Hippar og umhverfissinnar ættu allir að þekkja breska hagfræðinginn Arthur Cecil Pigou – föður velferðarhagfræðinnar. Pigou var prófessor við Cambridge háskólann og gerði hann garðinn frægan snemma á tuttugustu öld þegar hann sýndi fram á það að án ítaka ríkisins eiga einstaklingar og fyrirtæki það til að pæla ekki í þeim áhrifum sem eigin gjörðir hafa á aðra.
Til að útskýra hvað Pigou var að tala um ætla ég að nota dæmi um kapítalista með pípuhatt, sem rekur lýsisbræðslu í litlum bæ. Til þess að ákveða hversu mikið lýsi hann ætlar að framleiða tekur kapítalistinn tvennt inn í reikning: (1) hversu mikið hann fær borgað fyrir hverja flösku af lýsi; og (2) hversu mikið það kostar hann að framleiða hverja flösku.
Til þess að framleiða eina flösku af lýsi þarf bræðslan að sjóða fisk, sem framleiðir fiskifýlu. Sem sagt, ef kapítalistinn vill græða þarf hann að búa í fiskifýlu, svo lengi sem hann bræðir fisk. Svo lengi sem gróðinn af lýsissölunni er meiri en hatur kapítalistans af fiskifýlu þá er hann sáttur.
Ef kapítalistinn er ekki eini íbúi bæjarins þá skapast oggulítið vandamál: Hinir íbúar bæjarins þurfa allir að búa undir sama óþef og kapítalistinn, en deila ekki í gróðanum. Ef einn daginn háttvirtur fjármálaráðherra, köllum hann Bjarna Ben, myndi heimsækja bæinn og spyrja borgarbúa hvort þeir vildu frekar anda að sér fiskifýlu eða fersku sjávarloft, myndi maður halda að þorri bæjarbúa kysu heldur ferska sjávarloftið.
Bjarni gæti því næst spurt borgarbúa: „hversu mikið (á dag/viku/mínútu) ætti kapítalistinn að borga þér, fyrir það að þú þurfir að búa í fiskifýlu?“. Þá myndu þeir sem ekki eru viðkvæmir fyrir fýlu gefa svar nálægt núlli og þeir sem viðkvæmir eru fyrir fýlu gæfu háa krónutölu.
Út frá þessum upplýsingum gæti einkahagfræðingur Bjarna reiknað út fýluskatt sem ríkið gæti lagt á hverja selda lýsisflösku. Þessar aðgerðir kæmu því til með að: (a) hækka kostnað kapítalistans og þar af leiðandi hvetja hann til að framleiða minna lýsi (og þar af leiðandi framleiða minni fýlu); og (b) Bjarni fengi pening í ríkiskassann sem hann gæti svo notað til þess að borga íbúum bæjarins til að bæta þeim þann skaða sem fýlan veldur þeim.
Það sem Bjarni hefur gert í þessu dæmi er að hann hefur fækkað þeim dögum sem allir íbúar bæjarins þurfa að búa við vonda fýlu, lækkað gróða kapítalistans og bætt íbúum bæjarins upp að þurfa samt að búa einhverja daga ársins í fýlu. Allir, nema kapítalistinn, vinna og á heildina litið hefur Bjarni bætt heildarhag samfélagsins. Húrra!
Þó hann hafi ekki notað fýlu heldur mengun og umhverfisskaða í sínum dæmum, þá var þetta það sem Pigou benti fólki á. Þökk sé honum fengu hagfræðingar loksins aðferðarfræði sem hægt var að nota til að deila um verðmæti umhverfisins og hver á að borga hverjum hvað og hvenær. En hugmyndir Pigou hafa ekki bara reynst mikilvægar í fílabeinsturnum prófessora, heldur hafa þær einnig aðstoðað ríkisstjórnir um allan heim við að leiðrétta slík vandamál.
Í byrjun árs ákváðu Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson að hækka kolefnisgjald á bensíni úr rúmlega 7 krónum í 11 krónur. Þau telja að þessi skattahækkun eigi eftir að skapa um 600 miljónir í tekjur í ári og draga úr umferð og þar af leiðandi losunar koltvísýrings (ég leyfi mér reyndar að efast að tæp 4 kr. hækkun á bensínverði eigi eftir að draga mikið úr umferð, en meira um það í næsta pistli).
Sama hvort að þessir skattar koma til með að draga úr umferð eða ekki, þá er ákvörðun þeirra að skattleggja mengun á bensín góð ákvörðun. Allavega svo lengi sem Katrín og Bjarni nota þessa peninga til þess að bæta þeim sem ekki menga fyrir það að þurfa að lifa með mengun (og loftslagsbreytingum) og/eða ef þau fjárfesta þessum peningum til að draga úr mengun: eins og til dæmis með fjárframlagi til borgarlínu.
En ef Bjarni og Katrín nota þessa peninga bara til þess að borga bensínreikning mengunarkonungs Íslands, Ásmundar Friðrikssonar, þá hafa þau fallið á prófinu hans Pigou. Mögulega án þess að vita einu sinni hver Pigou er.