„Héðan í frá verð ég klárari en þeir klárustu og snjallari en þeir snjöllustu“ voru orðin sem glumdu í huga hins 12 ára skópússara frá Glasgow á leið sinni yfir Atlantshafið í leit að lukku. Þegar skip Jóakims lagði loksins að höfn í Ameríku hélt hann beint til Klondike, þar sem hann vann dag og nótt. Einn daginn datt hann í lukkupottinn og nældi sér í gullklump á stærð við gæsaegg. Aðeins ári seinna, eftir klókar fjárfestingar og mikla vinnu, hafði Jóakim unnið sér inn sína fyrstu milljón (rúmlega 22 milljónir á verðlagi dagsins í dag).
En ein kúla var ekki nóg fyrir Jóakim, honum langaði að sitja við sama borð og samtímamaður og samlandi sinn hann Andrew Carnegie. Því stritaði og sparaði Jóakim allt sitt líf, og þrátt fyrir mikið mótlæti – frá óprúttnum bófum og nornum – þá tókst Jóakim að taka fram úr herra Carnegie og í dag er hann ríkasta öndin í Andabæ. Og jafnvel í heiminum.
Ef litið er á peningageyminn hans Jóakims fer það ekki á milli mála að hann er vellauðugur og pottþétt er að hann tilheyri hinu eina prósenti Andabæjar. En þær upplýsingar voru ekki nóg fyrir þrítugan bróður minn sem spurði mig um daginn „hvort ég gæti reiknað hversu mikinn pening Jóakim á í peningageyminum sínum“. Ég svaraði honum að sjálfsögðu játandi og getur hann sem og landsmenn allir nú séð svar mitt hér að neðan.
Hvað vitum við um auðæfi Jóakims?
Að mér vitandi eru til í það minnsta þrjár skriflegar heimildir um ríkidæmi Jóakims. Sú fyrsta heldur því fram að Jóakim eigi rúmlega eina múltíplújilljón. Önnur heimild, sem vitnar í bókarann hans, heldur því fram að hann eigi rúmlega 600 tilljónir og í bókinni Líf og Dagar Jóakims Aðalandar er því haldið fram að hann fimm múltíplújilljónir. Þó svo að þetta séu vissulega góðar vísbendingar er einn hængur á. Þessar tölur eru ekki tölur (það eru þó til allskonar útfærslur af tilljón, eins og til dæmis Quintilljón).
Einnig eru sérfræðingar um hagkerfi Andarbæjar ekki á öllu sammála um hvar Jóakim geymir ljónshlut auðæfa sinna. Sumir vilja halda því fram að hann haldi úti flóknu neti skúffufyrirtækja út um allan heim. Aðrir vilja meina að þorri eigna hans sé geymdur í formi skildinga og seðla í peningageyminum þar sem hinn 151 árs gamli Jóakim heldur sér í formi með því að synda, bókstaflega, í þeim.
Þar sem engar góðar upplýsingar eru til um eignir Jóakims fyrir utan það sem hann geymir í geyminum, þá til einföldunar ætla ég að meta verðmætið í peningageyminum og kalla það auðæfi Jóakims.
Nú bý ég ekki svo vel að geta talið verðmætin, pening fyrir pening. Einnig þekki ég engan í Andabæ, og þó það sé þekkt staðreynd að Andabær sé staðsettur í Calistoa sýslu á vesturströnd Bandaríkjanna, þá hefur mér ekki tekist að finna hann á korti. En, það þýðir ekkert að deyja ráðalaus. Í Don Rosa sögunni „peningageymirinn“ frá árinu 2001, segir frá einni af ránsferðum Bjarnabófana og hvernig þeir, á eftirminnilegan hátt, festast inn í geyminum. Bjarnabófarnir finna teikningar af geyminum og þar kemur fram að geymirinn sé 37 metrar á breidd og lengd og 39 metrar á hæð.
