Íslensku landsliðin í fótbolta, bæði karla og kvenna, hafa sent æskunni í landinu þau mögnuðu skilaboð, með árangri sínum, að allt sé hægt. Það sama má segja um annað íþróttafólk, í bæði hóp- og einstaklingsíþróttum, sem nær að keppa á stærsta sviðinu og erfiðustu mótunum.
Að baki liggur mikil vinna sem síðan skilar árangri.
Nú á laugardaginn gerist það sem hefur alla tíð verið svo til óhugsandi; Ísland stígur inn á sviðið í lokakeppni HM í Rússlandi og spilar við stjórnum prýtt lið fótboltaþjóðarinnar Argentínu.
Sannarlega ótrúleg tímamót í íslensku íþróttalífi og ekki hægt annað en að fyllast stolti.
Samhliða þessum viðburði í Rússlandi er að eiga sér stað annað ótrúlegt íþróttaafrek. Tryggvi Hlinason, frá Svartárkoti í Bárðardal, verður einn þeirra sem til greina kemur í nýliðavali NBA deildarinnar, sem fram fer í New York 21. júní.
Þetta er nánast lygilegt afrek hjá Tryggva, ekki síst í ljósi þess að hann byrjaði ekki að æfa körfubolta fyrr en fyrir um fimm árum.
Hann sló í gegn með Þór frá Akureyri, þar sem hann lék undir góðri handleiðslu þjálfara sem greinilega hafa gert honum gott og séð í honum hæfileika. Síðan hefur hann sannað sig með landsliðinu og Valencia á Spáni. Hann á framtíðina fyrir sér, svo mikið er víst.
Nýliðavalið í Bandaríkjunum er stórviðburður í körfuboltaheiminum, og þúsundir leikmanna æfa árum saman til að reyna að ná inn í valið, í gegnum háskólaboltann í Bandaríkjunum og síðan einnig frá öðrum löndum.
Líkurnar á því að komast að eru litlar og það er ekki bara nóg að vera góður. Það eru allir góðir sem koma til greina. Það þarf eitthvað sérstakt til að ná í gegn um nálaraugað.
Ekki síst í ljósi þessa, er afrek Tryggva hreint út sagt ótrúlegt.
Miðlar hér í Bandaríkjunum hafa sumir gefið til kynna að hann geti komist í deildina, en síðan Draftsite.com spáir því að Tryggvi komist inn seint í 2. umferð valsins.
Pétur Guðmundsson, besti körfuboltamaður sem Ísland hefur átt, komst inn í deildina í 3. umferð valsins árið 1981 á sínum tíma og lék í NBA deildinni með Los Angeles Lakers, San Antonio Spurs og Portland Trailblazers.
Jón Arnór Stefánsson kom til Dallas Mavericks á frjálsri sölu, en náði ekki að spila leik fyrir liðið. Afrek hans og Péturs eru mögnuð, og má segja að þeir hafi rutt brautina fyrir íslenska körfuboltamenn, þegar kemur að því að senda út þau skilaboð að allt sé hægt, ef vilji og hæfileikar fara saman.
Gaman er að sjá þessi tímamót í íslensku íþróttalífi; íslenska liðið að brjóta blað í knattspyrnusögunni sem fámennasta landið í sögunni sem nær liði inn í úrslitakeppni HM og síðan að bóndasonurinn úr Bárðardal sé einn þeirra sem komi til greina sem leikmaður í NBA í sjálfu nýliðavalinu.
Draumar geta ræst. Þetta segir okkur það.