sem vilja komast á þing, hvort sem það er innan flokks Ásmundar í gegnum prófkjör eða frambjóðendur annarra flokka, að kostnaður hans við kosningabaráttu sé niðurgreiddur um tæpar fjögur hundruð þúsund krónur á mánuði, allt árið í kring. Skattfrjálst. Þá er ekki verið að keppa á jafnræðisgrundvelli.
Gegnsæi
Fyrir ekki svo mörgum árum voru hvorki stjórnsýslulög né upplýsingalög á Íslandi. Þá gátu ráðamenn í raun bara gert það sem þeir vildu. Og upplýstu um það sem þeim hentaði. Þótt færa megi rök fyrir því að sérstaklega upplýsingalögin séu mjög ófullkomin þá hafa þau að minnsta kosti búið til réttar forsendur og stundum virkað sem tæki fyrir fjölmiðla og almenning að nálgast upplýsingar sem eiga fullt erindi við báða. Mjög nauðsynleg skref hafa verið stigin fram á við.
Vandræðagangurinn sem hefur orðið eftir að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og ötulasti fyrirspyrjandi Alþingis, fékk takmarkað svar við spurningu um endurgreiðslur til þingmanna vegna aksturs, sem fjölmiðlar höfðu reynt að fá fram árum saman, hefur opinberað skýrt hversu langt við eigum í land með að vera eðlilegt vestrænt samfélag.
Það er því jákvætt að afleiðingin af fyrirspurn Björns Leví, og í kjölfarið umfjöllun fjölmiðla, er sú að enn eitt leyndarvígið virðist vera fallið. Um helgina sögðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, að auka þurfi gegnsæi um starfskjör kjörinna fulltrúa.
Eðlilegast væri að allar upplýsingar um allar greiðslur sem þeir fá séu birtar á heimasíðu Alþingis þannig að enginn vafi sé um hver raunkjör þeirra eru. Málið á líka að vera skýr hvati til stjórnvalda að auka á allt gagnsæi í stjórnsýslunni og birta allar upplýsingar um ákvarðanir og aðgerðir sem ógna ekki þjóðaröryggi. Það er eina leiðin til að draga úr tortryggni í garð stjórnvalda sem hafa orðið uppvís af því trekk í trekk á undanförnum áratug að sýna af sér leyndarhyggju og geðþóttavald. Það á um alla flokka sem setið hafa á valdastólum frá árinu 2009.
En fyrst og síðast ber stjórnvöldum að sýna það í verki að rökstuddur grunur um fjársvik –misnotkun á opinberu fé – sé ekki sýnd léttúð eða umburðarlyndi vegna þess að þeir sem grunaðir eru um verknaðinn séu samþingmenn þeirra. Það er ekki nóg að ætla að læra af mistökunum og lofa að sjálftökunni verði hætt frá og með deginum í dag.
Ákvörðunum, sem teknar eru af fúsum og frjálsum vilja, verða að fylgja ábyrgð.