Bestu dagar ársins hafa ekkert með veðurfar að gera. Hráslagalegur rigningardagurinn í dag er einn af allra bestu dögum ársins. Í dag kynnti Alþingi alls 69 manna lista þeirra sem veittur verður íslenskur ríkisborgararéttur með lögum að tilögu allsherjar- og menntamálanefndar.
Tæplega sjötíu manns sem margir hverjir hafa á einhverjum tímapunkti beðið hér milli vonar og ótta, heims og helju, um eigin framtíð. Hvert senda þau mig? Hvar enda ég? Hva bíður mín þar? Hver bíður mín þar? Fæ ég einhvern tímann frið?
Tæplega sjötíu manns sem í dag fengu þær fréttir að biðinni sé formlega lokið. Hér eiga þau heima. Einhver þeirra sóttu hér líkast til um alþjóðlega vernd. Sumir hafa fengið hana, aðrir ekki en öll fá þau nú að teljast Íslendingar. Eftir daginn í dag ætlum við að vernda þau. Þau eru við.
En það var ekki kerfið sem ákvað að vernda þau. Þessi „heppnu“ komust framhjá kerfinu. Kerfið hefur einhverra hluta vegna metið það sem svo að það væri ekki þessi virði að veita þeim fullan rétt sem íslenskir ríkisborgarar. Þau komust ekki í gegnum nálaraugað sem íslensk stefna í útlendingamálum er. Þau hins vegar fengu áheyrn og náð hjá þingmönnum. Sögur þeirra rötuðu þangað. Einhverjir aðrir misstu af því. Einhverjir aðrir vissu ekki að það væri hægt. Einhverjum öðrum var vísað úr landi áður en þingið náði að vernda þau. Einhverjir… Margir...
Valið virkar handahófskennt. Tæplega 1.100 manns sóttu um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun árið 2017. Það sem af er ári hafa tæplega 200 sótt hér um vernd. Alls bárust þingnefndinni 147 umsóknir um ríkisborgararétt, sem að öllum líkindum er síðasta hálmstrá örvæntingafullra umsækjenda sem komið hafa að lokuðum dyrum alls staðar annars staðar í kerfinu.
Dómsmálaráðuneytið setti í vetur nýja reglugerð sem þrengir að vernd enn fleira fólks sem hingað leitar hennar. Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar sjálfs forsætisráðherrans um að mannúð eigi að vera leiðarljós í þessu málaflokki, ekki síst þegar kemur að börnum, þá standi þessi reglugerð óhögguð þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir Rauða krossins vegna þessarar breytingar.
Frá Rauða krossinum, úr fjölmiðlum og frá vinum og vandamönnum þessa ólíka hóps sem sækja hér um grið, berast ítrekaðar sögur sem þessar innan úr þessu kerfi, hvort sem er um ræðir íþyngjandi reglugerðabreytingar, brottvísanir um miðjar nætur, synjun á endurupptökum mála, synjun á efnismeðferð mála, skollaeyrum skellt við neyðarópi fjölskyldna, veiks fólks, veikra barna, venjulegs fólks og venjulegra barna. Bara fólks. Einstaklinga. Óskiljanlegar ákvarðanir. Ómannúðlegar ákvarðanir.
Einstaka sinnum upplifum við þessa gleðidaga eins og daginn í dag. Þegar rangar ákvarðanir eru gerðar réttar með einu pennastriki. Þar sem mannúð forsætisráðherra og allsherjar- og menntamálanefndar trompar loksins ómannúðlega framkvæmd kerfisins. Þessa kerfis sem starfar á vegum sama forsætisráðherra, allsherjar- og menntamálanefndar en einnig ríkisstjórnarinnar, Alþingis alls, dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar. Og okkar allra.
Við ættum öll að vilja að allir dagar séu eins og dagurinn í dag. Að kerfið virki eins og forsætisráðherra boðaði - með mannúð að leiðarljósi.