Stigagjafarsamsæri í Eurovision hafa lengi lifað góðu lífi á Íslandi. Til dæmis bar Eiríkur Jónsson, æsifréttamaður DV, það samsæri í landsmenn 3. maí 1986 að heyrst hefði að keppendur í Bergen hefðu staðið í því „að hringja hver til síns heima og gefa fyrirmæli um að gefa Belgíu ekki mörg stig í keppninni“. Mörgum árum seinna þegar Gísli Marteinn tók við að lýsa keppninni, fór það ekki á milli mála að hann sá samsæri í Suðaustur-Evrópu, þar sem lönd klóruðu hvort öðru á bakinu.
Þó svo að saga Eiríks hljómi ótrúlega, sérstaklega í því samhengi að Belgíska barnastjarnan vann keppnina örugglega (og fékk 10 eða 12 stig frá 13 af þeim 20 löndum sem tóku þátt), þá var samsæri Gísla Marteinn þokkalega ígrundað. Það er að segja, Gísli hafði rétt fyrir sér að því leitinu til að landafræði spilar stóran þátt í stigagjöf.
Góðir grannar
Dúett eða sóló? Karl eða kona? Syngja á ensku eða móðurmálinu? Það skiptir ekki máli. Allavega ef marka má nýlega rannsókn þar sem Þýskir hagræðingar (já, hagfræðingar) sýna fram á það að það sem mestu máli skiptir, þegar kemur að því að spá fyrir um það hvaða lönd gefa hvor öðru helst stig, er hversu langt í burtu löndin eru frá hvort öðru (bæði í metrum og mælt í „menningarlegri nálægð“). Tökum dæmi: Osló er um það bil 1.000 km nær Reykjavík en Ankara. Menningarlega er haf og himinn á milli Noregs og Tyrklands á meðan Ísland er nánast norsk eyja. Fyrir vikið hefur Noregur verið tvisvar sinnum líklegri, í gegnum tíðina, til að gefa Íslandi í það minnsta eitt stig, borið saman við Tyrkland. Ekki nóg með það, þegar Norðmenn gáfu okkur eða Tyrklandi stig, þá gáfu þeir Íslandi að meðaltali fjórum stigum meira en Tyrklandi.
En þó svo að tilfinning Gísla Marteins hafi haft rétt á sér, þá þarf það ekkert að vera að þetta sé stórbrotið samsæri. Landfræðileg og menningarleg nálálægð helst líklega fast í hendur við tónlistarsmekk. Tökum bara vinsældalista Spotify sem dæmi. Í vikunni áður en JóiPé gaf út plötuna Afsakið Hlé (sem fyllti nánast út öll 200 sætin) voru 75 af 200 vinsælustu lögum Noregs líka vinsælust á Íslandi. Að sama skapi voru aðeins 37 lög á tyrkneska listanum einnig á Norska listanum. Sem sagt, Norðmenn eru um það bil helmingi líklegri til að hlusta á sömu tónlist og við, og helmingi líklegri til að gefa okkur stig.
Aserbaídsjan 12 stig… Ísland 0 stig
En því miður vinnur landafræðin ekki með okkur í ár og á norðurevrópski slagarinn okkar lítinn séns. Finnland er eina Norðurlandið sem keppir og fyrir utan okkar dyggu Eista þá, af öllum sem geta kosið, eru það aðeins Bretland og Spánn sem hafa kunnað að meta framlag okkar af einhverju viti í fortíðinni (þeir hafa gefið okkur stig í það minnsta í annað hvert skipti sem þeim bauðst það).
Ég vona svo sannarlega að fortíðin sé slæmur forboði framtíðarinnar. Einnig vona ég að norðurevrópskir slagarar hafi vaxið í vinsældum í suðaustri og þar með verði framlag Aserbaídsjan úrelt og Finnar falli flatir á rassgatið með augljóslegri tilraunin sinni til að fiska stig úr suðaustri. Því ef svo er þá á Ari séns. Annars ekki.