Uppi varð hefðbundið sumarfár í vikunni þegar Stöð 2 fór í loftið með frétt byggða á háskólaritgerð um skattkerfið, sem reyndist byggð á kolröngum forsendum. Það er ekki hægt að segja að samfélagið hafi farið á hliðina. Það varð hins vegar líklega töluvert rask á högum allra sem komu að málinu. Þeim sem skrifaði ritgerðina, leiðbeinanda viðkomandi og skólanum, auk fréttamannsins sem fullyrti að virðisaukaskatturinn skilaði engu og líklega einhverjum yfirmönnum hans.
Fréttin var uppfærð um leið og ljóst varð hvers eðlis var og síðar leiðrétt með nýrri frétt. Leiðbeinandinn var tekinn tali, viðurkenndi að mistök hefðu orðið en að hann sæi ekki ástæðu til að stíga til hliðar til að „axla ábyrgð“, líkt og einhverjir kölluðu strax eftir. Þeir vildu að fréttamaðurinn myndi skila inn uppsagnarbréfi, leiðbeinandinn átti að stíga til hliðar og ritgerðin að fá afturvirka falleinkunn.
Við erum fljót að dæma hvort annað þegar gerð eru mistök. Við munum það of sjaldan að mistökin eru til að læra af þeim, mistök eru það sem gerir okkur að manneskjum. Og við gleymum því líka að það getur skipt öllu máli hver gerir mistökin og í hvaða aðstæðum.
Við höfum sem samfélag og þjóð verið léleg í því í lengri tíma að eiga samræðu um ábyrgð. Við lifum eftir skýrum reglum um hvað má og hvað er bannað með lögum, en fæst af þeim atvikum sem setja samfélagið okkar reglulega á hliðina fela í sér lögbrot. Mannleg samskipti geta verið flókin, skráðar reglur um þau oft ekki til, árekstrar eiga sér stað, sumt má og annað ekki og þó að allir reyni sitt besta tekst stundum ekki alveg að vera faglegur, alltaf og alls staðar.
Mistök munu alltaf eiga sér stað. Alls staðar og hjá öllum. Ekki síst í umhverfi á borð við það sem íslenskir fjölmiðlar búa við, þar sem undirmönnun, lág laun og framleiðslupressa er meginreglan. Líklegast á hið sama við um háskólaumhverfið. Það er hægt að gefa sér að viðkomandi aðilar munu aldrei hleypa aftur í gegn hjá sér frétt eða ritgerð af því kaliberi sem rataði í fréttirnar nú í vikunni. Þau munu læra af mistökunum, passa sig betur héðan í frá.
Að öllum líkindum þarf líka að skoða starfsumhverfi beggja. Eðlilegustu viðbrögðin við svona uppákomu er að skoða verkferlana sem eru til staðar til að verja alla hlutaðeigandi og koma í veg fyrir að mistök geti gerst. Það er óþolandi ávani að kalla sífellt eftir afsögnum eða því að starfsfólk „á gólfinu“ sé rekið geri það mistök. Fólki sem alla jafna gerir sitt besta, á allt sitt undir vinnunni sinni og þarf, rétt eins og við hin á öllum sviðum lífs okkar og skeiðum, að fá tækifæri til að læra af mistökum sínum. Við skulum láta af þessum hvimleiða ávana.
Það þýðir þó ekki að við eigum að hætta að kalla eftir því að ábyrgð sé öxluð þegar það á við. Gerist starfsmenn ítrekað uppvísir af mistökum er ljóst að ekki er lengur um mistök að ræða heldur ávana eða lífstíl. Slíkir eru hættir að reyna að læra af mistökum sínum eða að vilja koma í veg fyrir þau. Þá er ekkert annað að gera en að vísa þeim á dyr og krefjast að svo sé gert ef þess þarf.
Jafnframt væri mun eðlilegra að líta til þeirra sem raunverulega bera ábyrgð á því að starfsfólkið á gólfinu er víða undirmannað, illa launað og ekki almennilega í stakk búnið til að vinna vinnuna sína. Að starfsumhverfið sé þannig að það bjóði mistökum heim. Forstjórar og yfirmenn, sem fá umbunað í samræmi við þá ábyrgð sem þeir eiga að bera, eru þeir sem raunverulega ættu að þurfa að skýra sín mál miklum mun oftar en þeir gera. Fólk sem réttlætir hvínandi há laun sín með allri þeirri ábyrgð sem það þarf að standa undir - en gerir það síðan bara alls ekkert þegar á hólminn er komið. Meðal forstjórinn í Kauphöllinni er með tæplega sautjánföld lágmarkslaun. Fyrir hvað er verið að greiða ef ekki einmitt árangur og ábyrgð? Hún sést hins vegar undarlega sjaldan ábyrgðin þegar mistök hafa átt sér stað í rekstri eða umhverfi fyrirtækisins eða einfaldlega illa gengur. Alltof margir þykjast bera ábyrgð á ýmsu sem þeir síðan vilja alls ekkert kannast við þegar hún bankar upp á.
Og þessu öllu má síðan alls ekki rugla saman við ábyrgð kjörinna fulltrúa og embættismanna. Dæmin eru skammarlega fá um stjórnmálamenn sem axlað hafa pólitíska ábyrgð á mistökum sínum. Við gerum meiri kröfur til þeirra sem hér hafa völd til að setja okkur reglur og stjórna mikilvægustu stofnunum landsins. Mistök af þeirra hálfu eru oftast mun afdrifaríkari en önnur. Þeir bera líka ábyrgð á því hvernig álagið er á starfsfólki heilbirgðiskefisins og menntakerfisins svo eitthvað sé nefnt. Ábyrgð þessara aðila er miklum mun meiri og lýðræðinu nauðsynlegt að allir sinni aðhaldshlutverki sínu gagnvart stjórnvöldum sem mest og best.
Ritgerðarmálið er dæmi um storm í vatnsglasi sem líklegast er nú þegar liðinn hjá. En það er ágætt mál til að minna okkur á að við þurfum að halda áfram með nauðsynlega umræðu um ábyrgð hvers og eins. Á morgun gæti það verið við sem misstígum okkur. Við skulum því ekki gleyma að það eru ekki mistökin sem skilgreina okkur, heldur það hvernig við bregðumst við þeim. Lykilatriðið er að gera það rétt og vel og í samræmi við þá ábyrgð sem við eigum að standa undir.