Í sögunni kemur þó ekki fram hversu mikill hluti geymisins er notað undir peninga. En samkvæmt myndinni að ofan, er dýptin um það bil 90 fet (27 metrar). Einnig ef hönnun geymisins er skoðuð kemur tvennt í ljós: (1) Mestallur, en ekki allur, geymirinn notaður undir peninga; og (2) veggirnir eru nokkuð þykkir.
Með þessar upplýsingar að vopni hef ég því reiknað það út að um það bil 4,000 rúmmetrar séu ekki nýttir undir peningageymslu, sem þýðir að um það bil 33 þúsund rúmmetrar eru notaðir undir peninga. Með þessar upplýsingar og upplýsingar um rúmmál skildinga og seðla er ég nánast tilbúinn til þess að reikna verðmætin í tanknum. En fyrst þurfum við að leysa tvö önnur vandamál.
Í fyrsta lagi þurfum við að finna út úr því, hvaða hlutfall peninga í geyminum eru seðlar og hvaða hlutfall eru skildingar. Ef myndgögn úr gömlum blöðum og af netinu er skoðuð er það nokkuð skýrt að mikill meirihluti peninga í tanknum eru í formi skildinga, og er það mitt mat að í mesta lagi sé um 1-2% af öllum peningum í tankinum í formi seðla.
Því næst þurfum við að reyna að meta í hvaða einingum (cent/dime/dollurum) þessir skildingar eru og þar sem skildingar eru hringlóttir, þarf einnig að reikna með ónotuðu plássi (lofti) á milli skildinganna.
En myndirnar að ofan hjálpa okkur við það að finna út úr því í hvaða einingum skildingar Jóakims eru. Eins og sjá má er nánast allur tankurinn fullur af gulllituðum skildingum og þar sem einu gulllituðu skildingarnir í bandaríkjunum eru dollarar þá getum við gefið okkur það að þorri auðæfa Jóakims sé í formi dollara skildinga.
Hvað varðar loftið og hlutfall þess í tankinum, þá getum við leitað aðstoðar úr hringjapökkunarfræði (e. circle packing). Þar kemur fram að ef jafnstórum hringjum er raðað á eins skilvirkan hátt og hægt er, þá kæmi loft til með að fylla tæplega 10% af geyminum. 10% er því lágmarkið. En þegar myndirnar að ofan eru skoðaðar, þá sést það að skildingunum er ekki fullkomlega vel staflað upp. Því ætla ég að gefa mér það að í það minnsta sé um 15% af plássinu „sóað“ undir loft.
Komum okkur að efninu: hversu mikla peninga á Jóakim Aðalönd?
Þar sem þessir útreikningar eru ónákvæm vísindi, þá er öruggara að reikna nokkrar sviðsmyndir. Í þeirri fyrstu reikna ég hversu ríkur Jóakim er ef skildingarnir í geyminum eru allir í jöfnum hlutföllum (13,9% dollarar, 13,9% cent, osfv.). Í Annari sviðsmyndinni reikna ég svo hversu ríkur hann er ef meirihluti (51%) af skildingunum í geyminum eru dollarar. Að lokum í þriðju sviðsmyndinni reikna ég svo verðmæti innihalds geymisins ef allir peningarnir eru dollara (að mestum líkindum er rétta svarið einhvers staðar á milli sviðsmyndar 2 og 3).
Á þessum forsendum og samkvæmt mínum útreikningum á Jóakim í minnsta lagi um það bil 2.000 milljarða króna (27 milljarða Bandaríkjadala). Og í mest lagi á hann 3.599 milljarða (48.7 biljarða Bandaríkjadala) sem hann geymir í tankinum sínum. Sem þýðir það að öllum líkindum eru verðmæti innihalds peningageymis Jóakims meiri en við Íslendingar sköpuðu samanlagt árið 2016 (mælt sem vergur landsframleiðslu). En þó svo að Jóakim hafi loksins fengið sæti við borð Carnegie, þá kemst hann þó ekki nálægt Bill Gates, sem er í minnsta lagi tvisvar sinnum ríkari en Jóakim. Þá vitum við það.
Greinin birtist fyrst í Mannlífi sem kom út í dag, 16. mars.